Helmut Kohl
Helmut Kohl | |
---|---|
Kanslari Þýskalands | |
Í embætti 1. október 1982 – 27. október 1998 | |
Forseti | Karl Carstens Richard von Weizsäcker Roman Herzog |
Forveri | Helmut Schmidt |
Eftirmaður | Gerhard Schröder |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 3. apríl 1930 Ludwigshafen, Rínarland-Pfalz, Þýskalandi |
Látinn | 16. júní 2017 (87 ára) Ludwigshafen, Rínarland-Pfalz, Þýskalandi |
Þjóðerni | Þýskur |
Stjórnmálaflokkur | Kristilegi demókrataflokkurinn |
Maki | Hannelore Renner (g. 1960; d. 2001) Maike Richter (g. 2008) |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Börn | Walter Kohl, Peter Kohl |
Háskóli | Háskólinn í Heidelberg |
Undirskrift |
Helmut Kohl (3. apríl 1930 – 16. júní 2017) var þýskur stjórnmálamaður. Hann var kanslari Vestur-Þýskalands frá 1982 til 1990 og sameinaðs Þýskalands frá 1990 til 1998. Hann varð formaður Kristilega demókratasambandsins 1973, eins stærsta stjórnmálaflokks Þýskalands. Sextán ára kanslaratíð hans nær yfir endalok kalda stríðsins og var sú lengsta í sögu Þýskalands frá valdatíð Ottos von Bismarck.
Kohl var leiðandi í sameiningarferli Þýskalands og, ásamt François Mitterrand Frakklandsforseta, er eignaður heiðurinn af því að hafa komið á Maastrichtsáttmálanum og þar með Evrópusambandinu. Ásamt Jean Monnet og Jacques Delors er Kohl eini maðurinn sem hefur verið sæmdur heiðursnafnbótinni Heiðursborgari Evrópu.[1]
Æska og uppvöxtur
[breyta | breyta frumkóða]Helmut Kohl fæddist árið 1930 í iðnaðarbænum Ludwigshafen á vesturbakka Rínarfljóts. Æska hans markaðist af uppgangi nasista í Þýskalandi og af seinni heimsstyrjöldinni. Eldri bróðir Kohl, Walter, var drepinn í innrásinni í Normandí og undir lok stríðsins var Kohl fluttur ásamt bekkjarfélögum sínum til Berchtesgaden vegna loftárása bandamanna á Ludwigshafen. Eftir lok stríðsins og hernám Þýskalands varð Kohl að ganga 400 kílómetra leið heim til Ludwigshafen til þess að finna foreldra sína.[2]
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Kohl gekk í Kristilega demókrataflokkinn árið 1946 og hlaut þar skjótan frama. Formaður og stofnandi flokksins, Konrad Adenauer, varð fyrirmynd og pólitískur lærimeistari Kohl, sem var kjörinn á þing sambandsríkisins Rínarlands-Pfalz árið 1960. Kohl varð leiðtogi flokksdeildar Kristilegra demókrata í Rínarlandi-Pfalz árið 1963 og forsætisráðherra sambandsríkisins sex árum síðar.[2] Árið 1971 bauð Kohl sig fram til formanns Kristilega demókrataflokksins þegar Kurt Georg Kiesinger lét af embætti en tapaði á móti Rainer Barzel. Flokknum gekk ekki vel á formannstíð Barzel og Kohl var því kjörinn formaður þegar Barzel sagði af sér árið 1973.[3]
Kristilegir demókratar töpuðu fyrstu þingkosningum sínum eftir að Kohl tók við sem flokksformaður árið 1976. Þetta leiddi til þess að í næstu kosningum, árið 1980, gekk flokkurinn fram hjá Kohl sem kanslaraefni og tefldi hans í stað fram Franz Josef Strauss, hinum íhaldssama leiðtoga Kristilega sósíalsambandsins í Bæjaralandi.[4] Strauss hafði lítið álit á Kohl og komst eitt sinn svo að orði að hann yrði aldrei kanslari þar sem hann „[skorti] allt sem til þarf hvað varðar persónuleika, gáfur og stjórnmálahæfileika.“[2] Strauss tókst ekki að verða kanslari í kosningunum 1980 og þetta styrkti stöðu Kohl nokkuð.[4]
Kanslaratíð (1982-1997)
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1982 leiddi Kohl vantrauststillögu á þýska þinginu gegn Helmut Schmidt kanslara úr Jafnaðarmannaflokknum. Vantraustið var samþykkt og Kohl varð þannig nýr kanslari Vestur-Þýskalands.[2]
Á kanslaratíð sinni beitti Kohl sér fyrir aukinni uppbyggingu í Bonn, sem hafði verið kölluð „sofandi höfuðborg“ vestursins. Hann bauð Erich Honecker í heimsókn þangað árið 1987 og var það fyrsta opinbera heimsókn austur-þýsks leiðtoga til Vestur-Þýskalands. Kohl var ekki ýkja vinsæll leiðtogi fyrsta átta ár sín í embætti og litlu munaði árið 1989 að bandamenn hans innan Kristilega demókrataflokksins boluðu honum frá völdum vegna fylgistaps flokksins.[5] Kohl leiddi Kristilega demókrataflokkinn engu að síður til sigra í þingkosningum árin 1983 og 1987.[2]
Sameining Þýskalands
[breyta | breyta frumkóða]Kohl var kanslari þegar Berlínarmúrinn féll árið 1989 og kommúnistastjórn Austur-Þýskalands leið undir lok. Hann varð fljótt forsvarsmaður þess að Vestur- og Austur-Þýskaland sameinuðust strax á ný í eitt ríki. Í lok nóvember 1989 lagði Kohl fram tíu liða áætlun um það hvernig ríkin skyldu sameinast á nokkrum árum. Kohl var mjög gagnrýndur af leiðtogum bæði heima fyrir og erlendis fyrir að vera svo fljótur að sækjast eftir sameiningu ríkjanna, en staðfesta hans um þetta málefni varð honum hins vegar til mikilla vinsælda hjá þýskri alþýðu.[5] Um tíu þúsund Austur-Þjóðverjar hylltu Kohl þegar hann lagði leið sína til Dresden eftir fall Berlínarmúrsins.[6] Kohl ferðaðist til Austur-Þýskalands til að styðja kosningabaráttu austur-þýskra Kristilegra sósíaldemókrata í fyrstu frjálsu kosningunum sem haldnar voru eftir fall kommúnistastjórnarinnar. Sá flokkur vann stórsigur, ekki síst vegna stuðnings Kohls, og þótti sú niðurstaða teikn um að sameining ríkjanna væri ekki langt undan.[5]
Stjórn Kohls vann næsta árið að því að undirbúa sameiningu þýsku ríkjanna. Hann fór eftir ráðum vestur-þýska seðlabankastjórans Karls Ottos Pöhl um sameiningu þýsku gjaldmiðlanna og fékk sovéska leiðtogann Míkhaíl Gorbatsjov til að samþykkja að sameinað Þýskaland yrði allt meðlimur í Atlantshafsbandalaginu.[5] Þann 1. september undirrituðu fulltrúar stjórna Vestur- og Austur-Þýskalands samning um samræmingu laga og stjórnsýslu ríkjanna tveggja, sem áttu þá að sameinast þann 3. október.[7] Sameining Þýskalands fór því fram aðeins um ári eftir hrun kommúnistastjórnarinnar og flokkur Kohl vann stórsigur í fyrstu kosningum sameinaðs Þýskalands þann 2. desember.[8]
Evrópusambandið
[breyta | breyta frumkóða]Kohl var alla tíð ötull stuðningsmaður Evrópusamruna og þess að Evrópubandalagið yrði eflt og útvíkkað. Kohl var þeirrar skoðunar að með því að tvinna saman hagsmuni Evrópuríkja mætti tryggja að friður ríkti í álfunni.[9] Árið 1984 efndu þeir Kohl og François Mitterrand, forseti Frakklands, til minningarathafnar í Verdun til þess að minnast orrustunnar við Verdun í fyrri heimsstyrjöldinni. Kohl og Mitterrand héldust þar í hendur og lýstu því yfir að Evrópa væri sameiginlegt föðurland þeirra.[6]
Eftir sameiningu Þýskalands vann Kohl hörðum höndum ásamt Mitterrand við að tryggja framgang Maastrichtsáttmálans, sem umbreytti Evrópubandalaginu og kom á fót Evrópusambandinu í núverandi mynd, auk þess sem grundvöllur var lagður að upptöku evrunnar árið 1999. Kohl átti í stormasömu sambandi við Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, vegna ágreinings þeirra um ágæti Evrópusamrunans, og var hans einkum minnst fyrir það í Bretlandi.[10]
Síðustu stjórnarár Kohl og hneykslismál
[breyta | breyta frumkóða]Kohl leiddi Kristilega demókrata aftur til kosningasigurs í þingkosningum árið 1994 og var á þeim tíma talinn nánast einvaldur innan flokksins. Horfur flokksins til fimmta kosningasigursins í röð þóttu góðar nokkru fyrir kosningarnar 1998 og vegna þess hve lengi Kohl hafði verið við stjórnvölinn var farið að tala um „týnda kynslóð“ yngri íhaldsmanna sem aldrei ættu eftir að taka við forystu flokksins.[9]
Í aðdraganda kosninganna árið 1998 lagði Kohl áherslu á að hann langaði til að ljúka uppbyggingu Evrópuhússins og bæta lífsgæði í austurhluta Þýskalands. Andstæðingur hans, Gerhard Schröder úr Jafnaðarmannaflokknum, lagði hins vegar áherslu á hve lengi Kohl hefði verið við völd og að tími væri kominn á breytingar. Jafnframt erfiðaði það stöðu Kohl að atvinnuleysi hafði færst mjög í aukana og nam þá um ellefu prósentum.[11] Í kosningunum, sem víða var líkt við þjóðaratkvæðagreiðslu um Kohl, tapaði Kristilegi demókrataflokkurinn fylgi meðal allra stétta og í öllum landshlutum en Jafnaðarmannaflokkurinn og Græningjaflokkurinn hlutu sameiginlegan meirihluta þingsæta.[12] Kohl vék því úr sæti kanslara þann 27. október eftir sextán ára stjórnartíð og Gerhard Schröder leysti hann af hólmi.
Eftir kosningaósigurinn hætti Kohl sem formaður Kristilega demókrataflokksins og Wolfgang Schäuble, sem hafði verið hægri hönd hans um árabil, tók við. Kastljós fjölmiðla færðist aftur að Kohl árið 1999 eftir að réttað var yfir Walter Leisler Kiep, fyrrum fjármálastjóra Kristilegra demókrata, vegna skattsvika. Rannsókn á máli Kiep leiddi í ljós tilvist leynireikninga í bókhaldi flokksins og í nóvember 1999 viðurkenndi Kohl að hann hefði tekið við andvirði tæplega 80 milljóna króna á árunum 1993 til 1998 í sjóðum sem ekki voru tilgreindir í bókhaldinu.[13] Málið var mikill álitshnekkir fyrir Kohl, sem staðhæfði þó að greiðslurnar hefðu aldrei haft nein áhrif á ákvarðanir stjórnar hans. Í desember 1999 birti Angela Merkel, þáverandi aðalritari Kristilega demókrataflokksins, grein í blaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung þar sem hún vændi Kohl um að hafa brotið lög, hvatti hann til að segja af sér þingmennsku og hvatti flokkinn til að segja skilið við Kohl. Stjórn flokksins brýndi fyrir Kohl að reyna ekki að leyna því hvaðan greiðslurnar hefðu komið.[14]
Hneykslismálin drógu nokkuð úr áhrifum Kohl og stuðluðu meðal annars að því að honum var ekki boðið að flytja ræðu þegar tíu ára sameiningarafmæli Þýskalands var fagnað árið 2000.[15]
Síðustu æviár og dauði
[breyta | breyta frumkóða]Þann 28. febrúar 2008 datt Kohl illa og þurfti þaðan af að notast við hjólastól, auk þess sem hann átti erfitt með mál. Sama ár og þetta gerðist kvæntist Kohl annarri eiginkonu sinni, Maike Kohl-Richter, sem var 34 árum yngri en hann. Eftir slysið 2008 fékk aðeins takmarkaður hópur fólks aðgang að Kohl. Uppkomnir synir Kohl úr fyrra hjónabandi, Walter og Peter, fengu ekki að hitta föður sinn og þeir, ásamt fleirum sem ekki fengu að nálgast hann, sökuðu Maike Kohl-Richter um að ráðskast með Kohl og notfæra sér sjúkleika hans.[16]
Kohl lést á heimili sínu í Ludwigshafen þann 16. júní árið 2017.[17]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Kohl heiðraður á leiðtogafundi ESB“. mbl.is. 12. desember 1998. Sótt 20. janúar 2018.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Ásgeir Sverrisson (3. nóvember 1996). „Risinn í Evrópu“. Morgunblaðið. bls. 12-13.
- ↑ „Tekst honum að halda saman hinum frjálslyndu og erkiíhaldinu?“. Alþýðublaðið. 18. júlí 1973. bls. 6.
- ↑ 4,0 4,1 Þórarinn Þórarinsson (13. maí 1982). „Leit að sterkum flokksleiðtoga“. Tíminn. bls. 7.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 5,3 „Á réttum stað á réttum tíma“. Tíminn. 3. október 1990. bls. 4.
- ↑ 6,0 6,1 „Kohl í tíu ár“. Pressan. 1. október 1992. bls. 18.
- ↑ „Þýskaland klárt í sameininguna“. Tíminn. 1. september 1990. bls. 4.
- ↑ Kristín Leifsdóttir (20. desember 1990). „Fyrstu kosningar í sameinuðu landinu í 58 ár“. Tíminn. bls. 3-5.
- ↑ 9,0 9,1 Karl Blöndal (22. október 1995). „Ofurkanslarinn Kohl“. Morgunblaðið. bls. 12-13.
- ↑ Kristín Ólafsdóttir (16. júní 2017). „Helmut Kohl er látinn“. Vísir. Sótt 28. október 2021.
- ↑ Guðsteinn Bjarnason (26. september 1998). „Eilífðarkanslarinn á förum frá Þýskalandi?“. Dagur. bls. 8-9.
- ↑ Rósa Erlingsdóttir (25. október 1998). „Sigurinn unninn en erfið verkefni bíða“. Morgunblaðið. bls. 6.
- ↑ „Særður „heiðursborgari Evrópu" lýsir sinni sýn á hneykslismálin“. Morgunblaðið. 26. nóvember 2000. bls. 12.
- ↑ „Heimta að Kohl leysi frá skjóðunni“. Dagblaðið Vísir. 23. desember 1999. bls. 9.
- ↑ Davíð Kristinsson (20. ágúst 2000). „Kanslari sameiningarinnar fjarstaddur á sameiningarhátíð“. Morgunblaðið. bls. 6.
- ↑ Karl Blöndal (30. september 2012). „Tekist á um Helmut Kohl“. Morgunblaðið. bls. 6.
- ↑ „Helmut Kohl látinn“. mbl.is. 16. júní 2017. Sótt 28. október 2021.
Fyrirrennari: Helmut Schmidt |
|
Eftirmaður: Gerhard Schröder |