Miðgarðsormur
Miðgarðsormur eða Jörmungandur er ófrýnilegt skrímsli og tortímingarafl í norrænni goðafræði sem liggur í hafinu sem umkringir heiminn og bítur þar í sporð sér. Miðgarðsormurinn er einn af erkifjendum ása og er eitt afkvæma Loka sem hann gat við gýginni Angurboðu. Hin voru Hel og Fenrisúlfur. Nafnið Miðgarðsormur kemur hvorki fyrir í eddukvæðum né dróttkvæðum; hann er þar aðeins nefndur Jörmungandur, Ormur og Naður.
Um Miðgarðsorm eru til margar sögur og snúast þær margar hverjar um samskipti hans og þrumuguðsins Þórs en þeir eru erkifjendur. Fræg er sagan af bardaga þeirra í Ragnarökum. Þá drap Þór Miðgarðsorm en komst ekki lengra en níu skref frá hræi ófreskjunnar því henni hafði tekist að blása á hann banvænu eitri. Féll Þór þar dauður til jarðar.