Philipp Scheidemann

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Philipp Scheidemann
Kanslari Þýskalands
Í embætti
13. febrúar 1919 – 20. júní 1919
ForsetiFriedrich Ebert
ForveriFriedrich Ebert
EftirmaðurGustav Bauer
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. júlí 1865
Kassel, kjörfurstadæminu Hesse (nú Þýskalandi)
Látinn29. nóvember 1939 (74 ára) Kaupmannahöfn, Danmörku
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn
MakiJohanna Dibbern
BörnLina, Liese, Hedwig
StarfBlaðamaður, stjórnmálamaður

Philipp Heinrich Scheidemann (26. júlí 1865 – 29. nóvember 1939) var þýskur stjórnmálamaður úr Jafnaðarmannaflokknum. Þann 9. nóvember 1918, í miðri byltingu í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, lýsti Scheidemann yfir stofnun lýðveldis í Þýskalandi. Snemma næsta ár varð Scheidemann fyrsti ríkisstjórnarleiðtogi nýja Weimar-lýðveldisins og gegndi því embætti í 127 daga.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Philipp Scheidemann fæddist í Kassel og vann sem leturfræðingur. Hann gekk í Jafnaðarmannaflokkinn árið 1883 og vann sem blaðamaður fyrir ýmis sósíaldemókratísk dagblöð. Hann sat á þýska ríkisþinginu frá 1903 til 1918 og varð þar rómaður fyrir ræðuhæfni sína. Frá 1911 var hann einn af leiðtogum Jafnaðarmannaflokksins. Hann varð þingleiðtogi flokksins árið 1913 og forseti þingsins árið 1917.

Ásamt Friedrich Ebert var Scheidemann einn af leiðtogum Jafnaðarmanna í fyrri heimsstyrjöldinni. Scheidemann tilheyrði þeim meirihluta Jafnaðarmanna sem studdi ríkisstórn keisaraveldisins og þátttöku Þýskalands í styrjöldinni. Margir úr minnihlutanum, sem mótmæltu þátttöku Þjóðverja í stríðinu, sögðu sig úr flokknum og stofnuðu Sjálfstæða jafnaðarmannaflokkinn vegna ágreiningsins. Scheidemann lýsti yfir stuðningi við friðarsáttmála án innlimunar á neinu nýju landsvæði. Í október árið 1918, þegar Þýskaland sá fram á ósigur í styrjöldinni, var Scheidemann gerður ráðherra án ráðuneytis í ríkisstjórn furstans Maximilians von Baden.

Scheidemann lýsir yfir endalokum keisaraveldisins og stofnun lýðveldis í Þýskalandi á svölum ríkisþinghússins í Berlín.

Eftir að bylting braust út í nóvember árið 1918 lýsti Scheidemann, án þess að ráðfæra sig við Ebert, yfir stofnun þýsks lýðveldis. Þetta gerði hann til að koma í veg fyrir að Karl Liebknecht yrði fyrri til að lýsa yfir stofnun sósíalísks lýðveldis. Frá nóvember 1918 til janúar 1919 sat Scheidemann í ríkisstjórn Eberts kanslara og tók þátt í að berja niður sósíalísku Spartakistauppreisnina.

Kanslaratíð[breyta | breyta frumkóða]

Í febrúar árið 1919 varð Scheidemann fyrsti ríkisstjórnarleiðtogi nýja þýska lýðveldisins. Embætti hans svaraði til kanslaraembættisins sem forverar og eftirmenn hans kenndu sig við, en hann kallaði sig þó ekki kanslara heldur „stjórnarforseta“ eða Ministerpräsident. Scheidemann fór fyrir stjórnarsamstarfi Jafnaðarmanna, Miðflokksins og þýska demókrataflokksins (Deutsche Demokratische Partei, DDP). Stjórn hans var kölluð „Weimar-stjórnarsamstarfið“. Scheidemann sagði af sér þann 19. júní 1919 þar sem hann var ófáanlegur til að skrifa undir Versalasamninginn. Hann sat á þýska héraðaþinginu frá 1919 til 1920 og þýska ríkisþinginu frá 1920 til 1933. Frá 1920 til 1925 var hann borgarstjóri Kassel.

Scheidemann fór í sjálfskipaða útlegð árið 1933 eftir valdatöku Adolfs Hitler. Hann lést árið 1939 í Kaupmannahöfn. Endurminningar hans komu út árið 1928.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Friedrich Ebert
Kanslari Þýskalands
(13. febrúar 191920. júní 1919)
Eftirmaður:
Gustav Bauer