Joseph Wirth

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Joseph Wirth
Kanslari Þýskalands
Í embætti
10. maí 1921 – 14. nóvember 1922
ForsetiFriedrich Ebert
ForveriConstantin Fehrenbach
EftirmaðurWilhelm Cuno
Persónulegar upplýsingar
Fæddur6. september 1879
Freiburg, Þýskalandi
Látinn3. janúar 1956 (76 ára) Freiburg, Vestur-Þýskalandi
StjórnmálaflokkurMiðflokkurinn
TrúarbrögðKaþólskur
HáskóliHáskólinn í Freiburg

Karl Joseph Wirth (6. september 1879 – 3. janúar 1956) var þýskur stjórnmálamaður og kanslari Þýskalands í 585 daga (1921–1922) á árum Weimar-lýðveldisins. Wirth reyndi að virða skilmálana sem Þjóðverjar höfðu fallist á í Versalasamningnum og sýna bandamönnum þannig fram á að þeir væru óraunhæfir. Ásamt utanríkisráðherra sínum, Walther Rathenau, reyndi hann að binda enda á einangrun Þjóðverja á alþjóðasenunni með því að skrifa undir Rapallo-sáttmálann árið 1922.

Wirth fór í sjálfskipaða útlegð eftir að nasistar komust til valda árið 1933.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Wirth fæddist í Freiburg í þáverandi stórhertogadæminu Baden árið 1879. Hann nam stærðfræði, náttúruvísindi og hagfræði í háskólanum í Freiburg frá 1899 til 1906.[1] Árið 1911 var hann kjörinn á borgarþing Freiburg fyrir Miðflokkinn. Hann sat á ríkisþingi Baden frá 1913 til 1921 og gekk á þýska ríkisþingið árið 1914. Wirth bauð sig fram í herinn þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út en honum var hafnað af heilsufarsástæðum. Hann gekk þess í stað í rauða krossinn og vann sem hjúkrunarliði á vesturvígstöðvunum þar til hann fékk lungnabólgu árið 1917.

Eftir afsögn Gustavs Bauer kanslara í kjölfar Kappuppreisnarinnar árið 1920 varð Wirth fjármálaráðherra í ríkisstjórnum Hermanns Müller og Constantins Fehrenbach. Fehrenbach sagði af sér í maí árið 1921 vegna ágreinings um stríðsskaðabæturnar sem Þjóðverjar áttu að greiða bandamönnum og Wirth tók við kanslaraembættinu.

Sem kanslari féllst Wirth á að greiða stríðsskaðabæturnar háu sem bandamenn kröfðust en hann vonaðist til þess að með því að fara eftir skilmálum bandamanna myndu þeir fljótt komast í skilning um að skaðabótaupphæðin væri óraunhæf og myndu þannig kalla Þjóðverja aftur að samningaborðinu.[2] Þessi stefna Wirth var mjög óvinsæl meðal öfgahægrimanna í Þýskalandi, sem kölluðu á eftir því að Wirth yrði ráðinn af dögum.

Í október árið 1921 tilkynnti ÞjóðabandalagiðEfri-Slésíu yrði skipt milli Þýskalands og Póllands þrátt fyrir að meirihluti íbúanna hefðu kosið í atkvæðagreiðslu að vera áfram hluti af Þýskalandi. Þjóðverjar brugðust reiðir við og Wirth á að hafa sagt í bræði sinni að réttast væri að leggja Pólland í eyði.[3] Wirth hugðist segja af sér til að mótmæla skiptingu Efri-Slésíu en Friedrich Ebert forseti taldi hann á að mynda nýja ríkisstjórn og vera áfram kanslari.

Í apríl árið 1922 skrifuðu Wirth og Walther Rathenau utanríkisráðherra undir Rapallo-sáttmálann við Sovétríkin þar sem Þjóðverjar afsöluðu sér formlega öllu tilkalli til landsvæðis sem Rússar höfðu eftirlátið þeim í Brest-Litovsk-samningnum árið 1917. Sáttmálinn batt enda á einangrun Þjóðverja á alþjóðasviðinu. Stuttu eftir að sáttmálinn var undirritaður var Rathenau myrtur af hægriöfgamönnum. Wirth hélt í kjölfarið fræga ræðu á þýska ríkisþinginu þar sem hann varaði við öfgavæðingu þýskra stjórnmála og lauk máli sínu með því að segja: „Óvinurinn er til hægri!“[4][5]

Wirth sagði af sér sem kanslari þann 14. nóvember 1922. Hann varð síðar innanríkisráðherra í ríkisstjórn Heinrichs Brüning. Eftir að nasistar komust til valda árið 1933 hélt Wirth tilfinningaþrungna ræðu á ríkisþinginu þar sem hann mótmælti neyðarlögunum sem veittu Adolf Hitler alræðisvald. Eftir að lögin voru samþykkt flutti Wirth til Sviss. Hann hélt sambandi við andstæðinga nasismans innan Þýskalands á meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Biografie Joseph Wirth (á þýsku)“. Deutsches Historisches Museum. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. júlí 2014. Sótt 31. ágúst 2018.
  2. „Das Londoner Ultimatum (á þýsku)“. Deutsches Historisches Museum. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. febrúar 2014. Sótt 31. ágúst 2018.
  3. The Burden of German history, 1919-45: essays for the Goethe Institute, Michael Laffan Methuen, 1988, bls. 89.
  4. Joseph Wirth, Reichstagsrede aus Anlass der Ermordung Rathenaus, June 25, 1922, in Politische Reden II: 1914-45, ed. Peter Wende (Frankfurt a.M.: Deutscher Klassiker, 1994), pp. 330-341.
  5. Ulrich Schlie: Altreichskanzler Joseph Wirth im Luzerner Exil (1939–1948). In: Exilforschung 15, 1997, S.180–199.
  6. Ulrich Schlie: Diener vieler Herren. Die verschlungenen Pfade des Reichskanzlers Joseph Wirth im Exil: In: Frankfurter Allgemeine Zeitung, 29. November 1997


Fyrirrennari:
Constantin Fehrenbach
Kanslari Þýskalands
(10. maí 192114. nóvember 1922)
Eftirmaður:
Wilhelm Cuno