Fara í innihald

Sovéska karlalandsliðið í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sovéska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
GælunafnRauði herinn
Íþróttasamband(Rússneska: Фудбалски савез Југославије) Knattspyrnusamband Sovétríkjanna
ÁlfusambandUEFA
LeikvangurLenínleikvangurinn, Moskvu


Fyrsti landsleikur
3-0 gegn Tyrkland, 16. nóvember, 1924
Stærsti sigur
11-1 gegn Indland, 16. september 1955; 10-0 gegn Finnland, 15. ágúst 1957
Mesta tap
0-5 gegn England, 22. október, 1958

Sovéska karlalandsliðið í knattspyrnu var fulltrúi Sovétríkjanna í knattspyrnu og var stjórnað af knattspyrnusambandi landsins á árunum 1924 til 1991. Sovétmenn voru löngum í hópi sterkari knattspyrnuþjóða Evrópu og voru tíðir gestir í úrslitakeppnum EM og HM. Liðið hlaut einu sinni gullverðlaun á Evrópumeistaramóti.

Árið 1989 gerði Ísland jafntefli við Sovétríkin í Moskvu. [1]

Fyrir rússnesku byltinguna tefldi Rússneska keisaradæmið fram landsliði frá 1910-14 sem m.a. tók þátt á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi. Í kjölfar byltingarinnar voru hin nýstofnuðu Sovétríki einangruð og hikandi við að taka þátt í íþróttakeppnum með kapítalískum ríkjum Vesturlanda. Fyrstu leikir sovésks úrvalsliðs fóru fram á árinu 1922 gegn finnskum mótherjum. Tveimur árum síðar lék formlegt sovéskt landslið tvo leiki gegn Tyrkjum sem reyndust einu opinberu landsleikir Sovétmanna til ársins 1952.

Einangrunin rofin

[breyta | breyta frumkóða]

Á árunum milli heimsstyrjaldanna ríkti hálfgert samskiptabann milli Sovétmanna og ríkja Vestur-Evrópu á íþróttasviðinu. Sovétríkin íhuguðu að keppa á ÓL 1948 en hurfu frá því á síðustu stundu. Árið 1945 hafði hins vegar sovéskt knattspyrnulið, Dynamo Moskva, keppt í Englandi og gert 3:3 jafntefli gegn stórliði Chelsea. Þau úrslit urðu mjög til að auka áhuga fólks á því hversu sterk sovésku fótboltaliðin væru í raun.

Sovétmenn mættu af fullum krafti til leiks á ÓL 1952 í Helsinki. Sveit þeirra rakaði til sín verðlaunum og kom næst Bandaríkjunum í verðlaunafjölda. Sovétmenn, líkt og aðrar kommúnistaþjóðir Austur-Evrópu, tefldu fram sínu sterkasta liði á meðan lið Vestur-Evrópu þurftu að halda sig við áhugamannalið. Þegar í annarri umferð mættust Sovétríkin og Júgóslavía í æsilegri viðureign sem lauk með 5:5 jafntefli. Júgóslavar höfðu betur í leik sömu liða tveimur dögum síðar. Úrslitin reyndust afdrifarík. Sovétríkin og Júgóslavía áttu í stirðum samskiptum og þjóðhöfðingjarnir Tito og Stalín tróðu illsakir. Stjórnendum sovéska liðsins var því refsað harðlega fyrir tapið.

Þrátt fyrir sárt tap í Helsinki 1952 voru Sovétríkin komin á kort heimsfótboltans. Í Melbourne 1956 urðu Sovétmenn Ólympíumeistarar með goðsögnina Lev Yashin. Síðar áttu Sovétmenn eftir að vinna bronsverðlaunin á bæði ÓL 1972 og ÓL 1976.

Bestir í Evrópu

[breyta | breyta frumkóða]

Sovétmenn tóku ekki þátt í forkeppni HM 1954. Fjórum árum síðar skráði liðið sig hins vegar til keppni. Í forriðlinum unnu Sovétmenn sinn stærsta sigur í sögunni, 10:0 gegn Finnum og slógu svo Pólverja úr leik í hreinum úrslitaleik. Í úrslitakeppninni í Svíþjóð lentu Sovétmenn í erfiðasta riðlinum, Þar sem þeir töpuðu fyrir heimsmeistaraefnum Brasilíu, unnu Austurríkismenn og gerðu jafntefli við England. 1:0 sigur á Englandi í úrslitaleik kom Sovétríkjunum í fjórðungsúrslit þar sem heimamenn Svía reyndust yfirsterkari.

Fyrsta Evrópukeppnin var haldin árið 1960. Sovétmenn ruddu Ungverjum og Spánverjum úr vegi til að komast í úrslitin á Em 1960. Þar unnu Sovétmenn bæði Tékkóslóvaka og Júgóslava til að verða fyrstu Evrópumeistararnir.

Alltaf í fremstu röð

[breyta | breyta frumkóða]

Frá 1960 til 1972 komust Sovétmenn í úrslitakeppni allra stórmóta, þar á meðal fjórum sinnum í röð í úrslitakeppni EM sem var fágætt afrek enda var þá aðeins um fjögurra liða mót að ræða. Á EM 1964 tapaði liðið fyrir Spánverjum í úrslitaleiknum á EM 1968 töpuðu Sovétmenn á hlutkesti gegn Ítölum eftir jafntefli í framlengingu og á EM 1972 urðu Vestur-Þjóðverjar hlutskarpari í úrslitunum.

Á HM voru Sovétríkin alltaf í hópi sigurstranglegri liða. Í Síle 1962 tapaði liðið mjög óvænt fyrir liði heimamanna í fjórðungsúrlitum. Fjórða sætið varð niðurstaðan í Englandi 1966 eftir naumt tap gegn Vestur-Þjóðverjum í undanúrslitum. Í fjórðungsúrslitum á HM í Mexíkó 1970 stefndi allt í að grípa þyrfti til hlutkestis í fjórðungsúrslitaleik gegn Úrúgvæ en Suður-Ameríkumennirnir stálu sigurmarki í blálokin.

Lægð á áttunda áratugnum

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir silfurverðlaunin á EM 1972 tók gengi Sovétmanna á alþjóðasviðinu tímabundna dýfu. Liðið komst ekki á EM 1976 eftir að hafa tapað í æsilegu einvígi gegn Evrópumeistaraefnum Tékkóslóvakíu. Í forkeppni EM 1980 höfnuðu Sovétmenn í neðsta sæti síns forriðils og voru meira að segja á eftir Finnum sem voru lágt skrifaðir í heimsfótboltanum. Ekkert sovéskt lið var heldur að finna á EM í Frakklandi 1984.

Afar sérkennilegar pólitískar aðstæður stuðluðu að því að Sovétríkin komust ekki í úrslitakeppni HM 1974. Sovétríkin unnu forriðil sem innihélt auk þeirra Frakka og Íra. Sigurvegararnir áttu að mæta fulltrúum Suður-Ameríku í oddaleik, það reyndist vera lið Síle. Seinni leikur einvígisins átti að fara fram í Santíagó beint í kjölfar valdaránsins í landinu. Sovétmenn mótmæltu harðlega að vera neyddir til að keppa við þessar aðstæður en FIFA beygði sig ekki og Sovétmenn mættu ekki til leiks.

Ungverjar komust loks í úrslitakeppni HM í Argentínu 1978 á kostnað Sovétmanna.

Lokadansins

[breyta | breyta frumkóða]

Sovétmenn mættu með öflugt lið til leiks á HM á Spáni 1982 eftir að hafa m.a. rutt Íslendingum úr vegi í forkeppninni. Sovétmenn komust áfram úr sterkasta riðli keppninnar, á eftir Brasilíumönnum en á undan Skotum. Við tók keppni í milliriðlum þar sem Sovétmönnum mistókst að komast í undanúrslit með því að gera markalaust jafntefli við Pólverja. Leikurinn var pólitískt merkingarþrunginn vegna þess hvaða þátt stjórnvöld í Moskvu höfðu átt í að koma á herlögum í Póllandi skömmu áður.

Í Mexíkó 1986 gerðu Sovétmenn merkilega tilraun. Þjálfari liðsins var Valeriy Lobanovskyi sem jafnframt stýrði Dynamo Kyiv, öflugasta félagsliði Sovétríkjanna um þær mundir. Tólf leikmenn frá Dynamo-liðinu voru í landsliðshópnum og mynduðu þeir hryggjarstykkið í byrjunarliðinu. Var talið að þetta myndi skila mun samhentari hópi en gerist og gengur með landslið. Sovétmenn unnu sinn riðil sem innihélt Evrópumeistara Frakka. Ýmsir bjuggust við stórafrekum frá sovéska liðinu en þegar í 16-liða úrslitunum féllu þeir úr keppni eftir æsilegt 4:3 tap gegn Belgum eftir framlengingu.

Evrópumótið fór fram í Vestur-Þýskalandi árið 1988. Sovétmenn komust áfram úr forkeppninni þrátt fyrir að hafa óvænt gert 1:1 jafntefli gegn Íslandi á Laugardalsvelli. Keppt var í tveimur fjögurra liða riðlum og fóru Sovétmenn taplausir í gegnum sinn riðil og unnu bæði Englendingar og Hollendinga. Í undanúrlslitum lögðu þeir Ítali að velli, 2:0. Í úrslitunum mættu þeir hollenska liðinu á ný. Holland hafði ekki komist í úrslit stórmóts í áratug en tefldi fram nýrri og öflugri kynslóð leikmanna. Hollendingar unnu 2:0 með mörkum frá Gullit og Van Basten.

Aftur lentu Sovétmenn og Íslendingar saman í forriðli þegar kom að HM á Ítalíu 1990. Íslendingar náðu 1:1 jafntefli í báðum leikjunum og var stigið á Lenín-vellinum í Moskvu lengi talið einhver glæsilegustu úrslit íslenska landsliðsins. Þegar til Ítalíu var komið ollu Sovétmenn miklum vonbrigðum. Liðið var fallið úr keppni eftir tvo fyrstu leikina, töp gegn Argentínu og Rúmeníu. Stórsigur á Kamerún í lokaleik var því lítil huggun.

Líklega gerðu fáir sér grein fyrir því að keppnin 1990 hefði í raun verið svanasöngur Sovétríkjanna á alþjóðasviðinu. Sovétríkin tóku þátt í forkeppni EM 1992, unnu sinn riðil og skildu m.a. Ítali eftir. Áður en úrslitakeppnin hófst í Svíþjóð hafði sundurliðun Sovétríkjanna hafist fyrir alvöru. Sigur Sovétríkjanna á Kýpur í Larnaca í nóvember 1991 telst síðasti landsleikur liðsins. Í stað þess keppti lið undir merkjum Samveldis sjálfstæðra ríkja í úrslitum Evrópumótsins en komst ekki upp úr riðlakeppninni.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Leikskýrsla KSÍ.is