Joseph Wirth

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Joseph Wirth
Bundesarchiv Bild 146III-105, Joseph Wirth.jpg
Kanslari Þýskalands
Í embætti
10. maí 1921 – 14. nóvember 1922
Persónulegar upplýsingar
Fædd(ur)

6. september 1879

Freiburg, Þýskalandi
Dáin(n)

3. janúar 1956 (76 ára)

Freiburg, Vestur-Þýskalandi
Stjórnmálaflokkur Miðflokkurinn
Trúarbrögð Kaþólskur
Háskóli Háskólinn í Freiburg

Karl Joseph Wirth (6. september 1879 – 3. janúar 1956) var þýskur stjórnmálamaður og kanslari Þýskalands í 585 daga (1921–1922) á árum Weimar-lýðveldisins. Wirth reyndi að virða skilmálana sem Þjóðverjar höfðu fallist á í Versalasamningnum og sýna bandamönnum þannig fram á að þeir væru óraunhæfir. Ásamt utanríkisráðherra sínum, Walther Rathenau, reyndi hann að binda enda á einangrun Þjóðverja á alþjóðasenunni með því að skrifa undir Rapallo-sáttmálann árið 1922.

Wirth fór í sjálfskipaða útlegð eftir að nasistar komust til valda árið 1933.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Wirth fæddist í Freiburg í þáverandi stórhertogadæminu Baden árið 1879. Hann nam stærðfræði, náttúruvísindi og hagfræði í háskólanum í Freiburg frá 1899 til 1906.[1] Árið 1911 var hann kjörinn á borgarþing Freiburg fyrir Miðflokkinn. Hann sat á ríkisþingi Baden frá 1913 til 1921 og gekk á þýska ríkisþingið árið 1914. Wirth bauð sig fram í herinn þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út en honum var hafnað af heilsufarsástæðum. Hann gekk þess í stað í rauða krossinn og vann sem hjúkrunarliði á vesturvígstöðvunum þar til hann fékk lungnabólgu árið 1917.

Eftir afsögn Gustavs Bauer kanslara í kjölfar Kappuppreisnarinnar árið 1920 varð Wirth fjármálaráðherra í ríkisstjórnum Hermanns Müller og Constantins Fehrenbach. Fehrenbach sagði af sér í maí árið 1921 vegna ágreinings um stríðsskaðabæturnar sem Þjóðverjar áttu að greiða bandamönnum og Wirth tók við kanslaraembættinu.

Sem kanslari féllst Wirth á að greiða stríðsskaðabæturnar háu sem bandamenn kröfðust en hann vonaðist til þess að með því að fara eftir skilmálum bandamanna myndu þeir fljótt komast í skilning um að skaðabótaupphæðin væri óraunhæf og myndu þannig kalla Þjóðverja aftur að samningaborðinu.[2] Þessi stefna Wirth var mjög óvinsæl meðal öfgahægrimanna í Þýskalandi, sem kölluðu á eftir því að Wirth yrði ráðinn af dögum.

Í október árið 1921 tilkynnti ÞjóðabandalagiðEfri-Slésíu yrði skipt milli Þýskalands og Póllands þrátt fyrir að meirihluti íbúanna hefðu kosið í atkvæðagreiðslu að vera áfram hluti af Þýskalandi. Þjóðverjar brugðust reiðir við og Wirth á að hafa sagt í bræði sinni að réttast væri að leggja Pólland í eyði.[3] Wirth hugðist segja af sér til að mótmæla skiptingu Efri-Slésíu en Friedrich Ebert forseti taldi hann á að mynda nýja ríkisstjórn og vera áfram kanslari.

Í apríl árið 1922 skrifuðu Wirth og Walther Rathenau utanríkisráðherra undir Rapallo-sáttmálann við Sovétríkin þar sem Þjóðverjar afsöluðu sér formlega öllu tilkalli til landsvæðis sem Rússar höfðu eftirlátið þeim í Brest-Litovsk-samningnum árið 1917. Sáttmálinn batt enda á einangrun Þjóðverja á alþjóðasviðinu. Stuttu eftir að sáttmálinn var undirritaður var Rathenau myrtur af hægriöfgamönnum. Wirth hélt í kjölfarið fræga ræðu á þýska ríkisþinginu þar sem hann varaði við öfgavæðingu þýskra stjórnmála og lauk máli sínu með því að segja: „Óvinurinn er til hægri!“[4][5]

Wirth sagði af sér sem kanslari þann 14. nóvember 1922. Hann varð síðar innanríkisráðherra í ríkisstjórn Heinrichs Brüning. Eftir að nasistar komust til valda árið 1933 hélt Wirth tilfinningaþrungna ræðu á ríkisþinginu þar sem hann mótmælti neyðarlögunum sem veittu Adolf Hitler alræðisvald. Eftir að lögin voru samþykkt flutti Wirth til Sviss. Hann hélt sambandi við andstæðinga nasismans innan Þýskalands á meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Biografie Joseph Wirth (á þýsku)". . (Deutsches Historisches Museum). Geymt frá upphaflegu greininni . Skoðað 31. ágúst 2018.
  2. „Das Londoner Ultimatum (á þýsku)". . (Deutsches Historisches Museum). Geymt frá upphaflegu greininni 12. febrúar 2014. Skoðað 31. ágúst 2018.
  3. The Burden of German history, 1919-45: essays for the Goethe Institute, Michael Laffan Methuen, 1988, bls. 89.
  4. Joseph Wirth, Reichstagsrede aus Anlass der Ermordung Rathenaus, June 25, 1922, in Politische Reden II: 1914-45, ed. Peter Wende (Frankfurt a.M.: Deutscher Klassiker, 1994), pp. 330-341.
  5. Ulrich Schlie: Altreichskanzler Joseph Wirth im Luzerner Exil (1939–1948). In: Exilforschung 15, 1997, S.180–199.
  6. Ulrich Schlie: Diener vieler Herren. Die verschlungenen Pfade des Reichskanzlers Joseph Wirth im Exil: In: Frankfurter Allgemeine Zeitung, 29. November 1997


Fyrirrennari:
Constantin Fehrenbach
Kanslari Þýskalands
(10. maí 192114. nóvember 1922)
Eftirmaður:
Wilhelm Cuno