Ráðhúsið í Münster
Ráðhúsið í Münster í Þýskalandi er eitt fegursta hús þeirrar borgar. Húsið varð víðfrægt fyrir friðarsamninga 30 ára stríðsins 1645-48 en skipst var á undirrituðum plöggum í friðarsalnum í kjallara hússins, þar sem einnig fór fram hátíð af því tilefni.
Saga ráðhússins
[breyta | breyta frumkóða]Upphaf
[breyta | breyta frumkóða]Þegar endurskírendur brutust inn í ráðhúsið 1534 meðan siðaskiptin voru í gangi, brutu þeir ýmis listaverk og eyðilögðu alla skjalageymsluna. Þar af leiðandi er ekki nákvæmlega vitað hvenær ráðhúsið var reist. En eftir öðrum leiðum er ljóst að fyrirrennari stóð á reitnum um 1170. Núverandi bygging mun hafa verið reist skömmu eftir aldamótin 1200 og mun hafa verið í notkun á árinu 1250. Um 1395 var súlnagöngum bætt við á framhliðinni og snýr hún að aðalmarkaðstorgi borgarinnar. Samtímis fékk ráðhúsið hina fögru skreytingu þar yfir, á framhliðinni, sem minnir mjög á Hansahús í norðurþýskum borgum.
Siðaskiptin
[breyta | breyta frumkóða]Ráðhúsið var þyrnir í augum biskupsins, sem sjálfur taldi sig eiga að stjórna borginni. Með tilkomu ráðhússins var tekist á um ýmis stjórnunaratriði í gegnum aldirnar. Þegar siðaskiptin hófust kom þriðja aflið til sögunnar, endurskírendur frá Hollandi. Sú grein kristninnar var afar ströng. Til að byrja með var biskupinn hrakinn úr borginni. Í kosningum 1534 voru endurskírendur allsráðir í borgarráðinu. Þeir brutust ekki aðeins inn í kaþólskar kirkjur til að eyðileggja listaverk, heldur gerðu þeir hið sama í ráðhúsinu. Allt sem þeim ekki líkaði ekki við var eyðilagt, þar á meðal gjörvalla skjalageymsluna. Allar upplýsingar um borgina Münster týndist því og er saga borgarinnar fyrir þann tíma byggð á öðrum heimildum. Vera endurskírenda í Münster var stutt. Strax á næsta ári gerði biskup áhlaup á borgina og voru endurskírendur umvörpum drepnir. Borgarráð var aftur skipað almennum borgurum og friður komst á í ráðhúsinu.
Friðarsamningar í Vestfalíu
[breyta | breyta frumkóða]Þekktasti atburður í ráðhúsinu voru friðarsamningarnir sem bundu enda á 30 ára stríðið. Samningarnir hófust 1643 og stóðu í fimm ár, með hléum. Einnig var samið í ráðhúsinu í Osnabrück í Neðra-Saxlandi. Fyrsti samningafundurinn í ráðhúsinu hófst á því að fulltrúi keisara lýsti því yfir að borgin sé hlutlaus í stríðinu (sem enn stóð yfir) og fulltrúi biskups gerði slíkt hið sama. Þetta þýddi að borgin væri laus allra mála í stríðinu og væri hvorki með skyldur gagnvart keisara né biskupi. Næstu árin sátu fulltrúar stríðandi fylkinga í aðalsal ráðhússins, mest voru þar 150 manns. 1648 var samningunum lokið. 15. maí undirrituðu fulltrúar Spánar og Niðurlanda friðarsamning, en í honum afsöluðu Spánverjar öllu tilkalli til Niðurlanda. Þetta var jafnframt opinber viðurkenning á sjálfstæði Niðurlanda. Aðrir samningar voru undirritaðir í Osnabrück. Samningar þessir bundu enda á 30 ára stríðið. Eftir þetta var salurinn í ráðhúsinu kallaður Friðarsalur (Friedenssaal).
Eyðilegging og endurreisn
[breyta | breyta frumkóða]Þegar loftárásir hófust á þýskar borgir í heimstyrjöldinni síðari, var tekið til við að fjarlægja listmuni og innréttingar úr ráðhúsinu, til að varðveita það annars staðar. 28. október 1944 varð ráðhúsið fyrir sprengjum er bandamenn gerðu loftárás á borgina. Húsið brann út og stóðu útveggir eftir uppi. Þegar hin fagra framhlið hlaut ekki lengur stuðning af þakinu, féll það í heilu lagi fram á markaðstorgið. Á næstu árum var brakið fjarlægt og tapaðist því mikið af upprunalegu byggingarefninu. Það var ekki fyrr en 1948 að ákveðið var að endurreisa Friðarsalinn og hluta hússins, 300 árum eftir að friðarsamningarnir höfðu farið fram þar. En fjármunir voru ekki til. Því var biðlað til borgaranna og hófst söfnun fyrir ráðhúsinu. Árangurinn fór langt fram úr björtustu vonum. Borgarar lögðu til fjármuni, efni og vinnu. Einng streymdu fjármunir frá nærsveitum. 9. júlí 1950 var hafist handa við framkvæmdir og voru um 30 þúsund manns viðstaddir þann atburð, þar á meðal Heinrich Brüning, fyrrverandi ríkiskanslari og frægasta barn borgarinnar, sem hafði yfirumsjón með verkinu. Útveggir voru gerðir úr steypu og þaktir þunnum sandsteinsplötum. Aðeins hin fagra framhlið er gerð úr sandsteini, eins og í upphafi. Verkinu lauk 1958, á 310. ári friðarsamninganna. Í dag er ráðhúsið mestsótta bygging hjá ferðamönnum í borginni. Það er ekki notað lengur sem ráðhús, heldur fyrir sérstaka viðburði og athafnir.
Friðarsalurinn
[breyta | breyta frumkóða]Friðarsalurinn var nefndur svo eftir að friðarsamningarnir í Vestfalíu fóru að hluta fram í honum. Hann er 10m x 15m að stærð og er skreyttur á allar hliðar. Nær allt skrautið, sem er upprunnið á 16. öld, var tekið niður í heimstyrjöldinni síðari og varðveitt annars staðar. Því slapp það við skemmdir stríðsins. Það var sett í á ný við endurreisn hússins. Langhliðin veggjamegin (vesturhliðin) er skreytt viðarþiljum en fyrir ofan þær eru myndir af borgarstjórum fyrri tíma. Þar er einnig hurðin. Hún er skreytt með mynd af Jesú og postulunum. Langhliðin gluggamegin (austurhliðin) er með fjóra stóra glugga. Milli þeirra eru burðarsúlur, skreyttar með viðarþiljum með myndum af Móse og hinum sjö listagyðjum. Á norðurhliðinni er gríðarmikill viðarskápur með 22 skúffum, sem alskreyttur er með myndum og fígúrum. Fyrir miðju er Jesús á krossi. Þar fyrir framan er borgarstjórabekkurinn. Á suðurhliðinni er stór arinn. Upphaflegi arininn var smíðaður 1577 en hann var ekki fjarlægður úr húsinu í heimstyrjöldinni síðari og eyðilagðist því. Núverandi arinn kemur úr nálægu húsi en er svipaður að aldri og stærð. Arininn er í tveimur hlutum en báðir hlutarnir eru margskreyttir. Salur þessi var ekki bara notaður fyrir borgarráðsfundi, heldur einnig sem dómssalur. Á árunum 1643-48 var salurinn notaður í friðarsamningunum í Vestfalen. Auk þess var salurinn notaður sem þingstaður fyrir Vestfalíudeild prússneska þingsins 1826-1862.
Safn
[breyta | breyta frumkóða]Ráðhúsið er nokkurs konar safn í tengslum við sögu hússins og borgarinnar. Strax eftir að leiðtogar endurskírenda voru pyntaðir 1536 og drepnir á torginu fyrir framan ráðhúsið, voru pyntingartólin fest til sýnis á súlurnar í súlnagöngunum. 1848 voru þau sett inn í húsið sjálft en voru 1921 sett á almenningssafn. En í húsinu eru enn nokkur böðulssverð til sýnis, það elsta frá 1550. Stærsta vopn hússins er 2 ½ m langt sverð frá upphafi 17. aldar. Tilgangur sverðsins er óljós í dag. Nokkrir gamlir fánar eru í húsinu. Þar á meðal friðarfáninn frá 1648 sem blakti í friðarsamningum 30 ára stríðsins. Af öðrum hlutum má nefna myntbikarinn frá 17. öld, sem er drykkjarbikar alsettur myntum. Gullni haninn frá 1600 er holur að innan og var fylltur með víni. Hann er enn notaður í dag í opinberum móttökum. Í húsinu er einnig steinn úr upprunalegu Frúarkirkjunni í Dresden.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Historisches Rathaus Münster“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.