Fara í innihald

Dómkirkjan í Lübeck

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dómkirkjan í Lübeck

Dómkirkjan í Lübeck er fyrsta tígulsteinakirkjan við Eystrasalt. Hún er 130 metra löng og þar með ein af allra lengstu tígulsteinakirkjum heims.

Saga dómkirkjunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingasaga

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1173 lagði Hinrik ljón (Heinrich der Löwe) grunnstein að dómkirkjunni, en hann hafði áður stofnað borgina Lübeck og byggt hana upp. Kirkjan var vígð 1230 og helguð Jóhannesi skírara og heilögum Nikulási. Kirkjan var byggð úr tígulsteinum, sú fyrsta yfirhöfuð við Eystrasalt. Aðeins 36 árum seinna var kirkjunni breytt og fékk hún þá sinn núverandi gotneskan stíl. Því verki lauk 1335. Seinna á sömu öld var kirkjan lengd, þannig að hún varð tvöfalt lengri en áður. Hún varð þá 130 metra löng og var þá (og er enn) meðal lengstu kirkna heims. Fram að siðaskiptum var dómkirkjunni stjórnað af biskupi en þegar kirkjan varð lútersk tók borgarráð við.

Bruni og endurreisn

[breyta | breyta frumkóða]
Dómkirkjan brann á pálmasunnudegi 1942

Á pálmasunnudegi 1942 varð Lübeck fyrir miklum loftárásum Breta. Kirkjan sjálf varð ekki fyrir sprengjum, en höggþungi einnar sprengju í götunni við hliðina olli því að allur austurhluti þaksins hrundi. Eldur úr brennandi nágrannahúsum læsti sig í kirkjuna. Meðan það átti sér stað, var hlaupið til og bjargað því sem bjarga mátti af listaverkum kirkjunnar. Kirkjan sjálf brann til kaldra kola og við það hrundu bæði turnþökin. Árið 1946 hrundi svo einn aðalveggur kirkjunnar inn í rústirnar. Eftir stríð var ákveðið að bíða með að endurreisa dómkirkjuna sökum fjárskorts, þar til búið væri að gera við Maríukirkjuna. Á meðan lá dómkirkjan í rústum. Framkvæmdir við hana hófust þó áður en Maríukirkjan var endurvígð, en þeim lauk ekki fyrr en 1982. Turnarnir í dag eru 105 metra háir.

Sigurkrossinn

Sigurkrossinn

[breyta | breyta frumkóða]

Sigurkrossinn er 17 metra hátt listaverk sem sýnir Jesú hangandi á krossi, en styttur af öðrum persónum eru staðsettar á þverbita krossins. Listaverkið var smíðað af Bernt Notke 1477 í þágu biskupsins, sem þá var Albert II Krummendiek. Listaverkinu var bjargað í brunanum 1942 og var aftur sett upp í kirkjunni við endurreisn hennar. Sigurkrossinn þykir eitt fegursta miðalda listaverk sem smíðað hefur verið í Lübeck.

Prestaþilið

[breyta | breyta frumkóða]

Prestaþilið skildi að kirkjuskipið og verustað prestanna. Þilið var smíðað 1477 af Bernd Notke og þykir einnig afburða fagurt. Á þilinu eru fjórar styttur sem eina að tákna hina fjóra verndardýrlinga kirkjunnar: Heilagur Nikulás, María mey, Jóhannes skírari og heilagur Blasíus. 1628 var stór klukka sett inn í þilið, en klukkur á þeim tíma voru fátíð frumkvölðaverk. Prestaþilið bjarðaðist í brunanum 1942. Eftir endurreisn dómkirkjunnar var þilið hækkað, það er að segja það var sett á stultur og þjónar ekki lengur sem þil, heldur eingöngu sem listaverk.

Þjóðsögur

[breyta | breyta frumkóða]

Um stofnun kirkjunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Sagan segir að eitt sinn hafi Karlamagnús farið á veiðar í Saxlandi (sem þá náði alla leið að dönsku landamærunum). Þar elti hann hjört, en gat hvorki drepið hann né fangað. Því hafi keisarinn tekið af sér gullna hálskeðju og sett hana í hornin á hirtinum. Um 400 árum seinna hafi svo Hinrik ljón, stofnandi Lübeck, farið á veiðar á sömu slóðum. Hann settist niður eitt sinn til að íhuga hvernig hann gæti fjármagnað kirkju í nýstofnaðri borg sinni. Allt í einu hafi hjörtur gengið í flasið á honum, en hann hafði gullna hálskeðju í hornunum. Hinrik skaut dýrið og náði keðjunni. Hann þóttist vita að um himnasendingu væri að ræða, því keðjan var það dýrmæt að hún myndi fjármagna kirkjuna. Hjörturinn stóð hins vegar upp aftur og hvarf út í buskann. Hinrik lagði því grunnstein kirkjunnar þar á staðnum.

Rós Rabundusar

[breyta | breyta frumkóða]

Áður fyrr var kirkjunni stjórnað af kirkjuráði, sem aftur laut biskupi. Sagan segir að þegar kæmi að dánarstund eins meðlims kirkjuráðsins, hafi hvít rós birst í stól hans. Eitt sinn fann ráðsmaður að nafni Rabundus hvíta rós í sætinu sínu. Hann hrökk við, en þóttist ekki vera reiðubúinn að deyja enn. Hann ætti margt eftir ógert. Því tók hann rósina og lagði hana í stól sessunautar síns. Þegar sá kom að stólnum sínum og sá rósina, varð honum svo hverft við að hann lagðist veikur og dó þremur dögum seinna. Rabundus sá hins vegar eftir gjörðum sínum og sagði skriftarföður sínum frá. Hann sór einnig að aðferðin til að segja fyrir um dauða ráðsmeðlimanna skyldi breytast eftir sinn dag. Þegar Rabundus var allur, hættu rósirnar að birtast. Þess í stað heyrðust þrjú þung högg í kirkjunni sem glumdu um alla bygginguna. Högg þessi heyrðust lengi vel eftir þetta.