Fara í innihald

Siðaskiptin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Siðaskipti)
Marteinn Lúther

Siðaskiptin (eða siðbótin) voru trúskipti sem áttu sér stað í nokkrum kristnum löndum Evrópu á 16. öld frá kaþólskri trú til mótmælendatrúar af einhverju tagi. Upphaf siðaskiptanna er miðað við það þegar Marteinn Lúther festi skjal með 95 greinum á kirkjudyrnar á hallarkirkju Wittenbergkastala 31. október 1517. Lúther vildi siðbót innan kirkjunnar og barðist meðal annars gegn sölu aflátsbréfa sem notuð var til að fjármagna framkvæmdir í Róm. Aðrir siðbótarmenn eins og Ulrich Zwingli og Jóhann Kalvín fylgdu fordæmi Lúthers. Þeir réðust gegn mörgum af grundvallarkenningum kaþólsku kirkjunnar eins og trúnni á hreinsunareldinn, sérdæmingu, tilbeiðslu Maríu og trúna á milligöngu dýrlinga, flest sakramentin, kröfunni um skírlífi kirkjunnar þjóna og vald páfa.

Helstu siðbótarhreyfingarnar sem fram komu á þessum tíma voru lútherstrú, reformerta kirkjan/kalvínismi/öldungakirkjan og anabaptistar. Ensku siðaskiptin voru sérstök atburðarás í Englandi á sama tíma sem leiddi til stofnunar ensku biskupakirkjunnar sem er kennilega nauðalík kaþólsku kirkjunni, enda tilgangur hennar fyrst og fremst sá að gera Englandskonung höfuð kirkjunnar í stað páfa.

Siðaskiptahreyfingin leiddi til uppreisna bænda og borgara víða í Þýskalandi, Frakklandi og Sviss gegn kirkjuvaldinu. Siðbótarhreyfingin tengdist þannig róttækum pólitískum hugmyndum um jafnrétti og andstöðu við yfirvaldið. Aðrir siðbótarmenn, eins og Lúther, fordæmdu þessar uppreisnir og studdu yfirvaldið (vildu t.d. halda í stétt biskupa innan mótmælendakirkjunnar). Margir þýskir furstar tóku siðbótarhreyfingunni fagnandi og konungar Danmerkur og Svíþjóðar tóku upp mótmælendatrú í ríkjum sínum.

Siðaskiptin leiddu til fjölda trúarbragðastyrjalda í Evrópu, en þau náðu hátindi sínum í Þrjátíu ára stríðinu 1618-1648. Viðbrögð kaþólsku kirkjunnar við siðaskiptunum voru gagnsiðbótin.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]