Georg Michaelis

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Georg Michaelis
Kanslari Þýskalands
Í embætti
14. júlí 1917 – 1. nóvember 1917
ÞjóðhöfðingiVilhjálmur 2.
ForveriTheobald von Bethmann-Hollweg
EftirmaðurGeorg von Hertling
Persónulegar upplýsingar
Fæddur8. september 1857
Haynau, Sílesíu, Prússlandi (nú Póllandi)
Látinn24. júlí 1936 (78 ára) Bad Saarow, Brandenborg, Þýskalandi
ÞjóðerniÞýskur
MakiMargarete Schmidt
BörnElisabeth, Charlotte, Emma, Georg Sylvester, Wilhelm, Eva, Martha
HáskóliGeorg-August-háskólinn í Göttingen

Georg Michaelis (8. september 1857 – 24. júlí 1936) var kanslari Þýskalands í nokkra mánuði árið 1917 á meðan fyrri heimsstyrjöldin var í fullum gangi. Hann var fyrsti kanslari Þýskalands sem ekki var af aðalsættum. Michaelis var þekktur úr athafnalífinu og sem kanslari var helsta afrek hans að hvetja yfirstéttirnar til að sækjast eftir friði við Rússland, sem leiddi til þess að friðarsáttmáli við Rússa var undirritaður nokkrum mánuðum eftir að hann lét af embættinu. Michaelis grunaði að stríðslok væru í nánd og ýtti því undir þróun á innviðum landsins til þess að hraða viðreisn Þýskalands þegar friðurinn kæmi. Michaelis þótti alvörugefinn og illa í stakk búinn til að takast á við vandamálin sem steðjuðu að Þýskalandi á stuttri kanslaratíð sinni.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Michaelis gekk í háskóla í Breslau, Leipzig og Würzburg, og hlaut doktorsgráðu í lögfræði. Frá 1885 til 1889 bjó hann í japönsku höfuðborginni Tókýó og vann þar sem lögfræðiprófessor í Dokkyo-háskólanum. Hann vann síðar í stjórnsýslu Prússlands og var útnefndur innanríkisráðherra Prússlands árið 1909. Frá 1915 fór hann fyrir Reichsgetreidestelle-ráðuneytinu svokallaða, sem stóð fyrir korn- og hveitiframleiðslu í Prússlandi í fyrri heimsstyrjöldinni.[1]

Eftir að yfirmenn þýska hersins, Paul von Hindenburg og Erich Ludendorff, neyddu Theobald von Bethmann-Hollweg kanslara til að segja af sér var Michaelis útnefndur til að taka við embættinu þann 14. júlí 1917. Hann gegndi embættinu til 31. október sama árs en sagði síðan af sér þar sem þingið leit í síauknum mæli á hann sem strengjabrúðu Hindenburgs og Ludendorffs.

Frá 1. apríl 1918 til 31. mars 1919 var Michaelis ríkisstjóri prússneska héraðsins Pommern. Eftir að styrjöldinni lauk vann hann með verka- og hermannaráðum á staðnum en neyddist til að segja af sér eftir að stjórn Jafnaðarmanna tók við í Prússlandi. Michaelis vann síðar sem talsmaður ýmissa fyrirtækja, fyrir nemendafélög og fyrir lútersku kirkjuna í Prússlandi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Becker, Bert: Georg Michaelis: ein preußischer Jurist im Japan der Meiji-Zeit; Briefe, Tagebuchnotizen, Dokumente 1885-1889. München: Iudicium 2001.
  • Regulski, Christoph: Die Reichskanzlerschaft von Georg Michaelis 1917: Deutschlands Entwicklung zur parlamentarisch-demokratischen Monarchie im Ersten Weltkrieg. Marburg: Tectum-Verlag 2003.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Chisholm, Hugh, ed. (1922). "Michaelis, Georg". Encyclopædia Britannica (12. útgáfa). London & New York.


Fyrirrennari:
Theobald von Bethmann-Hollweg
Kanslari Þýskalands
(14. júlí 19171. nóvember 1917)
Eftirmaður:
Georg von Hertling