Fara í innihald

Djibútí

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jabuuti)
Lýðveldið Djibútí
جمهورية جيبوتي
République de Djibouti
Jamhuuriyadda Jabuuti
Gabuutih Ummuuno
Fáni Djibútí Skjaldarmerki Djibútí
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
اتحاد، مساواة، سلام (arabíska)
Eining, jafnrétti, friður
Þjóðsöngur:
Djibouti
Staðsetning Djibútí
Höfuðborg Djibútí
Opinbert tungumál arabíska, franska
Stjórnarfar Forsetaræði

Forseti Ismail Omar Guelleh
Forsætisráðherra Abdoulkader Kamil Mohamed
Sjálfstæði
 • frá Frakklandi 27. júní, 1977 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
146. sæti
23.200 km²
0,09
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
156. sæti
921.804
37,2/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 3,974 millj. dala (165. sæti)
 • Á mann 3.788 dalir (145. sæti)
VÞL (2019) 0.524 (166. sæti)
Gjaldmiðill djíbútískur franki
Tímabelti UTC+3
Þjóðarlén .dj
Landsnúmer +253

Djibútí (arabíska: : جيبوتي, Jībūtī ; sómalska: Jabuuti; afarska: Yibuuti) er land í Austur-Afríku á því svæði sem nefnist horn Afríku. Það á landamæri að Erítreu í norðri, Eþíópíu í vestri og suðri, og Sómalíu í suðaustri. Auk þess á Djibútí strandlengju við Rauðahafið og Adenflóa. Einungis 20 km breitt sund skilur á milli Djibútí og Jemen á Arabíuskaganum. Landið er 23.200 ferkílómetrar að stærð. Flestir íbúar eru Sómalar eða Afarar en Sómalar eru um 60% íbúa.

Til forna var landið líklega hluti af Púnt, ásamt Sómalíu. Hafnarborgin Zeila sem nú er í Sómalíu var á miðöldum höfuðstaður soldánsdæmanna Adal og Ifat. Seint á 19. öld var franska nýlendan Franska Sómalíland stofnuð í kjölfar samninga sem Sómalar og Afarar gerðu við Frakka. Með nýrri járnbraut frá Djibútí til Dire Dawa í Eþíópíu (og síðar Addis Ababa) varð Djibútí helsta hafnarborg svæðisins í stað Zeila. Landsvæðið við borgina var gert að Frönsku umdæmi Afara og Issa 1967 eftir að Afarar og Evrópubúar í landinu höfðu flestir kosið að vera áfram hluti af Frakklandi fremur en sameinast Sómalíu, í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem Frakkar beittu kosningasvikum til að koma í veg fyrir að Sómalar fengju að kjósa. Landið varð sjálfstætt sem Djibútí áratug síðar. Snemma á 10. áratug 20. aldar hófst borgarastyrjöld sem lauk árið 2000 með samningum milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Djibútí er fjölmenningarríki með tæplega 900.000 íbúa. Það er fámennasta ríkið á meginlandi Afríku. Opinber mál landsins eru franska og arabíska. Um 94% íbúa aðhyllast íslam sem eru opinber trúarbrögð landsins og hafa verið þar ríkjandi í yfir 1000 ár. Sómalar (Issa-ættbálkurinn) og Afarar eru helstu þjóðarbrot landsins. Bæði sómalska og afarska eru afróasísk mál.

Djibútí er staðsett við helstu siglingaleið heims milli Indlandshafs og Rauðahafs. Borgin er mikilvæg eldsneytis- og umskipunarhöfn og helsta höfnin sem þjónar Eþíópíu. Við borgina eru nokkur erlend ríki með herstöðvar. Þeirra á meðal er bandaríska herstöðin Camp Lemonnier. Höfuðstöðvar þróunarstofnunarinnar Intergovernmental Authority on Development eru í borginni.

Opinbert nafn ríkisins er „Lýðveldið Djibútí“. Heiti landsins er skrifað Yibuuti á afarísku og Jabuuti á sómölsku.

Landið dregur nafn sitt af höfuðborginni, Djibútí. Uppruni nafnsins er umdeildur og margar ólíkar upprunasagnir til. Samkvæmt einni kenningu er það dregið af afaríska orðinu gabouti sem merkir „diskur“ og gæti vísað til landslagsins.[1] Samkvæmt annarri kenningu er það dregið af gabood sem merkir „hálendi“.[2] Nafnið gæti líka verið dregið af heiti egypska guðsins Þoþ (egypska: Djehuti) og merkt þá „land Þoþs“.[3][4]

Frá 1862 til 1894 var héraðið norðan við Tadjoura-flóa kallað Obock. Undir franskri stjórn, frá 1883 til 1967, var það þekkt sem Franska Sómalíland (franska: Côte française des Somalis), og frá 1967 til 1977 sem Franskt yfirráðasvæði Afara og Issa (franska: Territoire français des Afars et des Issas).

Djibútí fékk sjálfstæði frá Frökkum 27. júní árið 1977. Djibútí er arftaki Frönsku-Sómalíu, sem var stofnuð í fyrri hluta 20. aldar vegna áhuga Frakka á Horni Afríku.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Djibútí er við Horn Afríku við Adenflóa og Bab-el-Mandeb, við suðurenda Rauðahafs. Landið er milli 11. og 14. breiddargráðu norður og 41. og 44. lengdargráðu austur, við norðurenda Sigdalsins mikla. Þar mætast Afríkuflekinn, Sómalíuflekinn og Arabíuflekinn.[5] Jarðhræringar á þessum flekamótum hafa skapað lægsta punkt Afríku, Assalvatn, sem líka er annar lægsti punkturinn sem fyrirfinnst á þurru landi (á eftir dældinni við landamæri Jórdaníu og Ísraels).

Strönd landsins er 314 km að lengd. Landslag er að mestu hásléttur og fjalllendi. Landið er 23.200 km2 að stærð með 575 km landamæri að Eþíópíu, Erítreu og Sómalílandi.[6] Djibútí er syðsta landið á Arabíuflekanum.[7]

Í Djibútí eru átta fjallgarðar með yfir 1.000 metra háum fjöllum.[8] Mousa Ali-fjallgarðurinn er hæsti fjallgarður landsins og þar er hæsti tindur landsins við landamærin að Eþíópíu og Erítreu, 2.028 metrar á hæð.[8] Eyðimörkin Grand Bara þekur suðurhluta landins í héruðunum Arta, Ali Sabieh og Dikhil. Megnið af henni er tiltölulega láglent, undir 500 metrum.

Ystu punktar landsins eru Ras Doumera og staðurinn þar sem landamærin að Erítreu mæta Rauðhafinu í norðri; hluti Rauðahafsstrandarinnnar norðan við Ras Bir í austri; landamærin að Eþíópíu vestan við As Ela í suðri; og landamærin að Eþíópíu austan við eþíópíska bæinn Afambo í vestri.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Kort sem sýnir héruð Djibútí.

Í Djibútí eru sex héruðhöfuðborginni meðtaldri. Héruðin skiptast í tuttugu umdæmi.

Héruð Djibútí
Hérað Stærð (km2) Íbúar
manntal 2009
Íbúar
áætlað 2018
Höfuðstaður
Ali Sabieh 2.200 86.949 96.500 Ali Sabieh
Arta 1.800 42.380 72.200 Arta
Dikhil 7.200 88.948 105.300 Dikhil
Djibouti 200 475.322 603.900 Djibútí
Obock 4.700 37.856 50.100 Obock
Tadjourah 7.100 86.704 121.000 Tadjoura

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Everett-Heath, John (22. maí 2014). „Djibouti“. The Concise Dictionary of World Place-Names (3 ed.). ISBN 978-0-19-175139-4. Afrit af uppruna á 6. mars 2019. Sótt 5. mars 2019.
  2. Boujrada, Zineb (2. mars 2018). „How Djibouti Got Its Unique Name“. The Culture Trip. Afrit af uppruna á 6. mars 2019. Sótt 4. mars 2019.
  3. „Countries Of The World That Are Named After Legendary Figures“. Worldatlas. 7. ágúst 2018.
  4. N.Y.), Metropolitan Museum of Art (New York (2008). Beyond Babylon: Art, Trade, and Diplomacy in the Second Millennium B.C. (enska). Metropolitan Museum of Art. bls. 361. ISBN 978-1-58839-295-4.
  5. Manighetti, Isabelle; Tapponnier, Paul; Courtillot, Vincent; Gruszow, Sylvie; Gillot, Pierre-Yves (1997). „Propagation of rifting along the Arabia‐Somalia plate boundary: The gulfs of Aden and Tadjoura“. Journal of Geophysical Research: Solid Earth. 102 (B2): 2681–2710. Bibcode:1997JGR...102.2681M. doi:10.1029/96JB01185.
  6. „Djibouti“. The World Factbook. CIA. 5. febrúar 2013. Sótt 26. febrúar 2013.
  7. Geothermal Resources Council (1985). 1985 International Symposium on Geothermal Energy, Volume 9, Part 1. bls. 175.
  8. 8,0 8,1 Highest Mountains in Djibouti Geymt 16 október 2013 í Wayback Machine. geonames.org
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.