Byggðasafn Reykjanesbæjar
![]() | Deilt er um hlutleysi þessarar greinar. |
---|
Byggðasafn Reykjanesbæjar hlaut viðurkenningu Safnaráðs árið 2014 en þá voru liðin 70 ár frá því að Ungmennafélag Keflavíkur stofnaði Byggðasafn Keflavíkur þann 17. júní 1944. Í nóvember 1978 var Byggðasafn Suðurnesja stofnað í samstarfi tveggja sveitarfélaga, Keflavíkur og Njarðvíkur. Nafni safnsins var síðan breytt í Byggðasafn Reykjanesbæjar eftir að sveitarfélögin sameinuðust. Safnkosturinn endurspeglar sögu og menningu svæðisins. Aðalsýningar safnsins eru í Duus Safnahúsunum þar sem sýnd eru brot úr sögu svæðisins frá landnámi fram á miðja síðustu öld. Þar er bæði grunnsýning og sérsýningar um afmarkaða þætti úr sögu bæjarins. Safnið rekur Stekkjarkot sem er endurgert torfhús á Njarðvíkurfitjum, kotið er opið eftir samkomulagi. Í Víkingaheimum er safnið með sýningu um elstu sögu svæðisins frá landnámstíð. Með áherslu á fornleifarannsóknir í Höfnum sem safnið stóð fyrir. Í gamla hluta Innri-Njarðvíkur hefur samnefnt hús verið gert að safni um heimili síðustu ábúendanna Jórunnar Jónsdóttur og Helga Ásbjörnssonar. Húsið er opið eftir samkomulagi. Tekið er á móti skólahópum í öll hús safnsins.