Travemünde

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hluti af baðströndinni í Travemünde. Fremst sér í bakka árinnar Trave en til vinstri sér í Maritim-hótelið.

Travemünde er lítill strandbær sem tilheyrir Lübeck. Hann liggur fyrir norðan aðalborgina, við ósa Trave í Eystrasalt. Travemünde er einn vinsælasti og kunnasti heilsu- og baðstrandabær Þýskalands.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Travemünde var stofnuð sem borg 1187 á tímum Hinriks ljóns (Heinrich der Löwe). 1226 veitt keisarinn Hinrik II borginni Lübeck ýmis réttindi gagnvart Travemünde, en 1329 eignaðist Lübeck bæinn alveg. Bærinn var víggirtur í gegnum miðaldirnar. 1802 hófst þjónusta við baðgesti í bænum, sem fljótlega varð að einum vinsælasta baðstað í þýska ríkinu. Napoleon hertók Lübeck og Travemünde 1806 og lét hann brjóta niður allar víggirðingar og múra. 1882 fékk bærinn járnbrautartengingu við Lübeck. Ári seinna var spilavítið vígt, en það er með elstu spilavítum Þýskalands. Í dag búa tæp 14 þús manns í bænum, en hundruðir þúsunda gestir sækja hann árlega heim. Árlega fer fram siglingavika í bænum, en hún er talsvert minni í sniðum en Kílarvikan.

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Þótt Travemünde tilheyri Lübeck á bærinn sér þó sitt eigið skjaldarmerki. Það sýnir rauða borgarmúra og turn á hvítum grunni. Múrarnir tákna Travemünde. Litli skjöldurinn til vinstri er skjöldur Lübeck og skjöldurinn til hægri eru litir Slésvíkur-Holtsetalands.

Skoðunarvert[breyta | breyta frumkóða]

Vitinn[breyta | breyta frumkóða]

Vitinn í Travemünde er einn sá elsti í Þýskalandi. Hann var reistur 1539 á stað þar sem áður hafði staðið viti (sem Danir eyðilögðu). Vitinn er gerður úr tígulsteinum og er 31 metra hár. Hann brann 1827 þegar eldingu laust í hann og eyðilagðist þá ljósagangurinn. 1903 var vélinni umbreytt í rafmagnsvél. Vitinn var í notkun allt til 1972, en þá var nýr viti settur upp á hið nýreista hótel Maritim í 115 metra hæð. Nýi vitinn er því hæsti viti Evrópu. Gamli vitinn er friðaður og er safn í dag.

Passat[breyta | breyta frumkóða]

Passat er gamalt seglskip sem var smíðað 1911 í Hamborg. Það var í stöðugum verslunarsiglingum til Suður-Ameríku, en 1925 varð það að skólaskipi. Það mun hafa siglt 39 sinnum fyrir Hornhöfða og tvisvar í kringum hnöttinn. 1959 keypti Lübeck skipið og setti það upp sem safn í Travemünde. Skipið er opið almenningi. Þar eru þrír veislusalir og 98 kojur. Vinsælt er að gifta sig um borð í skipinu. Möstrin eru 56 metra há.

Sand World[breyta | breyta frumkóða]

Baðströndin í Travemünde (á ströndinni í Priwall) hefur síðustu ár verið notuð fyrir Sand World, þ.e. sýningu á tröllauknum sandfígúrum. Ýmsir sandlistamenn komu saman og mynduðu heila sandveröld, bæði fígúrur, byggingar og annað, og voru sumar myndirnar allt að 10 metra háar. Sand World hófst 2002 og hefur verið haldið árlega til 2007. Hvert ár var annað þema í gangi. Verkefnið lognaðist hins vegar út af 2007 vegna mikilla rigninga þetta sumar.

Myndasafn[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]