Ráðhúsið í Lübeck
Ráðhúsið í Lübeck (eða Ráðhúsið í Lýbiku) er meðal stærstu og merkustu gotneskra ráðhúsbygginga í Þýskalandi. Það stendur í miðborginni nálægt Maríukirkjunni. Vinkill byggingarinnar myndar aðalmarkaðstorgið. Húsið er á heimsminjaskrá UNESCO, ásamt stórum hluta miðborgarinnar.
Saga ráðhússins
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Lübeck varð að fríborg í þýska ríkinu 1226, var ákveðið að reisa nýtt ráðhús, sæmandi fyrir borgina. Elsti hlutinn var í byggingu út öldina og var vígður 1308. Það er suðurálman, sem er gerð úr brenndum svörtum tígulsteinum. Við uppgang borgarinnar á tímum Hansasambandsins var næstu álmu bætt við. Það var byggingin með tígulsteinaveggnum, götunum og turnunum og var vígt 1435. Síðla á 16. öld var svo hvíta húsinu með súlnagöngunum bætt við. Ráðhúsið var þá þegar orðið eitt það stærsta í Evrópu. Feneysku tröppurnar á austurhlið ráðhússins voru smíðaðar 1594. Þær eyðilögðust að mestu í loftárásum 1942 og eru ekki lengur í notkun í dag. Ráðhús þetta er enn í notkun sem ráðhús Lübeck.