Fara í innihald

Constantin Fehrenbach

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Constantin Fehrenbach
Kanslari Þýskalands
Í embætti
21. júní 1920 – 4. maí 1921
ForsetiFriedrich Ebert
ForveriHermann Müller
EftirmaðurJoseph Wirth
Persónulegar upplýsingar
Fæddur11. janúar 1852
Wellendingen, Þýskalandi
Látinn26. mars 1926 (74 ára) Freiburg, Þýskalandi
StjórnmálaflokkurMiðflokkurinn
MakiMaria Hossner (g. 1879)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn1
HáskóliHáskólinn í Freiburg
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður
Undirskrift

Constantin Fehrenbach (11. janúar 1852 – 26. mars 1926) var þýskur stjórnmálamaður sem var einn af helstu leiðtogum kaþólska Miðflokksins á árum Weimar-lýðveldisins. Hann var forseti þýska ríkisþingsins árið 1918 og forseti stjórnlagaþingsins í Weimar frá 1919 til 1920. Í júní árið 1920 varð Fehrenbach kanslari Þýskalands. Hann sagði af sér í maí næsta ár til að mótmæla stríðsskaðabótum sem Þýskaland átti að greiða bandamönnum úr fyrri heimsstyrjöldinni. Fehrenbach leiddi þingflokk Miðflokksins frá 1923 til dauðadags árið 1926.

Constantin Fehrenbach fæddist árið 1852 í bænum Wellendingen í þáverandi stórhertogadæminu Baden.[1] Hann nam guðfræði og síðan lögfræði í háskólanum í Freiburg. Hann vann sem lögfræðingur í bænum en hóf þátt í stjórnmálum árið 1884 þegar hann gekk á borgarþingið í Freiburg. Næsta ár gekk hann á héraðsþing Baden fyrir kaþólska Miðflokkinn. Fehrenbach gekk á þýska ríkisþingið árið 1903 og var kjörinn forseti þess árið 1918. Fehrenbach var síðasti forseti ríkisþingsins á árum þýska keisaraveldisins.[1][2]

Fehrenbach sat áfram sem forseti ríkisþingsins eftir stofnun Weimar-lýðveldisins árið 1918. Í júní árið 1920 myndaði Fehrenbach fyrstu ríkisstjórn Weimar-lýðveldisins án aðkomu Jafnaðarmannaflokksins. Á kanslaratíð Fehrenbach voru atvinnuleysisbætur hækkaðar og hámarksbætur til einhleypra karlmanna yfir 21 árs aldri fóru úr 7 mörkum í 10 mörk.[3]

Fehrenbach sagði af sér í maí árið 1921 af því að þýski Þjóðarflokkurinn hafði dregið stuðning sinn við ríkisstjórn hans til baka vegna ósættis með tilraunir Fehrenbach til að vinna með bandamönnum að greiðslu stríðsskaðabóta. Fehrenbach tókst ekki að fá þingstuðning fyrir frumvarpi sem tilgreindi 132 milljarða gullmarka sem andvirði stríðsskaðabótanna. Fehrenbach sagði formlega af sér þann 4. maí en sat áfram í starfsstjórn þar til Joseph Wirth tók við embættinu þann 10. maí.[1][2][4]

Árið 1922 varð Fehrenbach dómari á dómstólnum Staatsgerichtshof für das Deutsche Reich sem átti að standa vörð um stjórnarskrá Weimar-lýðveldisins. Seint næsta ár gerðist Fehrenbach þingflokksformaður Miðflokksins og gegndi því hlutverki til dauðadags. Hann varð einnig varaformaður samtakanna Verein zur Abwehr des Antisemitismus, sem áttu að berjast gegn gyðingahatri.[1][2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Biografie Konstantin Fehrenbach (á þýsku)“. Bayerische Nationalbibliothek. Sótt 31. ágúst 2018.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Konstantin Fehrenbach (á þýsku)“. Deutsches Historisches Museum. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. ágúst 2014. Sótt 31. ágúst 2018.
  3. Feldman, Gerald D. (6. mars 1997). The Great Disorder: Politics, Economics, and Society in the German Inflation, 1914-1924. Oxford University Press. bls. 232. Sótt 31. ágúst 2018.
  4. „Der Rücktritt des Kabinetts (á þýsku)“. Bundesarchiv. Sótt 31. ágúst 2018.


Fyrirrennari:
Hermann Müller
Kanslari Þýskalands
(21. júní 19204. maí 1921)
Eftirmaður:
Joseph Wirth