Innrásin í Sovétríkin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Innrásaráætlun Þjóðverja árið 1940.

Innrásin í Sovétríkin eða Barbarossa-aðgerðin (Unternehmen Barbarossa á þýsku) var innrás Öxulveldanna í Sovétríkin þann 22. júní 1941 í seinni heimsstyrjöldinni, og stærsta hernaðaraðgerð allra tíma. Innrásin var gerð því nasistar við stjórn Þýskalands hugðust innlima vesturhluta Sovétríkjanna og nema þar land fyrir Þjóðverja, nota innfædda Slava í nauðungarvinnu fyrir herrekstur Öxulveldanna og leggja hald á olíu í Kákasus og landbúnaðarbirgðir á landsvæðum Sovétmanna.[1] Barbarossa-aðgerðin var nefnd eftir Friðriki barbarossa, keisara heilaga rómverska ríkisins á 12. öld.

Á árunum í aðdraganda innrásarinnar höfðu Þýskaland og Sovétríkin undirritað ýmsa stjórnmála- og efnahagssáttmála. Miðstjórn þýska hersins hafði engu að síður byrjað að undirbúa innrás í júlí árið 1940 (undir dulnefninu Ottó-aðgerðin), sem Adolf Hitler samþykkti þann 18. desember það ár. Í aðgerðinni réðust um fjórar milljónir hermanna Öxulveldanna, stærsti innrásarher hernaðarsögunnar, inn í vestanverð Sovétríkin yfir 2900 kílómetra víglínu. Auk hermannanna nýtti þýski herinn sér um 600.000 vélknúin farartæki og um 600.000 til 700.000 hesta.

Þýski herinn vann mikla sigra og hertók marga mikilvægustu efnahagskjarna Sovétríkjanna, sérstaklega í Úkraínu. Báðar stríðandi fylkingar liðu mikið mannfall. Þrátt fyrir þessa sigra var framsókn Öxulveldanna stöðvuð í orrustunni við Moskvu og síðan snúið við í gagnáhlaupi Sovétmanna. Rauði herinn hristi af sér föstustu skot Öxulveldanna og neyddi Þjóðverjana til að heyja þreytistríð. Þýska hernum tókst aldrei aftur að hrinda af stað samstæðu áhlaupi á öllum austurvígstöðvunum. Eftir að Barbarossa-aðgerðin fór út um þúfur skipaði Hitler ýmsar frekari aðgerðir innan Sovétríkjanna en allar mistókust þær.

Barbarossa-aðgerðin markaði þáttaskil hjá þriðja ríkinu.[2] Aðgerðin hóf átökin á austurvígstöðvum seinni heimsstyrjaldarinnar, þar sem fleiri hermenn börðust en á nokkrum öðrum vígstöðvum í mannkynssögunni. Á austurvígstöðvunum voru margar stærstu orrusturnar háðar, mörg verstu voðaverkin unnin og dauðsfallið varð sem hæst hjá bæði Sovétmönnum og Öxulveldunum. Þjóðverjar tóku um fimm milljónir sovéskra hermanna til fanga og neituðu þeim um lágmarksréttindi sem mælt var fyrir um í Genfarsáttmálanum. Flestir stríðsfangarnir sneru aldrei heim á lífi. Nasistarnir sveltu vísvitandi til dauða eða myrtu um 3,3 milljónir fanga og fjölda almennra borgara með „hunguráætluninni“ sem átti að hreinsa burt slavnesku íbúana svo þýskir landnemar gætu sest að í Austur-Evrópu.[3] Auk þess var rúm milljón sovéskra gyðinga myrt af dauðasveitum og í gasklefum nasista í samræmi við helförina.[4]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Rich, Norman (1973). Hitler's War Aims: Ideology, the Nazi State, and the Course of Expansion. W.W. Norton, bls. 204–221.
  2. Rees, Laurence (2010). „What Was the Turning Point of World War II?“. HISTORYNET. Sótt 15. apríl 2018. {{cite web}}: Óleyfilegt |ref=harv (hjálp)
  3. Snyder, Timothy (2010). Bloodlands: Europe between Hitler and Stalin. New York: Basic Books, bls. 175–186.
  4. United States Holocaust Memorial Museum (1996). Historical Atlas of the Holocaust. New York: Macmillan Publishing bls. 50–51.