Martin Bormann

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Martin Bormann
Forseti aðalráðs Nasistaflokksins
Í embætti
12. maí 1941 – 2. maí 1945
ForveriRudolf Hess (sem aðstoðarforingi)
EftirmaðurEmbætti lagt niður
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. júní 1900
Wegeleben, Prússlandi, þýska keisaradæminu
Látinn2. maí 1945 (44 ára) Berlín, Þýskalandi
StjórnmálaflokkurNasistaflokkurinn
MakiGerda Buch (g. 1929)
BörnAdolf Martin, Ilse, Ehrengard, Irmgard, Rudolf Gerhard, Heinrich Hugo, Eva Ute, Gerda, Fritz Hartmut, Volker
Undirskrift

Martin Bormann (17. júní 1900 – 2. maí 1945) var forseti aðalráðs Nasistaflokksins í Þýskalandi nasismans. Hann varð afar valdamikill innan Þriðja ríkisins með því að notfæra sér stöðu sína sem einkaritari Adolfs Hitler til að stýra upplýsingum og aðgangi að Hitler.

Bormann gekk til liðs við málaliðasveitina Freikorps árið 1922 eftir að hafa verið umsjónarmaður stórrar landeignar. Hann dvaldi í fangelsi í eitt ár fyrir viðorð sitt við Rudolf Höss (sem síðar varð yfirmaður Auschwitz-fangabúðanna) í morðinu á Walther Kadow. Bormann gekk til liðs við Nasistaflokkinn árið 1927 og við Schutzstaffel-sveitirnar (SS) árið 1937. Hann vann í upphafi í tryggingarþjónustu flokksins en fékk í júní 1933 stöðuhækkun og varð aðstoðarmaður varaleiðtogans Rudolf Hess.

Bormann nýtti sér stöðu sína til að skapa veigamikið skriffinskukerfi og til að blanda sjálfum sér eins mikið og unnt var í allar ákvarðanatökur. Hann fékk aðgang að innsta hring Hitlers og fylgdi honum hvert sem hann fór til að semja úrdrætti úr öllum atburðum sem leiðtoginn sótti. Hann varð einkaritari Hitlers þann 12. ágúst 1935. Bormann tók við störfum Hess og gerðist forseti aðalráðs (Parteikanzlei) Nasistaflokksins eftir að Hess flaug í leyfisleysi til Bretlands þann 10. maí 1941 til að reyna að semja um frið við bresk stjórnvöld. Bormann átti þá síðasta orðið þegar kom að útnefningum í opinber embætti, viðurkenningu laga og allri innanríkisstefnu árið 1945. Bormann var einna fremstur nasista í ofsóknum á kristilegum stofnunum auk þess sem hann kallaði eftir harkalegri meðferð á Gyðingum og Slövum á herteknum landsvæðum Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni.

Bormann flúði ásamt Hitler inn í neðanjarðarbyrgi í Berlín þann 16. janúar 1945 þegar Rauði herinn nálgaðist borgina. Eftir að Hitler framdi sjálfsmorð reyndu Bormann og aðrir að flýja Berlín þann 2. maí. Líklegt er að Bormann hafi framið sjálfsmorð á brú nærri Lehrter-lestastöðinni. Líkið var grafið þar í grenndinni en fannst ekki og var ekki staðfest sem lík Bormann fyrr en árið 1972. Þá höfðu lengi verið orðrómar á kreiki um að Bormann hefði komist lífs af og flúið til Suður-Ameríku.[1][2][3] Réttað var yfir Bormann in absentia í Nürnberg-réttarhöldunum árin 1945 og 1946. Hann var þar sakfelldur fyrir glæpi gegn mannúð og dæmdur til dauða.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Er Bormann í Brasilíu?“. Tíminn. 20. mars 1964. bls. 10.
  2. „Segist geta handtekið Bormann hvenær sem er“. Tíminn. 9. október 1965. bls. 9.
  3. „Albert Speer: 15 heiðarleg svör við 15 beinskeyttum spurningum“. Alþýðublaðið. 7. júlí 1971. bls. 6-8.