Fara í innihald

Enschede

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Upplýsingar
Hérað: Overijssel
Flatarmál: 142,75 km²
Mannfjöldi: 158.629 (1. janúar 2014)
Þéttleiki byggðar: 1.111/km²
Vefsíða: www.enschede.nl
Lega
Staðsetning Eindhoven í Hollandi

Enschede er borg í Hollandi. Hún er stærsta borgin í héraðinu Overijssel með 158 þúsund íbúa (2014). Þrátt fyrir það er hún ekki höfuðborg héraðsins.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Enschede liggur nær austast í Hollandi, alveg upp við þýsku landamærin. Næstu borgir eru Hengelo til norðvesturs (10 km) og Gronau í Þýskalandi til austurs (15 km). Þrátt fyrir að vera langt inni í landi er Enschede hafnarborg en skipaskurðurinn Twentekanaal liggur að borginni.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Enschede merkir líklega við aðgreininguna (sbr. an der Scheide á þýsku). Meint er aðgreining hollensku héraðanna frá þýska ríkinu, en borgin stendur við landamærin að Þýskalandi.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Enschede á korti frá 1570
Mynd af sprengingunni í flugeldaverksmiðjunni árið 2000

Enschede myndaðist á miðöldum sem þýskt þorp við verslunarleiðina til Deventer. Héraðið allt var undir yfirráðum biskupanna frá Utrecht á síðmiðöldum. Það var Jan van Diest biskup sem veitti Enschede borgarréttindi 1325. Í kjölfarið voru reistir varnarmúrar umhverfis borgina. Þeir voru þó ekki gerðir úr grjóti, sem var of dýrt, heldur úr moldargörðum, viðargörðum og síkjum. Þeir voru því viðkvæmir gagnvart eldi, enda brann borgin 1517 í stórbruna. Eftir að Niðurlönd hlutu sjálfstæði frá Spáni, mynduðust ný landamæri að þýska ríkinu. Enschede varð því hollensk borg og gengu landamærin meðfram eystri borgarmörkum. Borgin brann á ný 1750 og aftur 1862. Seinni bruninn nær gjöreyðilagði borgina og fengu íbúarnir þá uppnefnið Brandstichters (brennuvargar). Þegar iðnvæðingin var í gangi á miðri 19. öld flutti Bretinn Thomas Ainsworth til Enschede og hóf að byggja upp vefnað þar í borg. Hráefnið var flutt inn frá Hollensku Vestur-Indíum (Indónesíu) og voru allt að 75 vefnaðarverksmiðjur starfandi á blómaskeiði borgarinnar. Vefnaðurinn hvarf með öllu þegar Indónesía hlaut sjálfstæði 1947. Í heimstyrjöldinni síðari var Enschede fyrsta hollenska borgin sem Þjóðverjar hertóku er þeir réðust inn í Holland 10. maí 1940. Andspyrnumenn hófust þegar handa við að bjarga gyðingum úr borginni. Af 1.300 gyðingum í Enschede í stríðsbyrjun tókst þeim að bjarga rúmlega 500 en það er hæsta hlutfall allra borga í Hollandi. Enschede varð oft fyrir loftárásum bandamanna, þar sem borgin lá við þýsku landamærin. Það var kanadísk hersveit sem frelsaði Enschede úr höndum nasista 1. apríl 1945. Í maí árið 2000 varð gífurleg sprenging í flugeldaverksmiðju í Enschede. 23 biðu bana og hverfið Roombeek gjöreyðilagðist.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er FC Twente Enschede sem varð hollenskur meistari 1926 og 2010, auk þess þrisvar bikarmeistari (1977, 2001 og 2011)

Maraþonhlaupið í Enschede er næstelsta slíka hlaup í Evrópu. Það hefur farið fram á tveggja ára fresti í borginni síðan 1947 en á hverju ári síðan 1992.

Skautahöllin í Enschede var opnuð árið 2008. Hún er næststærsta 400m skautahöll Hollands. Aðeins skautahöllin Thialf í Heerenveen er stærri.

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

  • Grote Kerk (Stóra kirkja) stendur við gamla markaðinn í miðborginni. Hún hefur staðið þar síðan á miðöldum, en var talsvert stækkuð 1480. Kirkjan brann í brunanum mikla 1862 og var endurnýjuð í kjölfarið. Hún er vinsæl fyrir tónleikahald og giftingar. Á suðurmúr kirkjunnar er sólarúr frá 1836.
  • Ríkissafnið Twente er listasafn fyrir eldri og nýrri listaverk, þó aðallega verk frá 18. öld. Þar eru til sýnis ýmis málverk, teikningar, grafík, bækur og annað. Byggingin sjálf var reist 1929-30 og er friðuð.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Enschede“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. ágúst 2011.