Salzburg

Hnit: 47°48′00″N 13°02′00″A / 47.80000°N 13.03333°A / 47.80000; 13.03333
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

47°48′00″N 13°02′00″A / 47.80000°N 13.03333°A / 47.80000; 13.03333

Salzburg
Staðsetning
Salzburg er staðsett í Austurríki
Salzburg
Grundvallarupplýsingar
Sambandsland: Salzburg
Stærð: 65,64 km²
Íbúafjöldi: 148.256 (1. jan 2015)
Þéttleiki: 2.255/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 424 m
Vefsíða: http://www.stadt-salzburg.at

Salzburg er borg í Austurríki og höfuðborg samnefnds sambandslands. Miðborgin er þekkt fyrir barokkbyggingar og var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Hún er einnig þekkt sem fæðingarborg tónskáldsins Mozarts. Íbúar eru 148 þús (1. janúar 2015) og er Salzburg þar með fjórða stærsta borg Austurríkis.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Salzburg liggur við ána Salzach nokkuð norðarlega í Austurríki. Miðborgin liggur mitt á milli fimm hæða. Á einni þeirra gnæfir kastalinn Hohensalzburg. Vestri borgarmörkin nema við Bæjaraland en Alparnir eru aðeins steinsnar til suðurs. Næstu stærri borgir eru Passau í Þýskalandi til norðurs (120 km), München í Þýskalandi til vesturs (145 km), Innsbruck til suðvesturs (160 km) og Linz til norðausturs (135 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Salzburg stórt hvítt borgarvirki með gullin þök á rauðum grunni. Í forgrunni stendur borgarhlið opið. Borgarvirkið merkir kastalann Hohensalzburg. Merkið kom fyrst fram 1249, en hefur breyst örlítið í gegnum tíðina.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Rómverjar[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi bjuggu keltar á svæðinu. 15 f.Kr. tóku Rómverjar svæðið allt og þvinguðu íbúana til að setjast að milli hæðanna fimm þar sem nú er miðborg Salzburg. Þar var stofnaður bær sem hlaut heitið Iuvavum. Kládíus keisari veitti borgarbúum þegnrétt árið 45. Iuvavum varð að einni mikilvægustu borg í rómverska skattlandinu Noricum. Germanir eyddu borginni árið 171 og var hún ekki endurreist fyrr en í tíð Septímíusar Severusar keisara um aldamótin 200. Árið 241 eyddu alemannar borginni að nýju. Borgin blómstraði þó aftur í tíð Díókletíanusar og Konstantínusar mikla. Við fall Rómaveldis fluttu flestir rómverskir og keltneskir íbúar á brott. Árið 488 skipaði gotaleiðtoginn Odoaker restinum að yfirgefa borgina.

Miðaldaborgin[breyta | breyta frumkóða]

Seint á 5. öld var klaustur reist á staðnum. Árið 696 gaf bæríski hertoginn Theodo II biskupinum Rúpert gömlu rómverjaborgina sem nokkurs konar kristniboðsmiðstöð og skömmu síðar varð Salzburg að biskupssetri. Árið 755 kom Salzburg fyrst við skjöl. Brátt varð borgin að erkibiskupsdæmi. Í aldalöngum átökum milli páfa og keisara stóð Salzburg ávallt með páfa og studdi því gagnkonung þýska ríkisins. Því var mikill rígur milli erkibiskups og keisara. Steininn tók úr er Konráður I erkibiskup settist í biskupsstólinn í Salzburg án aðkomu keisara. Friðrik Barbarossa setti því ríkisbann á borgina 1166. Konráður hafði þar að auki stutt Alexander páfa III í stað gagnpáfans sem keisari hafði tilnefnt. Aðeins tveimur árum síðar lét Friðrik keisari brenna borgina til kaldra kola í refsingarskyni. Í brunanum eyðilagðist dómkirkjan og 6 aðrar kirkjur. Á 13. öld varð erkibiskupinn orðinn að veraldlegum fursta á stóru landsvæði í Bæjaralandi. Hins vegar leysti biskupinn sig frá áhrifum hertoganna í Bæjaralandi. Þetta var hægt þar sem ríkulegar saltnámur (hvíta gullið) voru víða í landi Salzburg.

Salzburg sem sjálfstætt ríki[breyta | breyta frumkóða]

1322 börðust íbúar Salzburg með Habsborgurum gegn bæjurum. Skömmu síðar leysti Salzburg sig úr lögum við Bæjaraland og varð að sjálfstæðu ríki innan þýska ríkisins. Seint á 15. öld veitti Friðrik III keisari borginni rétt til að skipa eigin borgarstjóra. Þetta féll ekki í kramið hjá erkibiskupinum, sem taldi sig vera ríkjandi fursta. 1511 bauð Bernhard von Rohr erkibiskup borgarráðinu ásamt borgarstjóra í veislu í höllinni sinni. Þar voru þeir allir handteknir og settir í dýflissu. Meðan þeir dúsuðu þar voru þeir neyddir til að afsala sér öllum réttindum til stjórnunar í borginni. Sá réttur fór til Bernhards erkibiskups. Í bændastríðinu 1525 hleyptu íbúar Salzburg bændum inn í borgina og litu á þá sem samherja gegn yfirráðum erkibiskups, sem varð að flýja í kastala sinn (Hohensalzburg). Bændaherinn sat um kastalann í marga mánuði, en náðu ekki að vinna hann. Áður en árið var liðið var búið að semja um vopnahlé. Engin siðaskipti urðu í landi Salzburg, hvorki í borginni né í nærsveitum. Að vísu tóku margir nýju trúnni og hún predikuð í einni kirkjunni. En öllum siðaskiptamönnum var vísað úr landi. Þannig hélst borgin og landið rammkaþólskt. Sökum mikilla erja um salt og tolla milli Salzburg og Bæjaralands, hertók erkibiskupinn Wolf Dietrich von Raitenau borgina Berchtesgaden 1611. Sem svar við þessu réðust bæjarar inn í Salzburg og hertóku borgina. Þeir settu erkibiskupinn af og skipuðu nýjan mann, Markus Sittikus. Hann stofnaði skóla 1617 sem varð að háskóla fimm árum síðar.

Frakkar og Austurríki[breyta | breyta frumkóða]

Salzburg 1791

Salzburg kom ekki við sögu í 30 ára stríðinu. Borgin seldi salt eins og áður og dafnaði vel. Fram að upphafi 19. aldar voru margar merkar byggingar reistar, ekki síst kirkjur. Þegar Frakkar hertóku landið í upphafi 19. aldar breyttist ýmislegt. Þeir lögðu erkibiskupsdæmið niður og sameinuðu landið Salzburg ítalska héraðinu Toscana, en þar réði stórhertoginn Ferdinand III ríkjum. 1805 var Salzburg og Berchtesgaden hins vegar sameinað keisaradæminu Austurríki. Þetta féll ekki í kramið hjá Napoleon. 1810 sameinaði hann Salzburg og Berchtesgaden Bæjaralandi. Eftir fall Napoleons varð Salzburg hins vegar austurrísk á ný, meðan Berchtesgaden var áfram bærísk borg. Landið Salzburg var leyst upp og var skipt upp í hin og þessi héruð. Þetta þýddi að Salzburg, hin mikla stjórnarborg erkibiskupanna, varð að frekar afskekktri borg í Austurríki. 1850 var landið Salzburg búið til á ný og varð að hertogadæmi með eigin stjórn innan keisaradæmis Austurríkis. Stjórnin sat hins vegar í borginni Linz í Efra Austurríki. 1860 var byrjað á að rífa niður alla borgarmúra til að vinna meira byggingaland. Samtímis var áin Salzach sett í fastari farveg til að þurrka upp jarðveg og minnka flóðahættu. Á sama ári hlaut Salzburg járnbrautartengingu á línunni München-Vín.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

1919, ári eftir lok heimstyrjaldarinnar fyrri, var haldin kosning um tilveru lands Salzburg. Niðurstaðan var sú að búið var til lýðveldi innan Austurríkis. En aðeins tveimur árum seinna var haldin önnur kosning. Þá vildu meirihluti íbúanna tilheyra Þýskalandi. Á þeim tíma var Weimar-lýðveldið við lýði. En sigurþjóðirnar komu í veg fyrir sameininguna. Salzburg var því áfram austurrísk. Mikill straumur ferðamanna sótti borgina heim og var hann látlaus allt til 1934, er Austurríki varð að fasistaríki til skamms tíma. 1935 voru nokkrir nágrannabæir sameinaðir Salzburg. Flatarmál borgarinnar fór því úr tæp 9 km2 í tæp 25 km2. Að sama skapi fjölgaði íbúum úr 40 þús í 63 þús. Önnur stækkun átti sér stað 1939, en þá fór íbúafjöldinn í 77 þús. Eftir innlimun Austurríkis í Þýskaland Hitlers fóru fram sömu gyðingaofsóknir í Salzburg og annars staðar. Bækur voru brenndar, bænahús gyðinga var brennt og gyðingar fluttir burt. 1944 og 1945 varð Salzburg fyrir 15 loftárásum bandamanna, aðallega Bandaríkjamanna. Þær áttu fyrst og fremst að eyðileggja járnbrautarkerfið, þar sem iðnaður var lítill í borginni. Í árásunum létust 550 manns og 7.600 íbúðir eyðilögðust. Miðborgin varð fyrir miklum skemmdum, þar á meðal dómkirkjan og Mozarthúsið. Rétt fyrir stríðslok fengu herforingjarnir Gustav Adolf Scheel og Hans Lepperdinger þá skipun að verja borgina til hinsta manns gegn herjum bandamanna. Þeir óhlýðnuðust þessum skipunum til að hlífa borginni fyrir frekari skemmdum. Lepperdinger tók friðsamlega á móti Bandaríkjamönnum 4. maí 1945 og afhenti þeim borgina bardagalaust. Salzburg var á bandaríska hernámssvæðinu til 1955 og var jafnframt höfuðstöðvar bandaríska setuliðsins. Endurreist miðborgarinnar gekk hægt. 1959 var aftur hægt að halda messur í dómkirkjunni. 1962 tók háskólinn til starfa á ný. Síðan þá hefur borgin notið þess að vera vinsæl ferðamannaborg, enda þekkt fyrir mikla fegurð og sem heimaborg tónskáldsins Mozarts. 1996 var miðborgin öll sett á heimsminjaskrá UNESCO.

Tónlist[breyta | breyta frumkóða]

Tónlistarlíf Salzburg snýst að miklu leyti um Mozart

Fjórir stórir tónlistarviðburðir fara fram árlega í Salzburg.

  • Tónlistarhátíð Salzburg (Salzburger Festspiele) hafa farið fram síðan 1920 og eru mestmegnis helgaðar tónskáldinu Mozart.
  • Páskatónlistarhátíðin (Osterfestspiele) var stofnuð af Herbert von Karajan 1967 og varir í tíu daga.
  • Hvítasunnutónlistarhátíðin (Pfingsfestspiele) síðan 1973, sem helgar sig að miklu leyti barokktónlist.
  • Salzburger Jazz-Herbst er jazzhátíð sem fram fer í borginni á haustin síðan 1996.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Helsta knattspyrnufélag borgarinnar er FC Red Bull Salzburg sem 6 sinnum hefur orðið austurrískur meistari (síðast 2010) og komst einu sinni í úrslit Evrópukeppninnar 1994 (tapaði þá fyrir Inter Milan).

Í íshokkí eru bæði karla- og kvennaliðið í efstu deild. Kvennaliðið varð austurrískur meistari 2006.

Austurríska ruðningsdeildin var stofnuð 1984 og sigraði þá Salzburg Lions fyrsta keppnisárið.

Maraþonhlaup fer fram í Salzburg síðan 2004. Samfara því fer fram hálfmaraþon, boðmaraþon, 10 km hlaup og 5 km hlaup.

Salzburg sótti um vetrarólympíuleikana 2010 og aftur 2014, en varð í hvorugt skiptið fyrir valinu.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Dresden viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Hohensalzburg er eitt mesta kastalavirki Evrópu
  • Hohensalzburg er mikið kastalavirki á stórri hæð í miðborginni og er einkennismerki Salzburg. Virkið er meðal þeirra allra stærstu í Evrópu, en það liggur á 14 þús m2 svæði. Kastalinn sjálfur stendur á 7.000 m2 svæði. Elstu hlutar hans eru frá 11. öld, en hann var aðsetur furstabiskupanna í landi Salzburg til upphafs 19. aldar. Kastalinn er opinn almenningi í dag og er mest sótti ferðamannastaður Austurríkis, utan Vínarborgar.
  • Dómkirkjan í Salzburg er kaþólska aðalkirkjan í borginni. Núverandi bygging var reist 1598-1628 á grunni eldri kirkju. Hvolfþakið er 79 metra hátt, en turnarnir 81 metra. Kirkjan er 101 metra á lengd og rúmar 10 þús manns. Í henni eru 11 ölturu. 1944 brann kirkjan eftir loftárásir seinna stríðsins. Viðgerðir gengu hægt og var ekki messað í henni fyrr en 1959.
  • Péturskirkjan er munkakirkja, en klaustur þeirra er elsta munkaklaustur í þýska menningarheiminum sem enn er við lýði. Klaustrið var stofnað 696 og var núverandi kirkja reist 1125-1143. Turninn sjálfur er hins vegar frá 9. öld og tilheyrði annarri kirkju þá. Í klaustursbókasafninu eru 100 þús bindi.
  • Leopoldskron-kastali var reistur 1736-40 af erkibiskupinum Leopold sem einkakastala fyrir sumrin. Biskup lést skömmu síðar og síðan þá hefur kastalinn gengið í erfðir og verið seldur mýmörgum sinnum. Í dag er hann eign bandarísku stofnunarinnar NGO (non-governmental organisation). Kastalinn er lokaður almenningi, en hann var notaður fyrir upptökur á kvikmyndinni Söngvaseið (Sound of Music).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]