Fara í innihald

Sjálfsmorð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sjálfsmorð (eða sjálfsvíg) er sá verknaður að ráða sjálfum sér bana. Áhættuþættir fyrir sjálfsvígi eru sjúkdómar á borð við þunglyndi, geðhvarfasýki, geðklofa, og persónuleikaröskun, ásamt lyfjamisnotkun og áfengissýki.[1][2][3] Sum sjálfsvíg má rekja til sálræns álags.[4][5] Forvarnir við sjálfsvígum ganga helst út á að takmarka aðgengi að skotvopnum og lyfjum, og að veita meðferð við geðkvillum og fíkn.[2][6] Ekki hefur verið sýnt fram á að hjálparsímar beri árangur.[7][8]

Um 0,5–1,4% fólks deyr vegna sjálfsmorðs.[9][10] Nokkuð algengara er að karlmenn falli fyrir eigin hendi, í hinum vestræna heimi eru þeir 3,5 sinnum líklegri til að fremja sjálfsmorð en konur.[11]

Löggjöf[breyta | breyta frumkóða]

Viðhorf til sjálfsvíga eru mismunandi eftir löndum, bæði með tilliti til menningar og trúarbragða. Viðhorf á Vesturlöndum ráðast t.d. að miklu leyti af kristinni trú en samkvæmt henni er sjálfsvíg synd, en sumir hafa viljað leysa út helvítisvist ef menn ráða sér bana. Í lúterstrú hefur helvítisvistin þó verið afskrifuð á síðustu áratugum. Í Bandaríkjunum eru sjálfsvíg skilgreind sem glæpur og á sumum Vesturlöndum var það svo langt fram eftir síðustu öld. Í flestum löndum er enn glæpur að aðstoða fólk við að stytta sér aldur, en sum lönd eru þó farin að leyfa líknardráp að einhverju marki.[12]

Í Jónsbók segir í kafla um þá, sem níðingsverk gera: „Ef maður týnir sér sjálfum, þá taki erfingi hálft með slíku skilorði, sem fyrr segir um önnur óbótamál, en hálft standi undir umsjá konungs umboðsmanns til slíkrar miskunnar, sem konungur vill á gera eftir atvikum."[13] Konungur kaus að minnsta kosti stundum að nota þessi úrræði á fyrirbyggjandi hátt en ekki ívilnandi. Þannig lagði hann undir sig hið svokallaða hengigóss, eftir að Ásgrímur Sigurðsson á Hofi í Öræfum stytti sér aldur um 1645.[14]

Orsakir sjálfsvíga[breyta | breyta frumkóða]

Umfjöllun um orsakir sjálfsvíga getur aldrei orðið tæmandi. Hver einstaklingur hefur eigin ástæður sem hann telur nægjanlegar til að svipta sig lífi og hvert tilvik verður að skoða í samhengi við einstaklinginn. Þrátt fyrir þetta eru nokkrar algengar skýringar á sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum.

Fyrsta tilraunin til að skrifa um sjálfsvíg á vísindalegan hátt var gerð af Émile Durkheim í lok 19. aldar. Margar niðurstaðna hans eru enn í fullu gildi en auknar rannsóknir ásamt breyttu þjóðfélagsmynstri hafa einnig útvíkkað og breytt niðurstöðunum. Eftirfarandi atriði eru algeng meðal þeirra sem fyrirfara sér: Viðkomandi er kominn á eftirlaun, hann er atvinnulaus, fráskilinn, barnlaus, býr einn. Sjálfsvíg eru einnig algengari meðal fátækra, en athuga verður að fátækt er ekki bein orsök sjálfsvíga. Algengt er að fólk sem fyrirfari sér þjáist af geðsjúkdómum, lang algengast er þunglyndi.[heimild vantar]

Ekki eingöngu fólk sem þjáist af geðsjúkdómum fremur sjálfsvíg. Fólk sem þjáist af banvænum sjúkdómum kýs stundum að fyrirfara sér í stað þess að ganga í gegnum miklar þjáningar. Í sumum löndum Evrópu (t.d. Sviss) hafa sjálfsmorð einstaklinga sem þjást af banvænum sjúkdómum verið leyfð við mjög ákveðnar aðstæður. Í þeim tilfellum er oft talað um líknardráp.

Menningarleg viðhorf geta stundum verið orsakaþáttur. Í Japan tíðkuðust lengi sjálfsvíg samúræja sem litu á það sem meiri auðmýkingu fyrir sig og fjölskyldu sína að halda lífi við ýmsar aðstæður, svo sem ef þeir brugðust leiðtoga sínum eða voru teknir til fanga. Aðferðin kallast seppuku, eða kviðrista, og byggðist á því að einstaklingur skar magann á sér frá einum enda til annars. Sjálfsvíg Japana eru þó fæst með þessum hætti í dag. Herforingjar og hermenn japanska hersins í síðari heimstyrjöldinni sviptu sig stundum lífi á sambærilegan hátt.

Hermenn fórna stundum eigin lífi fyrir félaga sína eða málstað, til að mynda með því að fleygja sér yfir handsprengju í skotgröf. Slíka fórn má telja sem sjálfsvíg, en þeim fylgir sjaldan vanheiður.

Sjálfsvígsaðferðir[breyta | breyta frumkóða]

Aðferðir til sjálfsvíga eru afar mismunandi eftir löndum og fer mjög eftir aðgengi að lyfjum, efnum, tækjum og tólum. Þannig kjósa margir að fyrirfara sér með gasi á Englandi, þar sem gaseldavélar eru algengar, en í Bandaríkjunum er nokkuð algengt að fólk noti skotvopn. Nokkrir frægir einstaklingar hafa framið sjálfsmorð með aðstoð blásýru.

Tilraunir til sjálfsvíga[breyta | breyta frumkóða]

Margfalt fleiri gera tilraun til sjálfsvíga án þess að það takist. Sambandið á milli sjálfsvígstilrauna og sjálfsvígs er e.t.v. flóknara en það lítur út fyrir í fyrstu. Tilraunir til sjálfsvígs eru ekki endilega misheppnaðar sjálfsvígstilraunir, þ.e. þær fela ekki endilega í sér fullan ásetning um að fyrirfara sér. Margir fræðimenn líta annað hvort á sjálfsvígstilraunir sem nokkurs konar aðferð til að gera upp hug sinn, eða sem nokkurs konar ákall á hjálp. Sjálfsvíg er enda stór ákvörðun og ólíkt flestum ákvörðunum er óhægt að skipta um skoðun þegar verknaðurinn er framinn. Þannig er hægt að líta á a.m.k. sumar sjálfsvígstilraunir sem tilraun sem ætlað var að mistakast og hefur það markmið að styrkja eða letja einstaklinginn í þeirri ákvörðun sinni að falla fyrir eigin hendi.

Það sem bendir til þess að tilraun til sjálfsvígs séu tilraunir til að gera upp hug sinn er tvennt. Í fyrsta lagi nota flestir þeir sem gera tilraun til sjálfsvígs til þess aðferðir sem eru ekki líklegar til að leiða til dauða og í öðru lagi gera margir tilraun til sjálfsvígs við aðstæður þar sem afar líklegt er að einhver komi þeim til bjargar. Það er áhugavert að þó svo að fleiri karlar falli fyrir eigin hendi eru fleiri konur sem reyna sjálfsvíg en karlar. Konur nota hins vegar oft „vægari“ aðferðir, t.d. lyf, á meðan karlmenn nota aðferðir sem eru líklegri til að heppnast, eins og að hengja sig eða skjóta.

Þrátt fyrir að margir sem reyna sjálfsvíg vilji í raun ekki fyrirfara sér, og noti aðferðir sem ólíklegt er að leiði til dauða, þá eru þeir engu að síður í mikilli hættu. Og ekki má gleyma því að meira en helmingur þeirra sem fremja sjálfsmorð hafa reynt það a.m.k. einu sinni áður.[heimild vantar]

Tíðni sjálfsvíga[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að sjálfsvíg séu mun fleiri en opinberar tölur gefa til kynna og eru helstu ástæður þess að opinberar tölur passa ekki við rauntíðni sjálfsvíga taldar félagsleg andstaða við sjálfsvíg ásamt því að erfitt getur verið að meta hvort einstaklingur sem deyr hafi haft fullan ásetning um að deyja. Af þessum sökum bera að skoða tölur um sjálfsvíg og samanburð sjálfsvíga eftir löndum afar varlega. Tíðni sjálfsvíga er kynbundin. Tilraunir til sjálfsvíga eru tíðari meðal kvenna, en sjálfsvíg karla eru árangursríkari. Helstu áhættuhópar eru fólk á bilinu 15–24 ára, eldri karlmenn og miðaldra konur.

Á Íslandi er tíðni sjálfsvíga meðal ungra karla mjög há eða að meðaltali um 19 karlar á hverja 100.000 karla árlega, sem er nokkuð hærra en meðaltal annars staðar á Vesturlöndum [heimild vantar]. Athuga ber þó að tölurnar eru villandi, en mun færri en 19 ungir karlar fyrirfara sér árlega þar sem fjöldi ungra karla á Íslandi er um ferfalt lægri. Ungar íslenskar konur fyrirfara sér hins vegar síður en jafnöldrur þeirra á vesturlöndum eða um 2 stúlkur á hverjar 100.000 stúlkur árlega. Af þessum tölum sést að ungir íslenskir karlar eru margfalt líklegri til að falla fyrir eigin hendi en kvenkyns jafnaldrar þeirra.

Annar þáttur við sjálfsvíg á Vesturlöndum er að þau koma oft í bylgjum. Árið 1991 varð sprenging í tíðni sjálfsvíga á Íslandi meðal ungs fólks, en það ár hafði verið mikil umræða um sjálfsvíg innan þess hóps.

Sjálfsvíg ungs fólks á Norðurlöndum eru yfirleitt fleiri en jafnaldra þeirra sunnar í álfunni. Því hafa rannsóknir manna að nokkru leyti beinst að árstíðabundnu þunglyndi sem mögulegum þætti í fjölda sjálfsvíga norðarlega í heiminum.[heimild vantar]

Forvarnir, aðstoð og meðferð[breyta | breyta frumkóða]

Forvarnir gegn sjálfsvígum eru mjög víða stundaðar. Á Íslandi eru það landlæknir og ýmis samtök sem standa fyrir forvörnum gegn sjálfsvígum.

Einnig eru starfrækt víða í heiminum gjaldfrjáls símanúmer sem einstaklingar geta hringt inn allan sólarhringinn, líklegast alltaf nafnlaust, þar sem þeir geta rætt við þjálfað starfsfólk um vandamál sín, þar með talin sjálfsvígshugsanir og -atferli. Á Íslandi starfrækir Rauði kross Íslands slíkt númer, 1717.

Meðferð við sjálfsvígshugsunum og -atferli felst í því að reyna uppræta hugsanirnar sem valda einstaklingnum kvöl og fá hann til að íhuga sjálfsvíg, en ekki er um að ræða beina meðferð við sjálfsvígshugsunum og/eða -atferli. Sem dæmi, ef orsökin er þunglyndi, er veitt meðferð við þunglyndi. Það að fá einstaklinga til að samþykkja meðferð getur hins vegar verið erfitt, sérstaklega hjá þeim sem hafa þjáðst af þunglyndi lengi, vonleysi um að það stoði nokkuð og eru gagnteknir af þeirri hugsun að lífið sé tilgangslaust. Þetta eru algengustu ástæðurnar. Ef ástand einstaklingsins er alvarlegt getur reynst nauðsynlegt að leggja hann inn á stofnun til að varna honum að ráða sér bana.

Trúarleg viðhorf til sjálfsvíga[breyta | breyta frumkóða]

Kristni[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt kristni hefur Kristur frelsað manninn með blóði sínu og sú staðreynd merkir í raun að við erum eign guðs og þess vegna megi maðurinn ekki vera sjálfsbani. Kaþólsk trú leggur sérstaka áherslu á að það gangi gegn vilja guðs að skapa sér sjálfur aldur og að sjálfsmorð feli í sér mikla synd.[15]

Búddismi[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt búddisma er hluti af því að lifa að þjást og sú þjáning á sér upphaf sitt í þrá. Því er það eitt meginmarkmið búddatrúarmanna að minnka þá þrá, og í kjölfarið þjáninguna. Þar sem sumir búddistar trúa á endurfæðingu telja þeir að það breytir litlu fyrir manninn að ráða sér bana. Hann endurfæðist einfaldlega í öðrum líkama og þjáningin heldur áfram.[heimild vantar]

Íslam[breyta | breyta frumkóða]

Múslímar líta á sjálfsvíg sem ein af verstu syndum sem maður getur framið og að sá verknaður sé særandi fyrir sálartilveru þanns sem fyrirfari sér.[heimild vantar]

í einu erindi Quran stendur; "Og fyrirfarið ykkur ekki, vissulega er guð ykkur miskunarsamur."

— Qur'an, Sura 4 (An-Nisa), ayat 29 

Flestir íslam lærlingar og prestar telja að sjálfsmorð sé bönnuð, þar með talin sjálfsmorð með sprengju.

Gyðingdómur[breyta | breyta frumkóða]

Í gyðingdómi er sjálfsvíg ein alvarlegasta synd sem maðurinn getur framið. Hins vegar er leyfilegt að fyrirfara sér ef ein af eftirtöldum þremur ástæðum er fyrir hendi: Ef einhver neyðir mann til að drepa annan, til að guðlasta eða til hórdóms eða sifjaspella.[heimild vantar]

Norræn goðafræði[breyta | breyta frumkóða]

Í menningu norrænna manna léku örlögin stærsta hlutverkið hvað varðar hlutskipti manna í lífinu, trúarlega er því sjálfsmorð einstaklinga aðeins séð sem einn þáttur í framvindu örlagana. Í heiðnum fjölgyðistrúarbrögðum er dauðinn sjaldnast séður sem „tabú“ eða andstæður lífinu, líkt og í eingyðistrúarbrögðum (kristni, gyðingdóm og íslam) heldur er hann séður sem eðlilegur og mikilvægur hluti af því.

Frægir einstaklingar sem hafa fyrirfarið sér[breyta | breyta frumkóða]

Fjölmargir af foringjum nasista frömdu sjálfsmorð á meðan Nürnbergréttarhöldin stóðu yfir, og sumir fyrr, en meðal þeirra voru:

Frekari fróðleikur[breyta | breyta frumkóða]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Suicide Fact sheet N°398“. WHO. apríl 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 3. mars 2016.
 2. 2,0 2,1 Hawton K, van Heeringen K (apríl 2009). „Suicide“. Lancet. 373 (9672): 1372–81. doi:10.1016/S0140-6736(09)60372-X. PMID 19376453.
 3. Dodds TJ (mars 2017). „Prescribed Benzodiazepines and Suicide Risk: A Review of the Literature“. The Primary Care Companion for CNS Disorders. 19 (2). doi:10.4088/PCC.16r02037. PMID 28257172.
 4. „Suicide Fact sheet N°398“. WHO. apríl 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 3. mars 2016.
 5. Bottino SM, Bottino CM, Regina CG, Correia AV, Ribeiro WS (mars 2015). „Cyberbullying and adolescent mental health: systematic review“. Cadernos de Saude Publica. 31 (3): 463–75. doi:10.1590/0102-311x00036114. PMID 25859714.
 6. Preventing Suicide A Resource for Media Professionals (PDF). ISBN 978-9241597074.
 7. Sakinofsky I (júní 2007). „The current evidence base for the clinical care of suicidal patients: strengths and weaknesses“. Canadian Journal of Psychiatry. Revue Canadienne de Psychiatrie. 52 (6 Suppl 1): 7S–20S. PMID 17824349. „Other suicide prevention strategies that have been considered are crisis centres and hotlines, method control, and media education... There is minimal research on these strategies. Even though crisis centres and hotlines are used by suicidal youth, information about their impact on suicidal behaviour is lacking.“
 8. Zalsman, G; Hawton, K; Wasserman, D; van Heeringen, K; Arensman, E; Sarchiapone, M; Carli, V; Höschl, C; Barzilay, R; Balazs, J; Purebl, G; Kahn, JP; Sáiz, PA; Lipsicas, CB; Bobes, J; Cozman, D; Hegerl, U; Zohar, J (júlí 2016). „Suicide prevention strategies revisited: 10-year systematic review“. The Lancet. Psychiatry. 3 (7): 646–59. doi:10.1016/S2215-0366(16)30030-X. PMID 27289303. „Studies of telephone and internet services usually have relatively low levels of evidence. (page 652)“
 9. Värnik P (mars 2012). „Suicide in the world“. International Journal of Environmental Research and Public Health. 9 (3): 760–71. doi:10.3390/ijerph9030760. PMC 3367275. PMID 22690161.
 10. Chang B, Gitlin D, Patel R (september 2011). „The depressed patient and suicidal patient in the emergency department: evidence-based management and treatment strategies“. Emergency Medicine Practice. 13 (9): 1–23, quiz 23–24. PMID 22164363.
 11. Preventing suicide: a global imperative. WHO. 2014. bls. 7, 20, 40. ISBN 978-9241564779.
 12. „Efasemdir um líknardráp - RÚV.is“. RÚV. 23. janúar 2019. Sótt 6. júní 2024.
 13. Jónsbók, Ólafur Halldórsson gaf út, bls. 41 – 42, 2. útgáfa, Odense Universitetsforlag 1970.
 14. Alþingisbækur Íslands VI, bls. 169 – 170 og 217 – 218, Reykjavík 1933 – 1940.
 15. Hrafnkell Lárusson (01.05.2014). „Dularfullur og forboðinn dauði“. Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar. bls. 33.