„Adolf Hitler“: Munur á milli breytinga
TKSnaevarr (spjall | framlög) Ekkert breytingarágrip |
mEkkert breytingarágrip |
||
Lína 18: | Lína 18: | ||
| stjórnartíð_start3 = [[29. júlí]] [[1921]] |
| stjórnartíð_start3 = [[29. júlí]] [[1921]] |
||
| stjórnartíð_end3 = [[30. apríl]] [[1945]] |
| stjórnartíð_end3 = [[30. apríl]] [[1945]] |
||
| embætti3 = [[Formaður nasistaflokksins]] |
|||
| staðgengill3 = [[Rudolf Hess]] (1933–1941) |
| staðgengill3 = [[Rudolf Hess]] (1933–1941) |
||
| forveri3 = [[Anton Drexler]] (formaður) |
| forveri3 = [[Anton Drexler]] (formaður) |
Útgáfa síðunnar 22. apríl 2024 kl. 18:16
Adolf Hitler | |
---|---|
Kanslari Þýskalands | |
Í embætti 30. janúar 1933 – 30. apríl 1945 | |
Forseti | Paul von Hindenburg (1933–1934) |
Forveri | Kurt von Schleicher |
Eftirmaður | Joseph Goebbels |
Führer Þýskalands | |
Í embætti 2. ágúst 1934 – 30. apríl 1945 | |
Forveri | Paul von Hindenburg (forseti) |
Eftirmaður | Karl Dönitz (forseti) |
Formaður nasistaflokksins | |
Führer Nasistaflokksins | |
Í embætti 29. júlí 1921 – 30. apríl 1945 | |
Staðgengill | Rudolf Hess (1933–1941) |
Forveri | Anton Drexler (formaður) |
Eftirmaður | Martin Bormann (flokksráðherra) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 20. apríl 1889 Braunau am Inn, Austurríki-Ungverjalandi |
Látinn | 30. apríl 1945 (56 ára)[1] Berlín, Þýskalandi |
Dánarorsök | Sjálfsmorð |
Stjórnmálaflokkur | Nasistaflokkurinn |
Hæð | 1,73 |
Maki | Eva Braun[2] |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Foreldrar | Alois Hitler og Klara Hitler |
Starf | Hermaður, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Adolf Hitler (20. apríl 1889 – 30. apríl 1945) var kanslari Þýskalands á árunum 1933-1945 og á árunum 1934-1945 „foringi og kanslari“ (þýska Führer und Reichskanzler) Þýskalands.
Hitler fæddist í Braunau am Inn í Austurríki-Ungverjalandi, nálægt þýsku landamærunum. Hann var fjórði í röð sex barna Alois Hitler og konu hans, Klöru. Sem ungur maður reyndi Hitler að komast inn í listaháskólann í Vín, en var hafnað. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út gerðist hann sjálfboðaliði í bæverska hernum og barðist á vesturvígstöðvunum fyrir Þjóðverja nær allt stríðið, þar til hann særðist þann 15. október 1918 eftir gasárás og var fluttur á herspítala. Eftir ósigur Þjóðverja settist Hitler að í München í Bæjaralandi og gekk 1919 í stjórnmálaflokk sem seinna var kallaður Nasistaflokkurinn. Hitler varð formaður þess flokks 1921 og leiddi flokkinn til æviloka. Árið 1923 tók hann þátt í misheppnaðri valdaránstilraun í München sem nefnd hefur verið bjórkjallarauppreisnin. Hann var fangelsaður í kjölfarið og skrifaði bókina Mein Kampf á meðan á fangelsisvistinni stóð, en hann var látinn laus úr haldi eftir níu mánuði. Hitler komst til valda árið 1933 en þá var hann útnefndur kanslari Þýskalands af Paul von Hindenburg, forseta Þýskalands. Eftir fráfall Hindenburgs árið eftir tók Hitler sér titil kanslara og foringja og var í reynd orðinn einræðisherra í Þýskalandi.
Á valdatíma sínum leiddi Hitler Þýskaland í stríð við flestar nágrannaþjóðir sínar. Með innrás Þjóðverja í Pólland 1939 hófst seinni heimsstyrjöldin sem lauk með algerum ósigri Þjóðverja sex árum síðar. Á meðan stríðinu stóð frömdu þýski herinn og SS-sveitir Nasistaflokksins gríðarlega stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð, en Helförin og gjöreyðingarstríðið gegn Sovétríkjunum voru á meðal þessara voðaverka. Á lokadögum stríðsins, þegar Rauði herinn hafði nánast alla Berlín á sínu valdi, framdi Hitler sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi í Berlín sem hann hafði hafst við í frá upphafi árs 1945, ásamt eiginkonu sinni, Evu Braun, en þau höfðu gift sig tveimur dögum fyrr.
Sagnfræðingurinn Ian Kershaw hefur lýst Hitler sem „holdgervingu illskunnar í nútímastjórnmálum“.[3] Undir stjórn Hitlers og áhrifum frá hugmyndafræði kynþáttahyggju bar stjórn nasista ábyrgð á þjóðarmorði um sex milljóna Gyðinga og milljóna annarra fórnarlamba sem hann og fylgismenn hans álitu „undirmálsfólk“ (Untermenschen) eða félagslega óæskilegt. Hitler og stjórn nasista báru líka ábyrgð á morðum á um 19,3 milljónum almennra borgara og stríðsfanga. Að auk dóu 28,7 milljón hermenn og almennir borgarar vegna stríðsátakanna í Evrópu. Aldrei í sögunni hafa jafnmargir látið lífið í stríði og í síðari heimsstyrjöld.
Æviágrip
Adolf Hitler fæddist þann 20. apríl 1889 í bænum Braunau am Inn í Austurríki-Ungverjalandi (þar sem nú er Austurríki), nálægt landamærunum við þýska keisaraveldið. Þegar Hitler var þriggja ára flutti fjölskyldan til Passau í Þýskalandi. Þar áskotnaðist Hitler bæverskur hreimur sem hann átti eftir að tala með alla ævi. Fjölskyldan flutti aftur til Austurríkis árið 1894 og settist að í Leonding, nálægt Linz.[4]
Faðir Hitlers, Alois, var embættismaður hjá tollgæslunni og ætlaðist til þess að Adolf myndi feta svipaða braut í lífinu og hann. Adolf lét sig hins vegar dreyma um að verða listamaður og deildi oft við föður sinn um framtíðaráætlanir sínar. Hann átti þó í nánu sambandi við móður sína, Klöru, sem sá alfarið um uppeldi hans.[4]
Líkt og margir þýskumælandi Austurríkismenn fór Hitler að aðhyllast þýska þjóðernishyggju á unga aldri. Hann lýsti því yfir að hann væri tryggur Þýskalandi en ekki Austurríki og hataðist við hið aldurhnigna Habsborgaraveldi fyrir að ríkja yfir mörgum fjölbreyttum þjóðum en ekki einni þýskri þjóð.
Árið 1907 flutti Hitler til Vínarborgar og sótti um inngöngu í listaháskólann þar í borg en var hafnað tvisvar.[5] Á árum Hitlers í Vín varð hann fyrir áhrifum af kynþáttahyggju og gyðingahatri og sagðist síðar sjálfur hafa farið að hata gyðinga á þessum tíma.[5] Hann flutti til München í Þýskalandi árið 1913. Hitler var kvaddur í austurrísk-ungverska herinn þann 5. febrúar 1914 en þegar hann kom til Salzborgar þótti hann ekki hæfur til herþjónustu og fékk undanþágu frá herkvaðningunni.
Fyrri heimsstyrjöldin
Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út í ágúst árið 1914 bauð Hitler sig viljugur fram í þýska herinn í Bæjaralandi. Hann var staðsettur í varafótgönguliði og gerðist sendiboði á vesturvígstöðvunum í Frakklandi og Belgíu á meðan á stríðinu stóð. Hann var viðstaddur orrusturnar við Ypres, Somme, Arras og Passchendaele og særðist í orrustunni við Somme. Hitler hlaut nokkur heiðursverðlaun fyrir hugrekki með frammistöðu sinni í stríðinu.
Hitler lýsti stríðinu síðar sem „bestu reynslu lífs síns“. Hann varð enn meiri þjóðernissinni við herþjónustu sína og var mjög brugðið þegar Þýskaland gafst upp fyrir bandamönnum í nóvember árið 1918. Líkt og margir þjóðernissinnar aðhylltist Hitler þá kenningu að Þýskaland hefði ekki í raun verið sigrað á vígvellinum heldur hefði þýski herinn verið „stunginn í bakið“ af svikulum stjórnmálamönnum, gyðingum og marxistum heima fyrir. Líkt og mörgum Þjóðverjum bauð Hitler við skilmálum Versalasamningsins og nýtti sér síðar óánægju Þjóðverja með hann til að komast til valda.
Byrjun stjórnmálaferilsins
Hitler sneri aftur til München eftir stríðið og vann áfram í hernum. Árið 1919 gekk hann í þýska verkamannaflokkinn (Deutsche Arbeiterpartei eða DAP). Þar kynntist hann Dietrich Eckart, einum stofnanda flokksins, og gerðist pólitískur lærlingur hans. Flokkurinn breytti nafni sínu í Þjóðernissósíalíska þýska verkamannaflokkinn (Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei eða NSDAP), eða Nasistaflokkinn, árið 1920. Hitler hannaði einkennistákn flokksins í formi hakakross í hvítum hring á rauðum fleti.
Hitler lauk herþjónustu sinni þann 31. mars árið 1920 og hóf fullt starf fyrir Nasistaflokkinn. Hitler varð fljótt alræmdur fyrir ofsafengnar ræður sínar þar sem hann fordæmdi Versalasamninginn, pólitíska andstæðinga sína og sérstaklega marxista og gyðinga. Hitler sagði sig úr flokknum þann 11. júní 1921 þegar andófsmenn innan flokksins reyndu að koma á samruna við þýska sósíalistaflokkinn. Þar sem Hitler var frægasti og færasti ræðumaður Nasistaflokksins féllst miðstjórn flokksins á að gera hann að flokksformanni og hætta við samrunann til þess að missa hann ekki úr röðum sínum.
Bjórkjallarauppreisnin
Árið 1923 fékk Hitler hershöfðingjann Erich Ludendorff úr fyrri heimsstyrjöldinni til liðs við sig og reyndi að fremja valdarán sem varð síðar kallað bjórkjallarauppreisnin. Hitler vildi líkja eftir „Rómargöngu“ Benito Mussolini með því að ræna völdum í Bæjaralandi og síðan skora á ríkisstjórnina í Berlín. Þann 8. nóvember ruddust Hitler og stormsveitir nasista inn á 3.000 manna fjöldasamkomu í bjórkjallaranum Bürgerbräukeller í München.[6] Hitler lýsti því yfir að bylting væri hafin og að hann hefði myndað nýja ríkisstjórn ásamt Ludendorff. Næsta dag gengu Hitler og stuðningsmenn hans frá bjórkjallaranum að stríðsráðuneyti Bæjaralands en lögreglan yfirbugaði þá. Sextán nasistar og fjórir lögreglumenn létust í átökunum.
Fangavist
Þann 11. nóvember 1923 var Hitler handtekinn fyrir landráð. Þann 1. apríl næsta ár var Hitler dæmdur til fimm ára fangelsisvistar í Landsberg-fangelsi vegna valdaránstilraunarinnar. Í fangelsinu var tekið mjúkt á Hitler og hann fékk reglulega bréf frá aðdáendum sínum og heimsóknir frá meðlimum nasistaflokksins. Hitler var að endingu náðaður af hæstarétti Bæjaralands og honum sleppt þann 20. desember 1924, eftir aðeins rúmt ár í fangelsi.[7]
Á meðan hann var í fangelsi samdi Hitler fyrsta bindi bókarinnar Mein Kampf (Barátta mín) ásamt ritara sínum, Rudolf Hess. Bókin var sjálfsævisaga sem lýsti hugmyndafræði Hitlers. Í bókinni koma fram áætlanir hans um að skapa þýskt samfélag byggt á grundvelli kynþáttar og gefið í skyn að fremja verði þjóðarmorð í þessu skyni.[8]
Leiðin til valda
Þegar Hitler var sleppt úr fangelsi var þýski efnahagurinn á bataveg og því erfiðara fyrir hann að vinna nasistaflokknum stuðning. Þýski efnahagurinn leið hins vegar fyrir efnahagshrunið í Bandaríkjunum árið 1929 þegar kreppan mikla hófst. Hitler og flokksmenn hann nýttu sér efnahagskreppuna og lofuðu að fella Versalasamninginn úr gildi, styrkja efnahaginn og skapa ný störf ef þeir kæmust til valda. Árið 1930 vann nasistaflokkurinn 18,3 prósent greiddra atkvæða og 107 þingsæti á ríkisþinginu[5] og varð þar með næststærsti stjórnmálaflokkurinn í Þýskalandi.
Hitler bauð sig fram í forsetakosningum Þýskalands árið 1932 á móti Paul von Hindenburg. Hann lenti í öðru sæti í báðum umferðum kosninganna og hlaut 35 prósent atkvæða í hinni seinni.[9][10] Þótt Hitler hefði tapað forsetakjörinu sýndi stuðningurinn við hann að nasisminn var orðinn alvarlegt afl í þýskum stjórnmálum. Í júlí sama ár vann nasistaflokkurinn 230 sæti í þingkosningum og varð í fyrsta sinn stærsti flokkurinn á þýska ríkisþinginu.
Stjórnarkreppa ríkti í Þýskalandi og þrýst var á Hindenburg forseta að skipa Hitler kanslara „óháðan þingflokkum“. Eftir að tvær þingkosningar höfðu verið haldnar í júlí og nóvember 1932 án þess að neinum flokki tækist að mynda meirihlutastjórn féllst Hindenburg loks með semingi á að skipa Hitler kanslara. Hitler tók við embættinu þann 30. janúar 1933.[11]
Tilurð einræðisríkis
Enn ríkti pattstaða í þýskum stjórnmálum og því bað Hitler Hindenburg að leysa upp þingið og kalla til nýrra kosninga snemma í mars. Þann 27. febrúar var kveikt í ríkisþinghúsinu í Berlín. Íkveikjumaðurinn var hollenskur kommúnisti að nafni Marinus van der Lubbe og því töldu nasistarnir íkveikjuna vera til marks um samsæri kommúnista til að taka völdin. Hitler bað Hindenburg að setja tilskipun sem nam úr gildi borgaraleg réttindi og leyfði ríkisstjórninni að handtaka grunaða samsærismenn án réttarhalda. Tilskipunin var í samræmi við stjórnarskrá Weimar-lýðveldisins, sem leyfði forsetanum að setja tilskipanir í neyðarástandi. Með tilskipuninni bældi Hitler niður alla virkni þýska kommúnistaflokksins og handtók um 4.000 meðlimi hans fyrir kosningarnar, sem haldnar voru þann 6. mars 1933. Engu að síður tókst nasistaflokknum enn ekki að ná hreinum þingmeirihluta í kosningunum og þurfti því að endurnýja stjórnarsamstarfið við flokk Hindenburgs.
Þann 24. mars var kosið um ný lög á ríkisþinginu sem leyfðu ríkisstjórn Hitlers að setja lög án samþykkis þingsins í fjögur ár. Lögin máttu brjóta í bága við stjórnarskrána nema í undantekningartilvikum. Þar sem lögin vörðuðu stjórnarskrána þurfti stuðning tvo þriðju þingmanna til að staðfesta þau. Fyrir atkvæðagreiðsluna handtók Hitler því alla 81 þingmenn kommúnistaflokksins og kom í veg fyrir að margir þingmenn Jafnaðarmannaflokksins gætu mætt. Hermann Göring, þá forseti þingsins, kvað á um að atkvæði þingmanna sem mættu ekki í atkvæðagreiðsluna yrðu ekki talin með. Lokaniðurstaða atkvæðagreiðslunnar var að 441 þingmenn kusu með og 84 á móti lögunum. Allir viðstaddir þingflokkar nema Jafnaðarmenn studdu lagasetninguna og þar með varð Þýskaland í reynd að einræðisríki.
Þriðja ríkið
Stuttu eftir lagasetninguna var Jafnaðarmannaflokkurinn bannaður. Þann 2. maí 1933 voru öll stéttarfélög bönnuð og leiðtogar þeirra handteknir. Þann 14. júlí var lýst yfir að nasistaflokkurinn væri eini löglegi stjórnmálaflokkurinn í Þýskalandi. Á nótt hinna löngu hnífa, frá 30. júní til 2. júlí 1934, voru andstæðingar Hitlers innan stormsveitanna myrtir. Í kjölfarið var herinn hreinsaður af öllum herforingjum sem ekki þóttu nógu hlynntir nasistum.
Hindenburg lést þann 2. ágúst 1934. Daginn áður hafði ríkisstjórn Hitlers sett lög sem leystu upp forsetaembættið eftir dauða Hindenburgs og sameinuðu völd þess kanslaraembættinu. Þar með varð Hitler formlega „foringi og kanslari Þýskalands“ (Führer und Reichskanzler) og varð í senn ríkisstjórnarleiðtogi og þjóðhöfðingi landsins.[5]
Á næstu árum stóð ríkisstjórn Hitlers fyrir stórfelldri uppbyggingu innviða í Þýskalandi og bjó þýska efnahaginn undir stríð. Á þessum tíma voru nýir þjóðvegir, járnbrautir og stíflur byggðar í Þýskalandi. Atvinnuleysi minnkaði[12] úr sex milljónum í eina milljón frá 1932 til 1936. Hins vegar lengdist vinnuvikan, meðallaun lækkuðu og framfærslukostnaður hækkaði. Enduruppbyggingin var fjármögnuð með skuldabréfum, með því að prenta peninga, og með því að leggja hald á eignir óvina ríkisins, sérstaklega gyðinga. Ríkisstjórnin tók einnig markvissa stefnu í húshönnun og Albert Speer var falið að endurhanna Berlín í klassískum stíl.[13]
Þýskaland sagði sig úr Þjóðabandalaginu í október árið 1933. Í mars árið 1935 lýsti Hitler því yfir að þýski herinn yrði stækkaður og myndi telja til sín um 600.000 hermenn, sex sinnum meira en var leyft í Versalasamningnum. Þjóðverjar hertóku afvopnaða svæðið í Rínarlandi í mars 1936. Sama ár sendi Hitler hermenn til Spánar til þess að aðstoða þjóðernissinna undir stjórn Francisco Franco í spænsku borgarastyrjöldinni. Þann 25. nóvember skrifuðu Þjóðverjar undir samning sem stofnaði andkommúnískt bandalag við Japan, og síðar Ítalíu. Þetta bandalag lagði grunninn að Öxulveldunum. Hitler skipaði hernum að búa sig undir stríð til þess að skapa Þýskalandi „lífsrými“ eða „lebensraum“ ekki síðar en 1938.
Þann 12. mars 1938 lýsti Hitler því yfir að Austurríki skyldi innlimað í Þýskaland. Síðan sneri hann sér að Tékkóslóvakíu og gerði áætlun um að leggja allt landið undir sig. Hitler neyddist hins vegar til að hætta við innrásina í Tékkóslóvakíu þar sem Bretar hótuðu að hætta að selja Þjóðverjum olíu vegna málsins. Þann 29. október var kallað til ráðstefnu í München þar sem Hitler ræddi um stöðu þýskumælandi héraða innan Tékkóslóvakíu við Benito Mussolini og forsætisráðherra Bretlands og Frakklands, Neville Chamberlain og Édouard Daladier. Að endingu var München-sáttmálinn undirritaður og Þýskaland fékk að innlima þýskumælandi héröð í Tékkóslóvakíu. Hitler var þó ekki ánægður með niðurstöðuna þar sem hann hafði viljað leggja allt landið undir sig.
Seinni heimsstyrjöldin
Þann 3. apríl skipaði Hitler þýska hernum að undirbúa innrás í Pólland. Til þess að tryggja að Sovétmenn skiptu sér ekki að innrásinni undirrituðu Þjóðverjar griðarsáttmála við Sovétríkin þann 23. ágúst 1939. Í samningnum féllust Þjóðverjar og Sovétmenn á að skipta Póllandi á milli sín í þýsk og sovésk áhrifasvæði. Þann 1. september 1939 réðust Þjóðverjar inn í Pólland og Bretar og Frakkar brugðust við með því að lýsa yfir stríði á hendur Þýskalandi. Þar með hófst seinni heimsstyrjöldin. Bretar og Frakkar voru þó tregir til að ráðast gegn Þýskalandi og gerðu ekki árás á meðan Þjóðverjar yfirbuguðu Pólverja. Því kölluðu fjölmiðlar þennan kafla stríðsins gjarnan „gervistríðið“.
Þann 9. apríl réðust Þjóðverjar inn í Danmörku og Noreg og hertóku bæði löndin. Þjóðverjar réðust síðan inn í Frakkland í maí árið 1940 og hertóku Belgíu, Lúxemborg og Holland. Á meðan á innrásinni í Frakkland stóð ákváðu Ítalir að ganga inn í styrjöldina ásamt Þjóðverjum og réðust á Frakkland úr suðri.[14] Frakkland neyddist til þess að undirrita friðarsáttmála þann 22. júní. Bretar sluppu með her sinn frá Dunkerque úr orrustunni um Frakkland og nýr forsætisráðherra þeirra, Winston Churchill, neitaði að semja um frið við Þjóðverja. Hitler sendi því þýska flugherinn til að ráðast á Bretland en tókst ekki að vinna bug á breska flughernum. Hitler var á hátindi vinsælda sinna í Þýskalandi eftir að hafa unnið svo skjótan sigur gegn Frakklandi.
Þjóðverjar réðust árið 1941 inn í Júgóslavíu, Grikkland, Krít og Írak. Þýskir hermenn voru einnig sendir til að styðja Ítala í Líbíu, Balkanskaga og Miðaustrinu. Þann 22. júní 1941 rufu Þjóðverjar griðarsáttmálann við Sovétmenn og réðust inn í Sovétríkin. Ætlunin var að gera út af við Sovéríkin og sölsa undir sig náttúruauðlindir þeirra til þess að geta haldið hernaðinum gegn vesturveldunum áfram. Í fyrstu gekk innrás Þjóðverja vel og þýskir hermenn brutust um 500 kílómetra inn á sovéskt landsvæði.
Þann 7. desember 1941 réðust Japanir á Perluhöfn og hófu þannig stríð við Bandaríkin. Hitler lýsti yfir stríði gegn Bandaríkjunum til stuðnings við Japan fjórum dögum síðar.
Vegna hinna fjölmörgu hernaðarsigra ársins 1940 var Hitler orðinn fullur oflætis og skipti sér æ meira af ákvörðunum þýsku hershöfðingjanna.[15] Hitler neitaði að leyfa þýska hernum að hörfa frá orrustunni um Stalíngrad en þar létu um 200.000 hermenn Öxulveldanna lífið og 235.000 voru teknir til fanga. Þjóðverjar báðu síðan ósigur í orrustunni um Kúrsk en upp frá því fór gæfan á austurvígstöðvunum að snúast Sovétmönnum í vil. Árið 1943 gerðu bandamenn innrás í Sikiley og Mussolini var steypt af stóli í Ítalíu. Næsta ár gerðu bandamenn síðan innrás í Normandí og frelsuðu Frakkland undan hernámi Þjóðverja. Á þessum kafla stríðsins var mörgum þýskum herforingjum ljóst að Þýskaland ætti ósigur vísan og að áframhaldandi hollusta við Hitler gæti leitt til þess að landinu yrði gereytt.
Síðustu dagar og sjálfsmorð Hitlers
Síðla árs 1944 voru bæði rauði herinn og hersveitir Breta og Bandaríkjamanna farin að brjótast inn í Þýskaland. Þegar staðan virtist svörtust fyrir Þjóðverja vonaðist Hitler eftir eins konar kraftaverki sem myndi bjarga Þýskalandi á síðustu stundu líkt og hafði gerst árið 1759 í sjö ára stríðinu. Þá hafði keisaraynja Rússlands látist stuttu eftir að Rússar hertóku Berlín og eftirmaður hennar, sem var Þýskalandsvinur, hafði umsvifalaust samið um frið við Þjóðverja. Þegar Hitler frétti af því að Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti væri látinn þann 12. apríl 1945 vonaðist hann til þess að sagan myndi endurtaka sig og að eftirmaður Roosevelt myndi semja um frið við Þjóðverja og jafnvel ganga í bandalag við þá gegn kommúnistunum. Þessi ósk rættist ekki og dauði Roosevelt breytti engu um samheldni bandamanna.
Hitler flúði inn í neðanjarðarbyrgi í Berlín ásamt öðrum þýskum valdsmönnum. Hitler fannst að með því að tapa stríðinu hefði þýska þjóðin afsalað sér réttinum til að lifa og skipaði því fyrir að öllum iðnaðarinnviðum yrði eytt áður en þeir gætu fallið í hendur bandamanna. Albert Speer óhlýðnaðist þessari ósk. Þann 23. apríl hafði rauði herinn umkringt Berlín. Hitler kvæntist ástkonu sinni, Evu Braun, í borgaralegri athöfn í foringjabyrginu þann 29. apríl. Sama kvöld frétti Hitler af því að Mussolini hefði verið tekinn af lífi á Ítalíu. Næsta dag, er rauði herinn nálgaðist kanslarabygginguna, skaut Hitler sig og Eva Braun beit í eiturpillu til að deyja með honum. Í erfðaskrá Hitlers var mælt fyrir um að Joseph Goebbels tæki við sem kanslari og Karl Dönitz gerðist forseti. Eftir dauða Hitlers og Braun var bensíni hellt yfir lík þeirra og þau brennd fyrir utan foringjabyrgið.[16]
Líkamsleifar Hitlers
Hitler vildi ekki að Sovétmenn kæmust yfir og saurguðu líkamsleifar hans. Því skipaði hann svo fyrir að lík hans yrði brennt og síðan grafið eftir sjálfsmorð hans.[17] Þegar Sovétmenn hertóku Berlín grófu þeir líkamsleifarnar upp og krufðu líkið. Þeir lýstu yfir að Hitler hefði fyrirfarið sér en leyfðu hinum bandamönnunum ekki að skoða niðurstöðurnar.[17] Líkamsleifarnar voru faldar í hirslu Sovétmanna þar til þeim var eytt á áttunda áratugnum[17] að tilskipan Júríj Andropovs, formanns sovésku leyniþjónustunnar. Það eina sem varðveittist var kjálkabein og brot úr höfuðkúpu.
Árið 2018 fékk hópur franskra vísindamanna leyfi frá rússneskum stjórnvöldum til að rannsaka líkamsleifarnar. Eftir samanburð á tanngarðinum við eldri gögn komust þeir óyggjandi að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða líkamsleifar Hitlers. Philippe Charlier, forsvarsmaður hópsins, lýsti því yfir í tímaritinu European Journal of Internal Medicine að samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar væri enginn vafi væri á að Hitler hefði dáið árið 1945 og að þetta væru líkamsleifar hans.[17]
Arfleifð
Samtímamenn lýstu því að þegar Hitler framdi sjálfsmorð hafi það verið eins og álögum hafi verið létt af fólki.[18][19] Stuðningur við Hitler hafði hrunið þegar hann lést og fáir Þjóðverjar syrgðu hann. Kershaw álítur að flestir almennir borgarar og hermenn hafi verið of uppteknir við að bregðast við hruni landsins eða á flótta undan orrustum til að gefa andláti hans mikinn gaum.[20] Sagnfræðingurinn John Toland segir að nasisminn hafi „sprungið eins og sápukúla“ án leiðtoga síns.[21]
Kershaw hefur lýst Hitler sem „holdgervingi illskunnar í nútímastjórnmálum“,[3] og bætir við, „Aldrei fyrr í sögunni hefur slíkt hrun - efnislegt og siðferðilegt - tengst nafni eins manns“.[22] Stjórn Hitlers leiddi til heimsstyrjaldar, skildi eftir sig eyðileggingu og fátækt í Mið- og Austur-Evrópu og olli algjörri eyðileggingu Þýskalands, sem hefur verið kölluð „núllstundin“ (Stunde Null).[23] Stefnumál Hitlers ollu mannlegri þjáningu af áður óþekktri stærðargráðu.[24] Samkvæmt R. J. Rummel bar stjórn nasista ábyrgð á morðum á 19,3 milljónum almennra borgara og stríðsfanga.[25] Að auki létust 28,7 milljón hermenn og almennir borgarar vegna stríðsátaka í Evrópu í seinni heimsstyrjöld.[25] Fjöldi almennra borgara sem létust í stríðinu á sér ekki hliðstæðu í hernaðarsögunni.[26] Sagnfræðingar, heimspekingar og stjórnmálamenn nota oft hugtakið „illska“ þegar rætt er um stjórn nasista.[27] Í mörgum Evrópulöndum er útbreiðsla nasisma og helfararafneitun refsiverð.[28]
Sagnfræðingurinn Friedrich Meinecke hefur sagt að Hitler hafi verið „eitt af bestu dæmunum um einstakt og óútreiknanlegt vald persónuleika í sögunni“.[29] Enski sagnfræðingurinn Hugh Trevor-Roper taldi hann „meðal hinna ‚hræðilegu einfaldara‘ sögunnar, sá sögulegasti og heimspekilegasti, en jafnframt sá grófasti, grimmasti og minnst drenglyndi landvinningamaður sem heimurinn hefur kynnst“.[30] Sagnfræðingurinn John M. Roberts taldi ósigur Hitlers marka endalok tímabils í Evrópusögunni þar sem Þýskaland var ráðandi afl.[31] Í stað þess kom Kalda stríðið, heimsátök milli Vesturblokkar, með Bandaríkin í leiðtogahlutverki, og Austurblokkar, sem Sovétríkin stýrðu.[32] Sagnfræðingurinn Sebastian Haffner fullyrðir að án Hitlers og hrakninga Gyðinga í Evrópu hefði nútímaríkið Ísrael aldrei orðið til. Hann telur líka að án Hitlers hefði afnýlenduvæðing fyrrum yfirráðasvæða Evrópulanda um allan heim frestast.[33] Haffner segir að, fyrir utan Alexander mikla, hafi Hitler haft meiri áhrif en nokkur önnur sambærileg söguleg persóna þar sem hann olli heimssögulegum breytingum á tiltölulega stuttum tíma.[34]
Tilvísanir
- ↑ Haukur Már Helgason (5. september 2000). „Hvenær dó Hitler?“. Vísindavefurinn. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir (13. apríl 2010). „Átti Hitler konu og börn?“. Vísindavefurinn. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ 3,0 3,1 Kershaw 2000b, bls. xvii.
- ↑ 4,0 4,1 „Adolf Hitler – maðurinn sem táldró heila þjóð“. Lifandi saga. 18. febrúar 2022. Sótt 14. mars 2022.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 5,3 „Hindenburg og Hitler“. Óðinn. 1. júní 1934. bls. 49-52.
- ↑ „Afturhaldsbyltingin hafin“. Alþýðublaðið. 10. nóvember 1923. bls. 1.
- ↑ „Menn sem settu svip á öldina: Adolf Hitler“. Samvinnan. 1. apríl 1968. bls. 12-18.
- ↑ „Hve mikið hagnaðist Hitler á útgáfu Mein Kampf?“. Lifandi vísindi. 4. október 2021. Sótt 14. mars 2022.
- ↑ „Hindenburg kjörinn forseti Þýskalands“. Morgunblaðið. 11. apríl 1932. bls. 2.
- ↑ „Einræðið í Þýskalandi“. Fálkinn. 22. apríl 1933. bls. 6-7.
- ↑ „Einræðis-kanslarinn“. Fálkinn. 29. apríl 1933. bls. 6-7.
- ↑ „Uppgangur Hitlers“. Fálkinn. 2. maí 1936. bls. 4-5.
- ↑ Óli Jón Jónsson (8. febrúar 1997). „Speer og sannleikurinn“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 16-17.
- ↑ „Ítalir fóru í stríð með Þjóðverjum kl. 12 í nótt“. Morgunblaðið. 11. júní 1940. bls. 2.
- ↑ Skúli Sæland (30. september 2003). „Hvernig töpuðu Þjóðverjar seinni heimsstyrjöldinni?“. Vísindavefurinn. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir (15. maí 2006). „Hvar er Adolf Hitler grafinn?“. Vísindavefurinn. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ 17,0 17,1 17,2 17,3 Pálmi Jónasson (10. júní 2018). „Samsæriskenningar og dauði Adolfs Hitlers“. RÚV. Sótt 29. júní 2018.
- ↑ Fest 1974, bls. 753.
- ↑ Speer 1971, bls. 617.
- ↑ Kershaw 2012, bls. 348–350.
- ↑ Toland 1992, bls. 892.
- ↑ Kershaw 2000b, bls. 841.
- ↑ Fischer 1995, bls. 569.
- ↑ Del Testa, Lemoine & Strickland 2003, bls. 83.
- ↑ 25,0 25,1 Rummel 1994, bls. 112.
- ↑ Murray & Millett 2001, bls. 554.
- ↑ Welch 2001, bls. 2.
- ↑ Bazyler 2006, bls. 1.
- ↑ Shirer 1960, bls. 6.
- ↑ Hitler & Trevor-Roper 1988, bls. xxxv.
- ↑ Roberts 1996, bls. 501.
- ↑ Lichtheim 1974, bls. 366.
- ↑ Haffner 1979, bls. 100–101.
- ↑ Haffner 1979, bls. 100.
Heimildir
- Bazyler, Michael J. (25. desember 2006). „Holocaust Denial Laws and Other Legislation Criminalizing Promotion of Nazism“ (PDF). Yad Vashem. The World Holocaust Remembrance Center. Sótt 7. janúar 2013.
- Del Testa, David W; Lemoine, Florence; Strickland, John (2003). Government Leaders, Military Rulers, and Political Activists. Westport: Greenwood Publishing Group. bls. 83. ISBN 978-1-57356-153-2.
- Fest, Joachim C. (1974) [1973]. Hitler. London: Weidenfeld & Nicolson. ISBN 978-0-297-76755-8.
- Fischer, Klaus P. (1995). Nazi Germany: A New History. London: Constable and Company. ISBN 978-0-09-474910-8.
- Haffner, Sebastian (1979). The Meaning of Hitler. Cambridge, MA: Harvard University Press. ISBN 978-0-674-55775-8.
- Hitler, Adolf; Trevor-Roper, Hugh (1988) [1953]. Hitler's Table-Talk, 1941–1945: Hitler's Conversations Recorded by Martin Bormann. Oxford: Oxford University Press. ISBN 978-0-19-285180-2.
- Kershaw, Ian (2012). The End: Hitler's Germany, 1944–45 (Paperback. útgáfa). London: Penguin. ISBN 978-0-14-101421-0.
- Kershaw, Ian (2000a) [1985]. The Nazi Dictatorship: Problems and Perspectives of Interpretation (4th. útgáfa). London: Arnold. ISBN 978-0-340-76028-4.
- Lichtheim, George (1974). Europe In The Twentieth Century. London: Sphere Books. ISBN 978-0-351-17192-5.
- Murray, Williamson; Millett, Allan R. (2001) [2000]. A War to be Won: Fighting the Second World War. Cambridge, MA: Belknap Press of Harvard University Press. ISBN 978-0-674-00680-5.
- Roberts, G. (2006). Stalin's Wars: From World War to Cold War, 1939–1953. New Haven: Yale University Press. ISBN 978-0-300-11204-7.
- Rummel, Rudolph (1994). Death by Government. New Brunswick, NJ: Transaction. ISBN 978-1-56000-145-4.
- Shirer, William L. (1960). The Rise and Fall of the Third Reich. New York: Simon & Schuster. ISBN 978-0-671-62420-0.
- Speer, Albert (1971) [1969]. Inside the Third Reich. New York: Avon. ISBN 978-0-380-00071-5.
- Toland, John (1992) [1976]. Adolf Hitler. New York: Anchor Books. ISBN 978-0-385-42053-2.
- Welch, David (2001). Hitler: Profile of a Dictator. London: Routledge. ISBN 978-0-415-25075-7.
Tenglar
- Stefan Lorant (30. ágúst 1970). „Hitler eins og ég þekkti hann“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 5-6.
Fyrirrennari: Kurt von Schleicher |
|
Eftirmaður: Joseph Goebbels | |||
Fyrirrennari: Paul von Hindenburg (sem forseti Þýskalands) |
|
Eftirmaður: Karl Dönitz (sem forseti Þýskalands) |