Krít (eyja)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krít innan Grikklands.
Kort af eyjunni
Lefka Ori. Hvítufjöll.
Höfnin í Agios Nikolaos.

Krít (gríska: Κρήτη) er stærsta gríska eyjan og hérað í Grikklandi. Hún sú fimmta stærsta í Miðjarðarhafinu og er ennfremur næststærsta eyja í Austur-Miðjarðarhafi, næst á eftir Kýpur. Flatarmál hennar er 8.336 km2. Krít hefur oft verið kölluð þröskuldur Evrópu.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu landnemar á eyjunni eru taldir hafa komið fyrir 130.000 árum. Krít var miðdepill mínóísku menningarinnar (árin 2700-1420 fyrir Krist) sem er talin ein elsta siðmenning í Evrópu. Þekktustu leifar hennar eru í Knossos suður af Heraklíon. Síðar varð Mýkenumenningin frá meginlandi Grikklandi ráðandi.

Ýmis heimsveldi hafa haft yfirráð á eyjunni: Rómaveldi, Austrómverska keisaradæmið, borgríki Feneyinga og Ottómanveldið. Eftir stutt sjálfstæðistímabil varð Krít hluti af Grikklandi. Nasistar réðust á eyjuna árið 1941 í orrustunni um Krít. Þeir mættu harðri andstöðu frá heimamönnum sem drápu fallhlífahermenn þeirra. Nasistar hefndu sín grimmilega og stunduðu fjöldaaftökur í þeim bæjum þar sem andstaðan var sem mest.

Landsvæði[breyta | breyta frumkóða]

Krít spannar 260 kílómetra frá vestri til austurs en er aðeins um 60 kílómetra mest að breidd frá norðri til suðurs.

Fjallgarðar eru á eyjunni og í Lefka Ori (Hvítufjöllum) og Idi- og Dikti-fjöllum ná hæstu fjöllin yfir 2000 metra hæð, hæst í 2456 metra. Gljúfur skera fjöllin og er Samaria-gljúfrið þekktast þeirra.

Samfélag[breyta | breyta frumkóða]

Krít og nærliggjandi eyjar mynda eitt af 13 stjórnsýslusvæðum innan Grikklands. Höfuðstaðurinn og stærsta borgin er Heraklíon. Þjónusta, ferðamennska og landbúnaður eru helstu atvinnugreinarnar. Íbúar voru um 617.000 árið 2021.

Helstu borgir eru:

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Crete“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. maí 2016.