Fara í innihald

Icesave

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Icesave mótmælin)
Fyrra myndmerki Icesave.

Icesave var vörumerki innlánsreikninga á netinu sem Landsbanki Íslands bauð í Bretlandi og í Hollandi. Þessi þjónusta stóð viðskiptavinum í þessum löndum til boða þar til í október 2008, þegar íslenska bankakerfið hrundi í kjölfar efnahagslegrar lægðar sem staðið hafði frá byrjun árs. Alls voru viðskiptavinir þessarar þjónustu um 350 þúsund talsins, nokkru fleiri en íslenska þjóðin. Við fall Landsbankans urðu reikningarnir óaðgengilegir en stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi tóku þá ákvörðun að greiða innstæðueigendum upp að þeim mörkum sem þau höfðu áður ábyrgst vegna þarlendra banka.

Í kjölfarið þróaðist milliríkjadeila á milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar um það hvort og þá að hvaða marki Ísland bæri ábyrgð á reikningunum og því einnig ábyrgð á endurgreiðslu til Bretlands og Hollands. Þrjár tilraunir voru gerðar til þess að semja um málið. Í fyrsta skiptið samþykkti Alþingi endurgreiðslusamning með fyrirvörum sem Bretar og Hollendingar felldu sig ekki við. Í annað skiptið samþykkti þingið endurgreiðslusamning sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði staðfestingar og vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem samningurinn var felldur með miklum meirihluta. Þriðji samningurinn um Icesave fór áþekka leið og var felldur i þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011.

Þegar ljóst var að samningaleiðin var fullreynd hóf eftirlitsstofnun EFTA undirbúning málssóknar fyrir EFTA-dómstólnum vegna meintra brota Íslands á skyldum sínum samkvæmt samningi um evrópska efnahagssvæðið. Dómur féll 28. janúar 2013 með því að Ísland var sýknað af öllum liðum málsins.

Upphaf Icesave

[breyta | breyta frumkóða]

Fréttablaðið sagði frá því þann 11. október 2006 [1] að Landsbankinn hefði deginum áður kynnt, það sem þeir kölluðu, nýja innlánsvöru í Bretlandi. Um væri að ræða sérsniðna sparnaðarleið ætlaða breskum almenningi sem eingöngu væri aðgengileg á netinu. Lágmarksinnistæða á Icesave-reikningi var 250 pund og hámarksinnistæða ein miljón punda. Sigurjón Þ. Árnason, þáverandi bankastjóri Landsbankans, sagði við þetta tækifæri að þetta væri liður í því markmiði bankans að breyta samsetningu heildarfjármögnunar bankans og auka vægi innlána. Hann bætti svo við:

Það sem er sérstakt við Icesave er að við lofum föstum lágmarksviðmiðunum allt til ársins 2009 miðað við ákveðna grunnvexti sem breski seðlabankinn ákvarðar og verður þar að auki í hærri enda þeirra vaxta sem er verið að bjóða hér.[1]
 
— Sigurjón Þ. Árnason

Landsbankinn hafði þá verið á breska innlánsmarkaðnum í þrjú ár og heildarinnlán þar námu um 200 milljörðum króna, bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum. Í ársskýrslu Landsbankans fyrir árið 2007 kom fram að sökum undirmálslánakreppunnar í Bandaríkjunum og þeirrar lausafjárþurrðar sem henni fylgdi hefði Landsbankinn leitast við „að styrkja verulega fjármögnunargrunn sinn og draga mjög úr vægi markaðsfjármögnunar en leggja þeim mun meiri áherslu á almenn innlán“.[2] Þar kom einnig fram að ákveðið hefði verið að hefja sem andsvar við áhyggjum markaðsgreinenda vegna vandamála íslensks efnahags árið 2006. Í lok árs 2007 höfðu 128 þúsund Icesave-reikningar verið stofnaðir.[3]

Stjórnendur

[breyta | breyta frumkóða]

Lykilstjórnendur í Landsbankanum á því tímabili sem Icesave varð að veruleika voru þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson. Í bankaráði sátu Björgólfur Guðmundsson, Kjartan Gunnarsson, Þór Kristjánsson, Þorgeir Baldursson, forstjóri Odda og einn af eigendum Þórsmarkar ehf (sem er eigandi Árvakurs sem gefur út Morgunblaðið) [4] og Guðbjörg Matthíasdóttir, afhafnakona í Vestmannaeyjum. Svafa Grönfeldt kom í stað Guðbjargar í bankaráðinu er hún hætti en Svafa átti ekki þátt í stofnun Icesave. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, hélt því fram í Fréttablaðinu þann 21. ágúst 2009 að ríkið ætti að láta stjórnendur sæta ábyrgð og krefja þá til að borga upp í Icesave skuldirnar úr eigin vasa. [5]

Í byrjun júli 2008 spáði Bert Heemskerk, bankastjóri Rabobank, eins stærsta banka í Hollandi, því að Landsbankinn færi á hausinn og að þeir Hollendingar sem lagt höfðu peninga sína inn Icesave-reikning bankans myndu líklega aldrei sjá þá aftur. Þessi orð lét hann falla í umræðuþætti í ríkissjónvarpi Hollands. Hann líkti Landsbankanum við tyrkneska banka, sem njóta ekki trausts í Hollandi. Þann 8. júlí sagðist Sigurjón Þ. Árnason, þáverandi bankastjóri Landsbankans, ekki skilja hvað Heemskerk gengi til með orðum sínum. Pláss væri fyrir alla á markaðnum. Hann teldi þó að Heemskerk væri að tala um litlu bankana sem hefðu að undanförnu komið sterkir inn á innlánamarkaðinn í Hollandi og ógnuðu ef til vill stöðu Rabobank. Heemskerk var harðlega gagnrýndur fyrir orð sín heima fyrir og sögðu sérfræðingar að hann væri hræddur við þá samkeppni sem framundan væri á markaði. [6]

Á fundi kröfuhafa Landsbanka Íslands 28. febrúar 2009 kom fram að þann 14. nóvember 2008 hafi andvirði innlána hjá útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi numið samtals 1.330 milljörðum króna sem er um 90% vergar landsframleiðslu Íslands.[7]

Samningar um Icesave

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 19. október 2009 skrifaði ríkisstjórn Íslands undir samning um greiðslur vegna tjóns af völdum Icesave ásamt fulltrúum Breta og Hollendinga. Margir þingmenn voru harðorðir við umræður og atkvæðagreiðsluna í þinginu og olli málið miklum deilum.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna var samþykkt í atkvæðagreiðslu á Alþingi þann 30. desember með 33 atkvæðum gegn 30. Atkvæðagreiðslan tók þrjár klukkustundir. Þann 5. janúar 2010 neitaði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, að skrifa undir lögin.[8]

Í framhaldi af neitun forseta á að skrifa upp á lögin var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave þann 6. mars 2010 þar sem kosið var um eftirfarandi spurningu:

"Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar.

Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?"

Niðurstaða talningar yfirkjörstjórna og umdæmiskjörstjórna á landinu öllu var eftirfarandi:

2.599 svöruðu: „Já, þau eiga að halda gildi.“ 134.397 svöruðu: „Nei, þau eiga að falla úr gildi.“ Ógild atkvæði voru 7.235. Þar af voru 6.744 seðlar auðir en 491 atkvæði var ógilt af öðrum ástæðum."

Kjörsókn í kosningunum var 62,7% Nei sögðu 93,2%, já sögðu 1,8%, Auðir og ógildir: 5% Nei sem hlutfall af öllum atkvæðabærum mönnum: 58,4%

Fyrri þjóðaratkvæðagreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Út frá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslan var stofnuð samninganefnd skipuð með Lee Buchheit í fararbroddi. Nefndin var skipuð af öllum flokkum alþingis. Aðrir nefndarmenn en Bucheit eru: Guðmundur Árnason, Einar Gunnarsson og Jóhannes Karl Sveinsson ráðuneytistjórar, Lárus Blöndal lögmaður og Don Johnston til ráðgjafar.

Í kjölfarið sendu Íslendingar frá sér tilboð um samning, með kúluláni á breytilegum vöxtum frá 2012 til 2016. Samningsnefndin tók fram í tilboðinu, að þeir myndu ekki fallast á samning þar sem Bretar og Hollendingar myndu hagnast á samningunum.[9] Bretar og Hollendingar svöruðu með móttilboði, þar sem væru 2 vaxtalaus ár, 2009-2010, á fljótandi vöxtum. Löndin tvö sögðu að þessi samningur væri þeirra besta boð.[10]

Eftir nokkra upplýsingafundi á milli ríkjanna kom álit EFTA. EFTA var gagnrýnið á viðbrögð Íslands. Í álitinu segir að íslenska ríkið ætti að sjá til þess að lögum um TIF væri framfylgt, vegna þess að Icesave málið væri óleyst. Ekki stendur þó beint í áliti EFTA að íslenska ríkið ætti að borga Icesave. Alþingi svaraði ekki áliti EFTA og fór málið því til EFTA dómstólsinns.[11]

Allar samningsumleitanir um Icesave gætu þó haft enga meiningu. Landsbankinn er að höfða mál gegn þeirri kröfu að heildsölu- og peningamarkaðslán njóti forgangs í útgreiðslu úr þrotabúi gamla Landsbankans. Málið er fyrir dómstólum og vilji svo til að málið verði dæmt Landsbankanum í hag, þá fellur ekkert á íslenska ríkið af skuldbindingum Icesave miðað við núverandi mati á endurheimtuhlutfalli eignasafns bankans.[12]

9. desember 2010 komst samninganefnd Íslands, Hollands og Bretlands að niðurstöðu. Núverandi samningur er endurgreiðslusamningur. Samningurinn er í breskum pundum og evrum. Samningurinn er til ársins 2024 en er framlengjanlegur til ársins 2042. Framlengingin virkar þannig að ef heildargreiðslur fara yfir 40 milljarða, hækkar lánstíminn um eitt ár við hverja 10 milljarða aukalega. Vextir af láninu frá október 2009 til 2016 eru 3,3% til Bretlands og 3% til Hollands. Eftir þann tíma er miðað við CIRR vexti, sem eru reiknaðir mánaðarlega. Núverandi CIRR vextir eru 2,27% til Bretlands og 2,32% til Hollands.[13] Í samningnum er jafnframt að finna 5% þak, miðað við tekjur ríkisins, gjaldfellingarákvæði, vanefndarúrræði, fjárhæðaviðmið og greiðslufresti. Komi upp ágreiningur um samninginn fer ágreiningurinn fyrir Alþjóðagerðardómstólinn í Haag.[14]

Lög um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninginn voru samþykkt á Alþingi 16. febrúar 2011. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands neitaði að staðfesta lögin með undirskrift sinni 20. febrúar og vísaði þeim til þjóðaratkvæðis.

Seinni þjóðaratkvæðigreiðslan

[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga nr. 13/2011 var haldin 9. apríl 2011. Lögunum var hafnað með um 60% á móti 40% (nákvæmlega 59,7% með og 40,1% á móti), sem var meira en skoðanakannanir höfðu gefið til kynna.

Mótmæli gegn Icesave-samningunum

[breyta | breyta frumkóða]

Icesave-mótmælin 2009-2010 voru vegna óánægju margra íslendinga með Icesave-samningana. Hópurinn InDefence var stofnaður til að mótmæla kyrrsetningu eigna Landsbankans í Bretlandi með beitingu hryðjuverkalaga 8. október 2008. InDefence vakti fyrst athygli á þeim gríðarlegu skuldbindingum[15], sem þessir samningar myndu hafa í för með sér fyrir íslenska þjóð. Mörgum ofbauð ranglætið og upp spruttu hópar sem boðuðu mótmælaaðgerðir.

Fyrstu mótmælin

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu mótmæli vegna samninganna voru skipulögð 8. júní kl. 14:50, á sama tíma og Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra flutti skýrslu um samningana.[16] Skipuleggjendur sögðu að mótmælin myndu halda áfram þar til Alþingi hefði tekið samningsdrögin fyrir. Hátt í þúsund manns[17] söfnuðust saman fyrir framan Alþingishúsið. Þrátt fyrir að mótmælin hefðu að mestu farið friðsamlega fram þá voru 5 handteknir fyrir að óhlýðnast lögreglu. Margir börðu með pottum og pönnum sem sköpuðu mikil læti. Mörg skilti voru á lofti en á flestum þeirra stóð „Iceslave“.[18] Sama dag ruddist hópur fólks inn í Fríkirkjuveg 11 í mótmælaskyni og hrópaði: „Húsið er okkar“ og dró gulan fána að húni. Daginn eftir mættu um hundrað manns á Austurvöll til að mótmæla.

Haldið var áfram mótmælum nokkrum dögum seinna en þann 11. júní kom fólk saman til að mótmæla Icesave-samningunum á sama tíma og Hagsmunasamtök heimilanna boðuðu mótmæli vegna uppgjörs lána bankanna. Í framhaldi var boðað á fleiri mótmælafundi og voru næstu mótmæli áætluð 13. júní á Austurvelli. 29.000 manns höfðu boðað komu sína á Facebook, en samkvæmt lögreglu og blaðamönnum sem voru í miðbænum höfðu einungis örfáir einstaklingar safnast saman til að mótmæla.[19][20] Mótmælin héldu áfram þó þau væru almennt frekar fámenn, svo sem þann 15. júní en þá mynduðu mótmælendur hávaða með því að berja í potta og pönnur.

Þann 16. júní höfðu 1.000 manns boðað komu sína á Austurvöll. Einstaklingar, eins og Frosti Sigurjónsson[21] nýttu sér einnig fjölmiðla til þess að vekja almenning til meðvitundar um hvað samningar þessir myndu þýða með slagorðum eins og „Milljón í verðlaun...“[22]

Mótmælt á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní

[breyta | breyta frumkóða]

Hópur fólks kom saman til að mótmæla við ræðu forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, á Austurvelli. Mótmælendur mættu með skilti og hrópuðu að forsætisráðherra þegar hún var að fjalla um Icesave-samningana. Lögreglan hafði undirbúið sig fyrir mótmæli og var Austurvöllur því vel mannaður af lögregluliði sem stóð allt í kringum aðalsvæði hátíðarhaldanna. Allt fór þó vel fram að sögn lögreglu sem jafnframt sagði að mótmælendur hefðu verið á bilinu 10-15.[23][24]

Hagsmunasamtök heimilanna boðuðu friðsamleg mótmæli á þjóðhátíðardaginn. Almenningur var hvattur til þess að setjast niður hvar sem viðkomandi væri staðsettur kl. 15:00, hvort heldur væri á gangstéttina, grasið eða á götuna. Fjölskyldur voru hvattar til þess að setjast niður saman með börnunum sínum og haldast í hendur. Aðgerðirnar áttu að minna á að þúsundir íslenskra fjölskyldna myndu missa heimili sín vegna Icesave-skulda fjárglæpamanna sem hvíldu á íslenskum almenningi.

Mótmælt á Akureyri og Austurvelli

[breyta | breyta frumkóða]

Laugardaginn 20. júní var boðað til mótmæla á Akureyri þar sem þess var krafist að dómsvöld myndu taka á „hvítflibbaglæpamönnum“.[25] Á Austurvelli voru mótmæli sama dag á vegum Radda fólksins. Um 400 manns tóku þátt í þeim mótmælum og var þess krafist að Icesave-samningnum yrði hafnað. Þetta var 30. fundur samtakanna.[26] [27]. Ræðumenn voru Andrea Ólafsdóttir [28] og Jóhannes Þór Skúlason.[29]

Viku síðar, eða 27. júní, var áætlað að um 300 manns hafi komið saman á Austurvelli til að mótmæla Icesave-samningunum. Mótmælin voru skipulögð af Röddum fólksins. Mótmælendur létu vel í sér heyra og margir mættu með flautur, trommur og gong.[30]. Ræðumenn á mótmælunum voru Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur, Guðmundur Magnússon varaformaður Aðgerðahóps háttvirtra öryrkja, og Þórður B. Sigurðsson formaður Hagsmunasamtaka Heimilanna.

Börnin munu borga

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 23. júlí var aftur mótmælt fyrir utan Alþingishúsið vegna Icesave-samninganna og jafnframt boðuð mótmæli fyrir framan sýsluskrifstofur landsins þann 24. júní. Mótmælin voru boðuð af hópi sem kallapi sig „Börn Íslands“ undir slagorðinu: „Ekki samþykkja Icesave samningana í núverandi mynd.“[31] Þann 10. ágúst var svo efnt til mótmæla fyrir utan þinghúsið undir yfirskriftinni „Börnin munu borga“.

Ein fjölmennustu mótmæli sem haldin höfðu verið Íslandi voru haldin þennan fimmtudaginn 13. ágúst. Mótmælendur komu saman á Austurvelli þar sem boðað var til samstöðufundar vegna Icesave-samkomulagsins.[32] Um þrjú þúsund manns komu þar saman og mótmæltu þáverandi Icesave samkomulagi, þar á meðal Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra.[33]

Icesave-samkomulaginu var líka mótmælt við Alþingishúsið á Austurvelli við upphaf þingfundar í október 2009.[34]

Mótmælt við Stjórnarráðið

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 19. október 2009 skrifaði ríkisstjórn Íslands[35] undir samning um greiðslur vegna tjóns af völdum Icesave ásamt fulltrúum Breta og Hollendinga. Hópur fólks stóð fyrir mótmælum þann 21. nóvember fyrir utan Stjórnarráð Íslands[36] og síðan voru mótmælin flutt yfir á Austurvöll. Þar héldu mótmælin áfram þann daginn. Síðan voru fyrirhuguð mótmæli aftur á fullveldisdaginn 1. desember. Rauður vettvangur boðaði til mótmæla þann 30. desember 2009 á Austurvelli.[37] og einnig fyrir utan Bessastaði 31. desember[38]

Mótmælendur komu saman á Austurvelli 19. nóvember til að mótmæla Icesave-samkomulaginu og voru önnur mótmæli jafnframt boðið þann 1. desember[39]

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna var samþykkt í atkvæðagreiðslu á Alþingi þann 30. desember með 33 atkvæðum gegn 30. Þrátt fyrir það fór það svo að einungis á fjórða tug mótmælenda mættu fyrir utan Bessastaði á gamlársdag. Óljóst var hvort forsetinn myndi staðfesta lögin strax á ríkisráðsfundinum 2009 [40] eða hvort hann tæki sér tíma til umhugsunar. Forsvarsmenn InDefence-hópsins óskuðu eftir fundi með forsetanum[41] og var sagt að þeir yrðu boðaðir á slíkan fund. 46 þúsund manns höfðu þá skrifað undir áskorun þess efnis að Ólafur Ragnar Grímsson staðfesti ekki lögin.

Milli 70 og 80 manns komu saman á Austurvelli 30. desember til að mótmæla Icesave-samkomulaginu. Ekki kom til átaka, en mótmælin stóðu yfir fram á kvöld. Bílflautur voru stanslaust þeyttar og reglulega var skotið upp flugeldum. Jafnframt var kveiktur eldur sem lögreglan slökkti í. Lögreglan viðhélt lágmarksviðbúnaði vegna mótmælanna.[42]

Mótmælt við Bessastaði

[breyta | breyta frumkóða]

Næst kom svo til mótmæla á Bessastöðum en þar mættu hátt í þúsund manns 2. janúar til þess að biðja Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands um að synja nýsamþykktum Icesave-lögum á Alþingi undirskriftar. Kveikt var í blysum en annars voru mótmælin friðsamleg.[43] Á fundi með forseta afhentu fulltrúar InDefence lista með 56.000 undirskriftum gegn samþykkt Icesave-laganna.[44]

Alþingi götunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Boðað var til mótmælaaðgerða þann 6. mars, daginn sem þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin. Mótmælendur gengu niður Laugaveginn og enduðu fyrir framan Alþingishúsið. Þar var útifundur þar sem krafan var að þjóðin myndi hafna lögunum. Um eitt þúsund manns söfnuðust saman á Austurvelli þar sem „Alþingi götunnar“ var sett. Fjöldi samtaka stóðu að fundinum á Austurvelli, til dæmis Hagsmunasamtök heimilanna, Nýtt Ísland og Siðbót. Þar voru settar fram yfirlýsingar um að „Alþingi götunnar“ myndi berjast fyrir leiðréttingu lána, afnámi verðtryggingar og fleiri málum. „Alþingi götunnar“ lýsti líka yfir andstöðu við samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þarna mátti sjá skilti þar sem Icesave-samningum var mótmælt. 

Mótmælin fóru ekki bara fram á Íslandi, heldur tóku félagar í Attac Norge sér stöðu fyrir framan sendiráð Íslands í Osló í hádeginu sama dag, til að styðja þá Íslendinga sem hugðust kjósa nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þeir héldu á borða sem  á stóð: „Kjósum gegn skuldaþrælkun! AGS frá Íslandi!“

Dómur EFTA-dómsstólsins þann 28. janúar 2013

[breyta | breyta frumkóða]

EFTA-dómstóllinn sýknaði þann 28. janúar 2013 Íslenska ríkið af öllum kröfum ESA í Icesave málinu. [45] Hægt er að nálgast dóm EFTA dómstólin hér Geymt 28 febrúar 2013 í Wayback Machine, og yfirlýsingu frá EFTA um málið á íslensku hér[óvirkur tengill].[46]

Lokagreiðslur Icesave

[breyta | breyta frumkóða]

Slita­stjórn þrotabús gamla Lands­bank­ans (LBI) lauk uppgjöri við for­gangskröfuhafa með greiðslu 11. jan­úar 2016. Slita­stjórn LBI greiddi for­gangskröfur í búið með sex greiðslum frá 2. des­em­ber 2011 til 11. jan­úar 2016. Greiðsl­urnar voru sem hér seg­ir:[47]

  • 2. des­em­ber 2011       29,616% for­gangskrafna        409,9 millj­arðar króna
  • 24. maí 2012               12,981% for­gangskrafna        172,3 millj­arða króna
  • 5. október 2012            8,029% for­gangskrafna        80,0 millj­arða króna
  • 12. sept­em­ber 2013      5,062% for­gangskrafna        67,2 millj­arðar króna
  • 14. des­em­ber 2014     30,310% for­gangskrafna        402,7 millj­arða króna
  • 11. jan­úar 2016           16,002% for­gangskrafna        210,6 millj­arðar króna

Íslenski inni­stæðu­trygg­inga­sjóð­ur­inn (TIFF) greiddi Bretum um 68 milljón punda til viðbótar við greiðslur slita­bús­ins. Að greiðsl­u­m frá TIFF meðtöldum urð­u greiðslur til Breta vegna tryggðu Ices­ave-reikn­ing­anna 131 milljónum punda (24,7 milljörðum íslenskra króna) hærri en höfuðstóll inni­stæðna sem þeir yfirtóku.

Sjóðurinn greiddi líka Hol­lend­ingum um 46 milljón evra til viðbótar við greiðslur slita­bús­ins.  Að greiðslum frá TIFF meðtöldum urðu greiðslur til­ Hol­lend­inga vegna tryggðu Ices­ave-reikn­ing­anna 203 milljónum evra (28,8 milljörðum íslenskra króna) hærri en höfuðstóll innistæðna.  

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „Sækja sér bresk innlán“. Fréttablaðið. 11. október 2006.
  2. „Ársskýrsla Landsbankans 2007“ (PDF). 2008., bls 9
  3. „Ársskýrsla Landsbankans 2007“ (PDF). 2008., bls 25, 77
  4. „Samruni Árvakurs og Þorsmerkur samþykktur; grein af Vísi.is 4. maí 2009“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. september 2011. Sótt 25. september 2009.
  5. Stjórnendur verði dregnir til ábyrgðar; grein í Morgunblaðinu 2009
  6. Bankastjóri hollenska bankans Rabobank úthúðar Landsbankanum; grein í Fréttablaðinu 2008
  7. Glærur - Landsbanki Íslands hf. - 20. febrúar 2009 - Kröfuhafafundur skv. 14. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 , bls 24
  8. „Þjóðaratkvæðagreiðslan: Öll atkvæði hafa verið talin. Tæplega 135 þúsund kjósendur sögðu nei“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. mars 2010. Sótt 7. mars 2010.
  9. „February 25, 2010 Icelandic Icesave offer to UK-NL“ (pdf) (enska). Sótt 2. október 2010.
  10. „Final United Kingdom-Netherlands Icesave offer to the Goverment of Iceland“ (pdf) (enska). Sótt 2. október 2010.
  11. „Álit EFTA á Icesave“ (pdf) (enska). Sótt 2. október 2010.
  12. „Dómsmál gæti þurrkað út Icesave skuld“. Fréttatíminn. 1. tölublað (1. október). 2010.
  13. „OECD - CIRR Rates“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. mars 2011. Sótt 9. desember 2010.
  14. Samantekt samningarnefndar vegna Icesave
  15. http://www.mbl.is/media/27/1527.pdf
  16. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/06/08/motmaeli_bodud_a_austurvelli/
  17. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=291294&pageId=4275459&lang=is&q=Icesave%20M%D3TM%C6LI%20Icesave
  18. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=291294&pageId=4275459&lang=is&q=Icesave%20M%D3TM%C6LI%20Icesave
  19. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/06/13/motmaeli_vegna_icesave/
  20. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/06/13/famenn_icesave_motmaeli/
  21. https://frostis.is/um-frosta/
  22. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. janúar 2010. Sótt 11. apríl 2017.
  23. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/06/18/frammikoll_undir_raedu_radherra/
  24. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/06/17/motmaeli_a_austurvelli/
  25. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/06/19/boda_motmaeli_a_akureyri/
  26. http://www.visir.is/raddir-folksins-a-austurvelli-i-dag/article/2009495068878
  27. http://www.visir.is/fleiri-en-300-manns-a-motmaelum/article/2009882846902
  28. http://andreaolafs.blog.is/blog/andreaolafs/entry/900454/
  29. http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/900581/
  30. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/06/27/nokkur_fjoldi_a_austurvelli/
  31. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/07/23/motmaeli_gegn_icesave_a_austurvelli/
  32. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/08/13/motmaeli_a_austurvelli/
  33. http://www.visir.is/k/vtv169140d0-f462-4918-a988-d32d13e2ecc0
  34. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/10/19/motmaeli_vegna_icesave/
  35. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1315752/
  36. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/11/21/motmaela_icesave/
  37. http://raudurvettvangur.blog.is/blog/raudurvettvangur/entry/997935/
  38. http://www.visir.is/boda-til-motmaela-vid-bessastadi/article/2016160408972
  39. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/11/19/icesave_motmaelt_a_laugardaginn/
  40. https://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/3897
  41. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1315752/
  42. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/12/30/motmaeli_a_austurvelli/
  43. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=323547&pageId=5066213&lang=is&q=M%D3TM%C6LI%20Bessast%F6%F0um
  44. „Fjölmörg blys tendruð á Bessastöðum“. Morgunblaðið. 4.1.2010. bls. 4.
  45. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/28/island_vann_icesave_malid/ Ísland vann Icesave-málið; af Mbl.is 28. janúar 2013
  46. http://www.ruv.is/frett/island-vann-icesave-malid Ísland vann Icesave-málið; af ruv.is 28. janúar 2013
  47. https://kjarninn.is/skodun/2016-05-02-uppgjorid-vegna-icesave/

Fréttir og greinar úr dagblöðum

[breyta | breyta frumkóða]