Bátasafn Gríms Karlssonar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Bátasafn Gríms Karlssonar var opnað í Duus Safnahúsum í Reykjanesbæ á lokadaginn 11. maí árið 2002. Á sýningunni eru rúmlega 100 líkön, flest af skipum sem hafa verið smíðuð eða keypt til landsins á árunum eftir seinna stríð og fram til 1960. Þar má einnig sjá hluti og myndir sem tengjast sjávarútvegssögu þjóðarinnar og eru í eigu Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Allt frá fyrstu öldum byggðar hafa Íslendingar róið til fiskjar, lengst af á opnum bátum. Með vélvæðingu flotans gerbreyttust aðstæður og stórstígar breytingar urðu á öllu samfélaginu. Í dag er sjávarútvegur ein af meginstoðum íslensks þjóðfélags.

Um áratugaskeið sótti Grímur Karlsson sjóinn en sjórinn og sjómennskan hafa átt hug hans allan. Skipið er annað heimili sjómanna og lífið um borð sérstætt, hvort sem það er gott eða slæmt, auðvelt eða erfitt. Margvísleg atvik henda og til verða sögur, misjafnlega sannar, sem berast frá skipi til skips og sumar ná aldrei landi.

Hvert tímabil á sér andrúmsloft, málefni, sögur, gleði og sorgir. Með smíði líkana af skipunum reynir Grímur að halda til haga þessum ríka sjóði sem svo auðveldlega getur horfið.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi Íslandsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.