Fara í innihald

Rentukammer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hannibal Sehested, fyrsti ríkisskattstjóri Danmerkur og Noregs.

Rentukammer var stjórnardeild í danska einveldinu, sem lét sig efnahagsmál varða: Bókhald, launamál hins opinbera, toll- og skattheimtu, og hafði umsjón með eignum ríkisins, svo sem skógum, vegum og byggingum. Þegar einveldi var aflagt 1848 tók fjármálaráðuneyti við stærstum hluta af umsjónarefnum rentukammersins.

Danska Rentukammerið var í upphafi skrifstofa í Kansellíinu og undir stjórn konunglegs rentumeistara, en við einveldistökuna 1660 var nafninu breytt og nefndist það þá Skattkammerkollegíið og varð skipulagslega sjálfstæðara undir stjórn ríkisskattstjóra. Fyrsti ríkisskattstjóri Danmerkur var Hannibal Sehested. Árið 1680 var nafninu aftur breytt í Rentukammer.

Í áranna rás jukust umsvif Rentukammersins og tóku breytingum. Nokkrar skrifstofur voru klofnar út úr því, til dæmis Þýska sekretaríatið (1699), Verslunarkollegíið (1735), Yfirtollkammerið (1760), Yfirskattstjórnin (1762) og Yfirlandbúnaðarkollegíið (1768).

Skjalasafn Rentukammers

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1928 afhenti Ríkisskjalasafn Danmerkur Þjóðskjalasafni Íslands mikinn hluta þeirra skjala Rentukammersins, sem snerta íslensk málefni. Eru þau varðveitt þar sem sérstök deild: Skjalasafn Rentukammers eða Rentukammerskjöl.

Meðal merkra heimilda í skjalasafni Rentukammers er Manntalið 1703, sem Hagstofa Íslands gaf út á árunum 1924–1947. Handritið að manntalinu var lánað hingað til lands 1921, til að undirbúa útgáfu þess, en varð eign Íslendinga með samningunum 1927, sem voru undanfari skjalaskiptanna 1928.