Týr
Týr er einhentur guð hernaðar í norrænni goðafræði, en einnig goð himins og þings. Hann missti höndina þegar æsir plötuðu Fenrisúlfinn til að láta binda sig með galdrakeðjunni Gleipni og gera þannig Miðgarð að öruggari stað fyrir mannkynið. Týr er talinn vera sonur Óðins, en hann hefur einnig verið talinn sonur Hymis út frá því sem sagt er í Hymiskviðu. Hann var hugprúðastur og djarfastur allra ása og eru af honum margar sagnir. Stríðsmenn ristu galdrastaf hans á skefti sverða sinna og ákölluðu hann áður en þeir lögðu til atlögu í bardaga. Týsdagur var nefndur eftir ásnum.
Hvernig Týr missti höndina
[breyta | breyta frumkóða]Fenrisúlfur var eitt af ógurlegum afkvæmum Loka. Meðan hann var lítill hvolpur höfðu Æsir bara gaman af honum, en hann stækkaði hratt og varð að risavöxnum úlfi sem ógnaði öllum sem komu nálægt honum og Týr, djarfastur Ása, var sá eini sem þorði að fóðra hann. Því hafði einnig verið spáð að Fenrir myndi vinna Ásum óbætanlegt tjón svo þeir urðu að finna leið til að halda honum í skefjum. Eftir tvo misheppnaða fjötra fengu þeir dverga úrSvartálfaheim til að smíða fjötur sem nefndist Gleipnir er gæti fjötrað úlfinn endanlega. Fjöturinn leit sakleysislega út, hann líktist þunnum spotta en var í raun búinn göldrum. En Úlfinn grunaði að þetta væri enginn venjulegur spotti og neitaði að láta binda sig nema einhver Ásanna myndi leggja hönd sína í kjaft hans. Týr var sá eini sem þorði að leggja hönd sína að veði og galt fyrir hugrekki sitt með henni, Fenrisúlfurinn beit af honum höndina og heitir þar úlfliður hvar höndin hrökk af. Fenrisúlfur stendur síðan bundinn í Jötunheimum til Ragnaraka staðráðinn að ná hefndum á Ásunum sem sviku hann.
Ragnarök
[breyta | breyta frumkóða]Í Ragnarökum berst Týr við hundinn Garm sem var bundinn fyrir Gnipahelli í Hel. Týr er vanur að berjast við úlfkynjaða óvætti og berst hraustlega en Garmur er sterkari og gleypir Tý. Áður en Týr gefur upp öndina í kviði Garms stingur hann sverði sínu í hjarta hundsins innanfrá og verður þeim báðum að bana.