Fara í innihald

Stjórnsýsluumdæmi Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stjórnskipan Íslands er skipulag stjórnsýslueininga á Íslandi. Á Íslandi eru aðeins tvö stjórnsýslustig: ríki og sveitarfélög, og þrjú dómstig: héraðsdómar Landsréttur og Hæstiréttur. Frá 1264 voru sýslur sérstakt stjórnsýslustig á Íslandi, en það var lagt niður í tveimur áföngum; fyrst með nýjum sveitarstjórnarlögum 1986 þegar sýslunefndir voru lagðar niður og vald þeirra fært til sveitarfélaga, og síðan með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði 1989 þegar hlutverk sýslumanna var endurskilgreint.

Saga stjórnsýsluskipunar á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Goðorð, þing og hreppar

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir landnám Íslands urðu til einingar sem nefndust goðorð og voru eins konar bandalag bænda við goða sem var fulltrúi þeirra á héraðsþingi þar sem dómar voru kveðnir upp. Alþingi var stofnað 930 og hafði æðsta dómsvald og löggjafarvald en héraðsþingin og fjórðungsþingin voru stig dómsvalds þar fyrir neðan. Nokkru eftir stofnun alþingis, eða 965 var Íslandi skipt í landsfjórðunga og voru þrjú héraðsþing í hverjum fjórðungi nema Norðlendingafjórðungi þar sem þau voru fjögur. Goðorð gekk í arf innan fjölskyldna og brátt safnaðist vald á hendur goðanna sem urðu héraðshöfðingjar og goðorðið í reynd að landfræðilegri skiptingu í stað bandalags.

Önnur stjórnsýslueining sem líklega hefur verið til frá því fyrir kristnitöku eru hreppar sem voru félög bænda í tiltekinni sveit sem höfðu meðal annars fátækraframfærslu og fjallskil á sinni könnu. Með Járnsíðu 1271 og síðan Jónsbók urðu hrepparnir að lögskipaðri stjórnsýslueiningu. Hrepparnir voru þannig eiginlegur undanfari sveitarfélaga.

Kirkjan á Íslandi hafði sína eigin stjórnsýsluskipan og dómsvald í sérstökum málum fram að siðaskiptum.

Sýslumenn, lögmenn og hirðstjóri

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Ísland gekk Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála var komið á nýrri stjórnsýsluskipan í stað goðorðanna. Landsfjórðungunum var þá skipt í sýslur sem sýslumaður hélt að léni frá konungi, en lögmaður var skipaður yfir hvern fjórðung (1271). Yfir allt landið var þá settur hirðstjóri sem var fulltrúi konungs á alþingi og átti að hafa eftirlit með sýslumönnum. Eftir að hirðstjóri varð einkum útlendur lénsherra og sjaldan á Íslandi var fógeti skipaður fulltrúi hans.

Einveldið og stiftamtmaður

[breyta | breyta frumkóða]

1593 var sett upp nýtt dómstig: yfirréttur, þar sem hirðstjóri sat í öndvegi og skipaði að hluta. Hlutverk yfirréttar var meðal annars að sporna við valdi lögmanna en áfram var samt hægt að skjóta málum til konungs sem úrslitavalds, og eftir 1732 til hæstaréttar Danmerkur sem var stofnaður við einveldistökuna. Þegar einveldi var síðan komið á í Dansk-norska ríkinu 1662 missti alþingi löggjafarvald en hélt áfram dómsvaldi. Eftir lát Henriks Bjelkes 1683 var landinu skipaður stiftamtmaður og landfógeti nýtt embætti staðgengils hans en 1688 var því skipt milli amtmanns og landfógeta. Þessir menn voru konungsfulltrúar sem heyrðu undir stjórn rentukammers og kansellís í Kaupmannahöfn.

1770 var embætti stiftamtmanns breytt þannig að stiftamtmaður skyldi búa á Íslandi. Þá var landinu skipt í tvö ömt: Suður- og Vesturamt og Norður- og Austuramt. 1787 urðu ömtin þrjú: Suðuramt, Vesturamt og Norður- og Austuramt. 1800 var svo æðsta dómstig landsins landsyfirréttur í Reykjavík. Þar með var hlutverki alþingis á Þingvöllum lokið.

Kjördæmi og kaupstaðir

[breyta | breyta frumkóða]

Með endurreisn alþingis sem ráðgjafarþings 1843 var kveðið á um einmenningskjördæmi sem skyldu vera sýslurnar nítján auk kaupstaðarins Reykjavíkur. Sýslur voru síðan sameinaðar eða þeim skipt til að jafna hlutfall þingmanna. Brátt urðu til tvímenningskjördæmi og kaupstöðum var fjölgað sem sérstökum kjördæmum skömmu eftir aldamótin 1900. Kjördæmaskipan Íslands og tilraunir til að breyta kjördæmum og jafna þingmönnum milli kjördæma hafa síðan verið tilefni hatrammra deilna.

Með verslunarfrelsi var nokkrum stöðum á Íslandi veitt kaupstaðarréttindi en þau voru fljótlega lögð niður alls staðar nema í Reykjavík sem fékk bæjarstjórn 1833. Fyrir aldamótin 1900 urðu svo Akureyri, Ísafjarðarkaupstaður og Seyðisfjörður kaupstaðir. Kaupstaðarréttindi fólu í sér að kaupstaðirnir voru sérstakt lögsagnarumdæmi aðskilið frá sýslunni.

Landshöfðingjatímabilið

[breyta | breyta frumkóða]

1872 var gefin út tilskipun um hreppa þar sem kveðið var á um kjörnar hreppstjórnir og hreppstjóra sem skyldi vera eins konar löggæslufulltrúi. 1873 var embætti stiftamtmanns lagt niður og landshöfðingi skipaður. Árið eftir gekk stjórnarskrá Íslands í gildi og alþingi fékk löggjafarvald (en konungur hafði neitunarvald) og fjárveitingavaldi.

Heimastjórn og fullveldi

[breyta | breyta frumkóða]

Með heimastjórn 1903 færðist framkvæmdavaldið til ráðherra Íslands sem hafði aðsetur á Íslandi. Með fullveldi 1918 og skipan hæstaréttar 1920 hafði dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald færst að fullu til Íslands.

Tvö stjórnsýslustig

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir miðjan 9. áratug 20. aldar voru síðan sýslurnar og kaupstaðirnir lagðar niður sem sérstakar stjórnsýslueiningar og sveitarfélög tóku við því valdi sem sýslunefndir höfðu haft. Við þessa breytingu urðu stjórnsýslustigin á Íslandi aðeins tvö: ríki og sveitarfélög. Síðan þá hafa sveitarfélög öll haft sömu stöðu að lögum hvort sem þau kallast kaupstaðir eða hreppar eða annað.

Aðrar skiptingar

[breyta | breyta frumkóða]

Gömlu hrepparnir og goðorðin hafa væntanlega að einhverju leyti miðast við náttúruleg landamæri (fjöll og fljót) sem takmörkuðu samskipti milli byggða og hafa þannig samsvarað hugtökunum byggð og sveit. Þetta sést á því að hreppur og sveit eru stundum höfð sem samheiti, sbr. þegar talað var um „að fara á sveitina“, „sveitarómagi“ og „sveitarstyrkur“. Skipting landsins í kirkjusóknir hefur líka miðast við samgöngur, auk fólksfjölda. Skipting landsins í landsfjórðunga og síðan sýslur miðaðist að hluta til við náttúruleg mörk. Sveitarfélög nútímans eru þó flest afrakstur tilhneigingar sameiningar eldri hreppa í fjölmennari einingar. Stærri héruð hafa ekki verið skilgreind sem stjórnsýslueining á Íslandi, en til eru ýmsar óformlegri skiptingar landsins í héruð eða landshluta sem þjóna ýmsu skipulagslegu hlutverki svo sem við vegagerð, raflagnir og símalagnir. Til dæmis er til skipting landsins í átta héruð sem grundvöllur tölfræðiútreikninga. Héruðin eru: