Fara í innihald

Saarbrücken

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Saarbrücken
Skjaldarmerki Saarbrücken
Staðsetning Saarbrücken
SambandslandSaarland
Flatarmál
 • Samtals167,07 km2
Hæð yfir sjávarmáli
230 m
Mannfjöldi
 • Samtals180.000 (2.019)
 • Þéttleiki1.061/km2
Vefsíðawww.saarbruecken.de

Saarbrücken (franska Sarrebruck, rínarfranska Saarbrigge, lúxemborgska Saarbrécken, latína Saravipons) er langstærsta borgin í þýska sambandslandinu Saarland, með 180 þúsund íbúa (2019) og er jafnframt höfuðborg þess.

Miðborg Saarbrücken að kvöldlagi. Fremst er ráðhús borgarinnar.

Saarbrücken liggur við ána Saar syðst í sambandslandinu, aðeins steinsnar frá landamærum Frakklands. Næstu borgir eru Kaiserslautern til norðausturs (60 km), Lúxemborg til norðvesturs (60 km), Metz í Frakklandi til vesturs (50 km) og Strassborg í Frakklandi til suðausturs (80 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar er þríþætt og eru þeir frá þeim þremur bæjum og borgum sem sameinuðust 1909 til að mynda stórborgina Saarbrücken. Neðst er hvítt ljón á bláum grunni og er það frá hinni gömlu Saarbrücken. Efst til vinstri er rauð rós á hvítum grunni og er það frá St. Johann. Efst til hægri eru tveir svartir hamrar ásamt svartri töng og er það frá Malstatt-Burbach. Merkið þetta var tekið upp við samrunann 1909.

Upphaflegt heiti borgarinnar er Sarabrucca. Sara er áin Saar. Briga merkir hér annað hvort klettur eða mýrlendi (Bruch á þýsku). Heitið hefur ekkert með brú (Brücke) að gera.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Kastalinn í Saarbrücken
  • 999 kemur Saarbrücken fyrst við skjöl og er þá konungsvirki (castellum Sarabrucca) keisarans Otto III.
  • 1120 myndaðist greifadæmið Saarbrücken, er byggð myndast í kringum virkið.
  • Á 12. öld fengu Saarbrücken og St. Johann borgarréttindi.
  • 1353 varð Saarbrücken eign hertogadæmisins Nassau.
  • 1574 urðu siðaskiptin í borginni.
  • Í 30 ára stríðinu varð borgin nær gjöreydd. 1637 voru þar einungis 70 manns eftir.
  • 1677 lét Loðvík XIV Frakkakonungur brenna borgina til kaldra kola í 7 ára stríðinu.
  • 1741 komst hertoginn Vilhjálmur Hinrik til valda og byrjar á gríðarlegri uppbyggingu í borginni í barokkstíl (kastali, kirkja og margt fleira).
  • 1793 hertók franskur byltingarher borgina og hélt henni þrátt fyrir árásir herja Brandenborgar. Með friðarsamkomulaginu við Campo Formio 1797 varð borgin frönsk.
  • 1815 úrskurðaði Vínarfundurinn að borgin skyldi tilheyra Prússlandi.
  • 1856 hófst járniðnaðurinn í borginni.
  • 1870 átti sér stað orrustan við Spichern, rétt sunnan við borgarmörk Saarbrücken, þar sem Bismarck sigraði heri Frakklands. Í kjölfarið varð Prússland að keisararíki.
  • 1909 voru borgirnar Saarbrücken og St. Johann, ásamt bænum Malstatt-Burbach sameinaðar í stórborgina Saarbrücken.
  • 1918 hernámu Frakkar borgina eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri. Borgin er undir franskri stjórn allt til 1936.
  • 1944 varð borgin fyrir miklum loftárásum bandamanna.
  • 1945 hernámu Frakkar borgina á nýjan leik.
  • 1947 varð Saarhéraðið að sjálfstjórnarsvæði. Saarbrücken verður höfuðborg í fyrsta sinn.
  • 1957 varð Saarhéraðið að sambandslandi Þýskalands og verður Saarbrücken þá fylkishöfuðborg.
  • 1974 sameinuðust 11 bæir og sveitarfélög borginni. Við það tvöfaldaðist íbúafjöldinn.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Trofeo Karlsberg er alþjóðleg reiðhjólakeppni sem fer fram árlega fyrir 17 og 18 ára unglinga í og í kringum Saarbrücken. Mót þetta hefur verið haldið í maí eða júní frá 1988 og koma þátttakendur víða að. 2011 sigraði belgíska liðið í liðakeppninni.
  • Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er 1. FC Saarbrücken, sem leikur í neðri deildum. Besti árangur liðsins eru undanúrslit í bikarkeppninni, alls þrisvar. Á franska hersetutímanum lék liðið í frönsku deildinni. Kvennaliðið hefur leikið í 1. Bundeslígunni í fjögur skipti.
  • Í borðtennis er liðið ATSV Saarbrücken margfaldur þýskur meistari, bæði í karla- og kvennaflokki.
  • Í badminton varð félagið 1. BC Bischmisheim fimm sinnum þýskur meistari í röð á árunum 2006-2010.

Saarbrücken viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]
Nicole sigraði Eurovision 1982.
  • (1910) Gerhard Schröder eldri (faðir kanslarans), innanríkis-, utanríkis- og varnarmálaráðherra
  • (1962) Sandra Cretu poppsöngkona
  • (1964) Nicole, söngkona og sigurvegari í Eurovision 1982

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Lúðvíkskirkjan
  • Lúðvíkskirkjan er ein af byggingunum sem hertoginn Vilhjálmur Hinrik lét reisa eftir að hann komst til valda á 18. öld. Kirkjan var reist 1762, en framkvæmdir hættu við dauða hertogans 1768. 1775 var aftur hafist handa við smíðina er sonur hertogans, Lúðvík, fjármagnaði verkið og var hún vígð 1775. Hún hlaut því nafn hans. Í heimstyrjöldinni síðari skemmdist kirkjan talsvert. Endurreisnin hófst 1949 og er henni ekki lokið enn). Þrátt fyrir það er kirkjan einkennisbygging borgarinnar.
  • Kastalinn er Saarbrücken er að mestu frá 1739 og stendur þar sem áður hafði staðið virki frá árinu 999. Það var hertoginn Vilhjálmur Lúðvík sem lét rífa virkið og reisa kastalann. Í hálfa öld var kastali þessi miðpunktur stjórnunar og menningar í héraðinu, þar til Frakkar hertóku borgina 1793. Í bardögum við Prússa stórskemmist kastalinn. Hann var endurreistur 1810 sem íbúðir fyrir 8 borgaralegar fjölskyldur. Milli 1908 og 1920 keypti Saarbrücken íbúðirnar upp, ásamt öðrum húsum, til að nota þær sem stjórnarráð. Í loftárásum seinna stríðsins skemmdist kastalinn á ný og var lagfærður 1947-48. Það tókst þó ekki betur en svo að 1969 varð að loka stórum hluta hans vegna hættu á hruni. Kastalinn var endanlega lagfærður 1982-89 og þjónar í dag aftur sem stjórnarráð.

Fyrirmynd greinarinnar var „Saarbrücken“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2010.