Breska Austur-Indíafélagið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Höfuðstöðvar félagsins, East India House, í London árið 1817.

Breska Austur-Indíafélagið var verslunarfélag stofnað 31. desember árið 1600 vegna verslunar við Austur-Indíur en varð síðan einna fyrirferðarmest á Indlandsskaga. Félagið var elst þeirra Austur-Indíafélaga sem evrópsku konungsríkin stofnuðu á 17. og 18. öld.

Félagið var hlutafélag og fékk konungsbréf við stofnun. Hluthafar voru auðugir breskir kaupmenn og aðalsmenn. Breska ríkið átti ekki hlutabréf og átti því aðeins óbeina aðild að stjórn félagsins. Helstu verslunarvörur félagsins voru baðmull, silki, indigó-litunarefni, salt, saltpétur, te og ópíum. Um miðja 18. öld varð félagið einkarekið nýlenduveldi á Indlandi þar sem það stjórnaði stórum svæðum með einkaher. Yfirráðum félagsins lauk eftir indversku uppreisnina 1857 þegar breska ríkisstjórnin gaf út lög um stjórnun Indlands 1858 og þjóðnýtti einkaher félagsins. Árið 1874 var félagið leyst upp.