Fara í innihald

Nikolaikirkjan í Kíl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nikolaikirkjan að kvöldlagi
Altari

Nikolaikirkjan í Kíl (Nikolaikirche) stendur við aðalmarkaðstorgið í miðborginni og er elsta standandi bygging borgarinnar.

Kirkjan var reist á 13. öld, en henni var umbreytt á 14. öld að fyrirmynd Péturskirkjunnar í Lübeck. Á 19. öld var framhlið kirkjunnar endurnýjuð í gotneskum stíl. Kirkjan skemmdist talsvert í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari. Meðan kirkjan brann tókst aðeins að bjarga örfáum hlutum. Nokkrir aðrir gamlir hlutir prýða kirkjuna að innan. Má þar nefna altari frá 1460, skírnarfont frá 1344 og sigurkross frá 1490.

Andariddarinn

[breyta | breyta frumkóða]
Andariddarinn

Stór og mikil bronsstytta var sett upp fyrir utan kirkjuna 1928. Hún var af engli með sverði og stóð á úlfi. Styttan átti að sýna á táknrænan hátt sigur hins góða yfir hinu vonda. Þaðan er heitið Andariddari komið (Geistkämpfer). Nasistum mislíkaði stórum þessi stytta og mátu hana sem úrkynjaða list. Þeir fjarlægðu styttuna 1937, en það tókst að bjarga henni frá bræðsluofnunum. Þegar kirkjan var endurreist og vígð 1954, var styttan aftur sett þar sem hún var áður.

Þjóðsaga

[breyta | breyta frumkóða]

Til er þjóðsaga sem átti að hafa gerst fyrir nokkru síðan. Í kirkjunni voru ungir kórpiltar að spila með spilastokk meðan presturinn var að predika. Einum piltinum gekk ekki sem best og byrjaði að bölva. Þá hafi Kölski komið inn og snúið hann úr hálsliði, þannig að blóð piltsins slettist á einn vegginn. Aðrir segja að Kölski hafi slegið hann svo fast utanundir að blóðið slettist á vegginn. Síðan hafi kölski tekið dauða piltinn með sér út um gluggann. Blóðflekkurinn en enn sjáanlegur og næst ekki með nokkru móti af. Gluggann er heldur ekki hægt að laga svo vel sé, því alltaf er eitthvað að honum.