Lutz Schwerin von Krosigk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lutz Schwerin von Krosigk
Lutz Schwerin von Krosigk árið 1932.
Kanslari Þýskalands
Í embætti
2. maí 1945 – 23. maí 1945
ForsetiKarl Dönitz
ForveriJoseph Goebbels
EftirmaðurHernám bandamanna
Fjármálaráðherra Þýskalands
Í embætti
1. júní 1932 – 23. maí 1945
KanslariFranz von Papen
Kurt von Schleicher
Adolf Hitler
Joseph Goebbels
ForveriHermann Dietrich
EftirmaðurHernám bandamanna
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. ágúst 1887
Staßfurt, þýska keisaraveldinu
Látinn4. mars 1977 (89 ára) Essen, Norðurrín-Vestfalíu, Vestur-Þýskalandi
StjórnmálaflokkurNasistaflokkurinn (1937–1945)
MakiEhrengard Freiin von Plettenberg
Börn9
StarfStjórnmálamaður

Johann Ludwig „Lutz“ Graf Schwerin von Krosigk (22. ágúst 1887 – 4. mars 1977) var þýskur stjórnmálamaður sem var fjármálaráðherra Þýskalands frá 1932 til 1945 og í reynd kanslari Þýskalands í maí árið 1945.

Krosigk var óflokksbundinn íhaldsmaður og var útnefndur fjármálaráðherra af Franz von Papen kanslara árið 1932. Að beiðni Pauls von Hindenburg forseta gegndi hann embættinu áfram í ríkisstjórnum Kurts von Schleicher og Adolfs Hitler. Sem fjármálaráðherra tók Krosigk þátt í ofsóknum á þýskum og evrópskum Gyðingum, meðal annars með því að stela eignum þeirra og skipuleggja peningaþvætti.

Í maí árið 1945, þegar bandamenn sóttu inn í Þýskaland í lok seinni heimsstyrjaldarinnar, frömdu Hitler og eftirmaður hans sem kanslari, Joseph Goebbels, sjálfsmorð. Karl Dönitz, nýr forseti Þýskalands, skipaði Krosigk ríkisstjórnarleiðtoga „Flensborgarstjórnarinnar“ svokölluðu þann 2. maí. Krosigk neitaði þó að kalla sig kanslara og tók sér þess í stað titilinn „stjórnarráðherra“.[1] Í ríkisstjórn Dönitz var Krosigk einnig utanríkis- og fjármálaráðherra að nafninu til en þessum embættum fylgdu lítil sem engin völd þar sem Flensborgarstjórnin réð aðeins yfir æ smærri hluta Þýskalands á meðan herir bandamanna sóttu fram inn í landið. Þegar bandamenn höfðu hertekið allt Þýskaland handtóku þeir meðlimi Flensborgarstjórnarinnar.

Fyrir utan Adolf Hitler sjálfan voru þeir Krosigk og Wilhelm Frick einu meðlimir þýsku ríkisstjórnarinnar sem sátu í embætti alveg frá valdatöku nasista til loka seinni heimsstyrjaldarinnar. Krosigk gerðist meðlimur í nasistaflokknum þann 30. janúar 1937 þegar hann hlaut flokksheiðursmerki frá Hitler. Aðildarnúmar hans var 3,805,231.

Í Nürnberg-réttarhöldunum árið 1949 var Krosigk ákærður og sakfelldur fyrir peningaþvætti á stolnum eignum fórnarlamba nasistanna. Hann var dæmdur til tíu ára fangelsisvistar en var náðaður árið 1951 og sleppt úr fangelsi.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Hillmann, Jörg; Zimmermann, John (2014) [2002]. „Die »Reichsregierung« in Flensburg“ [„Ríkisstjórnin“ í Flensborg]. Kriegsende 1945 in Deutschland (þýska). München: Walter de Gruyter GmbH & Co KG. bls. 47.
  2. Maguire, Peter (2010). Law and War: International Law and American History (Rev. ed.). New York: Columbia University Press. bls. 156–157.


Fyrirrennari:
Joseph Goebbels
Kanslari Þýskalands
(2. maí 194523. maí 1945)
Eftirmaður:
Konrad Adenauer
(1949, sem kanslari Vestur-Þýskalands)
Otto Grotewohl
(1949, sem forsætisráðherra Austur-Þýskalands)