Helmut Kohl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Helmut Kohl
Helmut Kohl 1989.jpg
Helmut Kohl árið 1989.
Kanslari Þýskalands
Í embætti
1. október 1982 – 27. október 1998
ForsetiKarl Carstens
Richard von Weizsäcker
Roman Herzog
ForveriHelmut Schmidt
EftirmaðurGerhard Schröder
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. apríl 1930
Ludwigshafen, Rínarland-Pfalz, Þýskalandi
Látinn16. júní 2017 (87 ára) Ludwigshafen, Rínarland-Pfalz, Þýskalandi
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurKristilegi demókrataflokkurinn
MakiHannelore Renner (g. 1960; d. 2001)
Maike Richter (g. 2008)
TrúarbrögðKaþólskur
BörnWalter Kohl, Peter Kohl
HáskóliHáskólinn í Heidelberg
Undirskrift

Helmut Kohl (3. apríl 193016. júní 2017) var þýskur stjórnmálamaður. Hann var kanslari Vestur-Þýskalands frá 1982 til 1990 og sameinaðs Þýskalands frá 1990 til 1998. Hann varð formaður Kristilega demókratasambandsins 1973, eins stærsta stjórnmálaflokks Þýskalands. Sextán ára kanslaratíð hans nær yfir endalok Kalda stríðsins og var sú lengsta í sögu Þýskalands frá valdatíð Ottos von Bismarck. Kohl var leiðandi í sameiningarferli Þýskalands og, ásamt François Mitterrand Frakklandsforseta, er eignaður heiðurinn af því að hafa komið á Maastrichtsáttmálanum og þar með Evrópusambandinu. Ásamt Jean Monnet og Jacques Delors er Kohl eini maðurinn sem hefur verið sæmdur Heiðursborgari Evrópu.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Helmut Kohl fæddist árið 1930 í iðnaðarbænum Ludwigshafen á vesturbakka Rínarfljóts. Æska hans markaðist af uppgangi nasista í Þýskalandi og af seinni heimsstyrjöldinni. Eldri bróðir Kohl, Walter, var drepinn í innrásinni í Normandí og undir lok stríðsins var Kohl fluttur ásamt bekkjarfélögum sínum til Berchtesgaden vegna loftárása bandamanna á Ludwigshafen. Eftir lok stríðsins og hernám Þýskalands varð Kohl að ganga 400 kílómetra leið heim til Ludwigshafen til þess að finna foreldra sína.[2]

Kohl gekk í Kristilega demókrataflokkinn árið 1946 og hlaut þar skjótan frama. Formaður og stofnandi flokksins, Konrad Adenauer, varð fyrirmynd og pólitískur lærimeistari Kohl, sem var kjörinn á þing sambandsríkisins Rínarlands-Pfalz árið 1960. Kohl varð leiðtogi flokksdeildar Kristilegra demókrata í Rínarlandi-Pfalz árið 1963 og forsætisráðherra sambandsríkisins sex árum síðar.[2] Árið 1971 bauð Kohl sig fram til formanns Kristilega demókrataflokksins þegar Kurt Georg Kiesinger lét af embætti en tapaði á móti Rainer Barzel. Flokknum gekk ekki vel á formannstíð Barzel og Kohl var því kjörinn formaður þegar Barzel sagði af sér árið 1973.[3]

Kristilegir demókratar töpuðu fyrstu þingkosningum sínum eftir að Kohl tók við sem flokksformaður árið 1976. Þetta leiddi til þess að í næstu kosningum, árið 1980, gekk flokkurinn fram hjá Kohl sem kanslaraefni og tefldi hans í stað fram Franz Josef Strauss, hinum íhaldssama leiðtoga Kristilega sósíalsambandsins í Bæjaralandi.[4] Strauss hafði lítið álit á Kohl og komst eitt sinn svo að orði að hann yrði aldrei kanslari þar sem hann „[skorti] allt sem til þarf hvað varðar persónuleika, gáfur og stjórnmálahæfileika.“[2] Strauss tókst ekki að verða kanslari í kosningunum 1980 og þetta styrkti stöðu Kohl nokkuð.[4]

Árið 1982 leiddi Kohl vantrauststillögu á þýska þinginu gegn Helmut Schmidt kanslara úr Jafnaðarmannaflokknum. Vantraustið var samþykkt og Kohl varð þannig nýr kanslari Vestur-Þýskalands.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Kohl heiðraður á leiðtoga­fundi ESB“. mbl.is. 12. desember 1998. Sótt 20. janúar 2018.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Ásgeir Sverrisson (3. nóvember 1996). „Risinn í Evrópu“. Morgunblaðið. bls. 12-13.
  3. „Tekst honum að halda saman hinum frjálslyndu og erkiíhaldinu?“. Alþýðublaðið. 18. júlí 1973. bls. 6.
  4. 4,0 4,1 Þórarinn Þórarinsson (13. maí 1982). „Leit að sterkum flokksleiðtoga“. Tíminn. bls. 7.
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist


Fyrirrennari:
Helmut Schmidt
Kanslari Þýskalands
(kanslari Vestur-Þýskalands til ársins 1990)
(1. október 198227. október 1998)
Eftirmaður:
Gerhard Schröder


  Þessi stjórnmálagrein sem tengist Þýskalandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.