Fara í innihald

Fiskur

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Fiskar)
Fiskar í fiskasafni.

Fiskar eru hryggdýr sem dvelja í vatni og anda með tálknum. Flestir fiskar eru með kalt blóð en sumar tegundir háffiska og túnfiska eru með heitt blóð. Af fiskum finnast yfir 29 þúsund tegundir, svo þeir eru fjölbreyttasti hópur hryggdýra. Algengt er að skipta fiskum í vankjálka (Agnatha, til dæmis steinsugur), brjóskfiska (Chondrichthyes - háffiskar og skötur) og beinfiska (Osteichthyes). Flokkunarfræðilega eru helstu hópar fiska af samhliða þróunarlínum og innbyrðis tengsl milli tegunda eru mjög umdeild.

Fiskar eru af öllum stærðum, allt frá 16 metra löngum hvalháfumSchindleria brevipinguis sem er aðeins um 8 mm. Ýmsar óskyldar tegundir vatnadýra bera fisksheiti, svo sem smokkfiskur, en þær eru ekki raunverulegir fiskar. Önnur vatnadýr, eins og hvalir, líkjast fiskum en eru í raun spendýr.

Þótt flestir fiskar lifi aðeins í vatni og séu með kalt blóð þá eru undantekningar frá báðum þessara einkenna. Fiskar úr nokkrum ólíkum hópum hafa þróað með sér hæfileika til að lifa á landi um lengri tíma. Sumir þessara láðs- og lagarfiska, eins og eðjustökkullinn, geta lifað og farið um á landi í nokkra daga í senn. Auk þess geta sumar tegundir fiska haldið háum líkamshita að vissu marki. Innvermnir beinfiskar eru allir í undirættbálkinum Scombroidei sem inniheldur meðal annars geirnef og túnfisk og eina tegund af „frumstæðum“ makríl (Gasterochisma melampus). Allir háfiskar af hámeraætt geta haldið jöfnum hita og vísbendingar eru um að þessi hæfileiki sé til staðar í ættinni Alopiidae (skottháfum). Varmajöfnunin er mismikil eftir tegundum, allt frá geirnefnum sem heldur aðeins hita á augum og heila, að túnfiskum og hámerum sem halda jöfnum hita yfir 20 °C fyrir ofan umhverfishita vatnsins. Þótt innverming íþyngi efnaskiptunum er talið að hún feli í sér vissa kosti eins og meiri samdráttarkraft vöðva, örari vinnslu í taugakerfinu og hraðari meltingu.

Fiskar eru mikilvæg fæða manna á mörgum menningarsvæðum og fiskveiðar eru stundaðar alls staðar þar sem fiska er að finna. Í fiskeldi eru fiskar ræktaðir til manneldis. Vatnadýr eins og skeldýr eru kölluð skelfiskur í tengslum við matargerð. Fiskar eru líka veiddir og ræktaðir til skemmtunar og hafðir til skrauts í garðtjörnum og fiskabúrum.

vísindagrein sem rannsakar fiska sérstaklega heitir fiskifræði en fiskar eru viðfangsefni ýmissa annarra fræðigreina eins og sjávarlíffræði, vistfræði og lífeðlisfræði.

Vistfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Fiskar finnast í öllum vistkerfum vatns, bæði ferskvatni, söltu vatni og ísöltu vatni, á grynningum og neðarlega í hafdjúpunum. Í nokkrum vötnum með mjög hátt saltinnihald, eins og Dauðahafinu og Great Salt Lake í Bandaríkjunum finnast engir fiskar.

Kyrrahafssardínur í torfu.

Fiskar eru stundum flokkaðir eftir þeim stað í vatni sem þeir halda sig mest. Þetta atriði hefur mikil áhrif á bæði útlit, veiðiaðferð og fæðuval fiska: Uppsjávarfiskar eru feitir fiskar sem lifa margir í torfum, eins og til dæmis síld og loðna, og nærast á svifi; Botnfiskar lifa á sjávarbotninum, einir eða í litlum hópum. Sumir botnfiskar marka sér yfirráðasvæði á botninum sem þeir verja fyrir öðrum fiskum og eru gjarnan ránfiskar. Dæmi um botnfiska eru keila og þorskur; Djúpsjávarfiskar lifa á miklu dýpi þar sem nánast ekker ljós er og þrýstingur vatnsins er mikill. Djúpsjávarfiskar eru gjarnan með ljósfæri sem lýsa með lífljómun; Miðsjávarfiskar eru fiskar sem færa sig á milli botns og uppsjávar, til dæmis eftir tíma dagsins.

Svartdjöfull er með lýsandi agn á höfðinu.

Uppsjávarfiskar eins og sardínur lifa venjulega á svifi sem þeir sía úr sjónum með hjálp tálknatinda. Nokkur stór sjávardýr hafa sama fæðuval eins og skíðishvalir og vissar tegundir háfiska, en flestir hinna stærri uppsjávarfiska eru kjötætur sem éta aðra fiska, smokka og krabbadýr. Þótt flestir botnfiskar séu ránfiskar þá eru sumir þeirra jurtaætur eða grotætur sem lifa á leifum annarra dýra sem finnast á botninum. Sumir lifa í samlífi með öðrum sjávardýrum, venjulega stærri ránfiskum, og nærast á matarleifum eða sníkjudýrum á roði hýsilsins. Sumir djúpsjávarfiskar, og eins sumir strandfiskar, nota sprota út úr höfðinu sem agn til að veiða bráð sína. Þessar tegundir eru með gríðarmikinn skolt til að grípa bráðina þegar hún kemur nógu nálægt.

Flestir fiskar æxlast með kynæxlun og eru eggbærir þar sem eggin (hrognin) frjóvgast utan líkama móðurinnar og foreldrarnir annast seiðin yfirleitt ekki. Hjá þeim tegundum sem lifa í torfum gjóta hrygnurnar í vatnið þar sem torfan heldur sig og hængarnir sleppa sæðinu á sama tíma. Hjá nokkrum uppsjávarfiskum fljóta hrognin um við yfirborðið og geta orðið fæða svifdýra og sunddýra; af þessum sökum þarf hrygnan að hrygna miklum fjölda hrogna. Hjá öðrum tegundum sökkva hrognin niður á botn eða er hrygnt við botninn þar sem frjóvgun á sér stað. Í þeim tilvikum er ekki þörf á jafnmiklum fjölda hrogna.

Lífshlaup ála sem hrygna í söltu vatni en þroskast í ferskvatni.

Til eru samt undantekningar frá öllum þessum einkennum; Nokkrar tegundir fiska (til dæmis áll) æxlast í fersku vatni en þroskast í söltu vatni. Hvað kynin varðar þá eru einnig til tvíkynja fiskar (ættin Sparidae) sem skipta um kyn meðan á æxlun stendur. Hvað umönnun seiðanna varðar þá eru áhugaverð dæmi um slíkt, til dæmis hjá sæhestum þar sem karlinn safnar saman frjóvguðum hrognum og ungar þeim út. Margar siklíður geyma seiðin í munninum, ýmist bæði kynin eða til skiptis, til að vernda þau fyrir rándýrum. Meirihluti fisktegunda er vissulega eggbær, en það eru bæði til eggfósturbærir og fósturbærir fiskar þar sem fóstrið þroskast í kvið móðurinnar.

Fiskar sofa ekki heldur skipta milli vökuástands og hvíldarástands. Þegar fiskur er í hvíld virðist hann fullkomlega hreyfingarlaus þrátt fyrir að hann hreyfi sig í raun mjög hægt til að halda jafnvægi í vatninu. Fiskar eru ekki með augnlok þannig að augu þeirra eru alltaf opin. Sumar tegundir færa sig niður á botn vatnsins eða árinnar og aðrar fela sig í holum til að verjast rándýrum.

Síld er úthafsgöngufiskur og sú fiskitegund sem telur flesta einstaklinga. Á Íslandsmið koma þrír síldarstofnar sem hegða sér á ólíkan hátt varðandi göngur.

Margar tegundir fiska (aðallega uppsjávarfiskar) færa sig reglulega milli búsvæða; Daglega færa þessar tegundir sig milli yfirborðs og botns og árlega synda þær vegalengdir sem geta verið frá nokkrum metrum að nokkrum hundruðum kílómetra. Álar færa sig um set á nokkrum árum. Oftast eru þessar göngur farnar til æxlunarsvæða eða ráðast af æti. Nokkrar tegundir túnfiska ganga árlega norður og suður eftir hafinu eftir hitastigi sjávar.

Fiskar eru flokkaðir eftir göngumynstri í sjógandandi fiska sem ganga milli sjávar og ferskvatns, fljótagöngufiska sem ganga milli ferskvatnskerfa, til dæmis úr á í vatn og öfugt, og úthafsgöngufiska sem ganga milli búsvæða í sjó. Sjógangandi fiskar skiptast aftur í vatnagöngufiska sem lifa í sjó en æxlast í fersku vatni, sjógöngufiska sem lifa í ám en æxlast í sjó, og tvíátta fiska sem flytja milli sjávar og ferskvatns einhvern tíma á æviskeiðinu, en ekki til að æxlast, heldur venjulega af líkamlegum ástæðum (vegna þroskaferils fisksins).

Sá vatnagöngufiskur sem mest hefur verið rannsakaður er laxinn sem klekst út efst í ám, þroskast í ánni og syndir til sjávar þegar vissum aldri er náð. Í hafinu stækkar hann og síðan snýr hann aftur í sömu ána sem hann fæddist í til að æxlast. Margir stofnar laxa hafa mikið menningarlegt og efnahagslegt gildi þannig að ánum sem þeir sækja hefur verið breytt með sérstökum laxastigum sem hjálpa fiskinum að komast yfir hindranir og ganga ofar í ána.

Best rannsakaða dæmið um sjógöngufiska er evrópski állinn sem gengur um sex þúsund kílómetra í Þanghafið (í miðju Atlantshafinu) til að hrygna. Lirfurnar ganga síðan til baka sem glerálar og þroskast í ám Evrópu, en ganga í gegnum gríðarlegar myndbreytingar á leið sinni.

Steingervingur fisks frá krítartímabilinu.

Fiskar eru af samsíða þróunarlínum, þannig að hver grein sem inniheldur alla fiska inniheldur líka ferfætlinga sem ekki eru fiskar. Elstu þekktu fiskarnir (og þar með elstu þekktu hryggdýrin) komu fram á kambríumtímabilinu fyrir um 510 milljónum ára.

Fiskum er skipt í eftirfarandi meginhópa:

Sumir fornlíffræðingar telja keilutönnunga til frumstæðra fiska þar sem þeir eru seildýr.

Nánari flokkun er að finna í greininni um hryggdýr.

Þróun fiska

[breyta | breyta frumkóða]
Teikning af Pikaia eins og hann kann að hafa litið út.

Enn er ekki alveg ljóst hvenær fiskar komu fram í þróunarsögunni en líklegt er að það hafi verið á kambríumtímanum.[1] Fiskar virðast ekki hafa verið fjölmennur hópur dýra til að byrja með og því skilið eftir sig fáa steingervinga. Þetta breyttist þó með tímanum og fiskar urðu ríkjandi dýrategund í hafinu og þróuðust meðal annars yfir í landdýr eins og froskdýr, skriðdýr og spendýr. Fiskar voru fyrstu hryggdýrin.[2]

Myndun hreyfanlegs kjálka virðist hafa ráðið úrslitum um útbreiðslu fiska þar sem kjálkalausir fiskar hafa skilið eftir sig fáa afkomendur. Steinsugur kunna að vera fulltrúi þessara kjálkalausu fiska. Steingerðir brynháfar eru fyrstu dæmin um kjálka hjá fiskum en þeir eru frá því seint á sílúrtímabilinu fyrir rúmum 400 milljón árum.[3] Ekki er ljóst hvort aðalkosturinn við hreyfanlegan kjálka sé aukinn bitkraftur, betri öndunarhæfileikar eða blanda af hvoru tveggja.

Fiskar eru annar fjölbreyttasti hópur dýra talið í fjölda tegunda. Aðeins liðdýr telja fleiri tegundir, að hluta vegna fjölda tegunda skordýra.

Sumir ætla að fiskar kunni að hafa þróast út frá skepnu sem líktist möttuldýrum, en lirfur þeirra líkjast fiskum að mörgu leyti. Fyrstu forfeður fiskanna gætu hafa haldið lirfuforminu þar til þeir urðu fullvaxta, þótt það gæti líka hafa gerst í hina áttina. Hugsanleg dæmi um elstu fiska eru vankjálkar eins og Haikouichthys ercaicunensis og Pikaia.

Líkamsgerð fiska

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd sem sýnir helstu líffæri fiska: (A) Bakuggi; (B) Geislar; (C) Hliðarrák; (D) Nýra; (E) Sundmagi; (F) Líffæri Webers; (G) Innra eyra; (H) Kvarnir; (I) Nasaholur; (L) Auga; (M) Tálkn; (N) Hjarta; (O) Magi; (P) Gallblaðra; (Q) Milta; (R) Innri kynfæri (eggjastokkar eða eistu); (S) Kviðuggar; (T) Hryggjarsúla; (U) Gotraufaruggi; (V) Sporðblaðka.

Líkamsgerð fiska er að stórum hluta aðlögun að eiginleikum vatnsins, sem er mun þéttara en loft, inniheldur tiltölulega lítið af uppleystu súrefni og dregur í sig meira ljós en loftið gerir. Fiskar eru flestir með ugga og hreistur í roðinu. Fiskar eru margir auk þess með sundmaga sem heldur þeim réttum og gerir þeim kleift að fljóta upp og niður í vatninu án þess að þurfa að synda til þess.

Lögun fiska

[breyta | breyta frumkóða]

Nær allir fiskar hafa straumlínulagaðan líkama sem skiptist í haus, skrokk og sporð (styrtlu og sporðblöðku) þótt skiptingin sé ekki alltaf sýnileg. Hausinn nær frá trjónunni, sem er fyrir framan augun að fremsta hluta efri kjálkans, að aftari hluta tálknloksins sem ver tálknin, yfir kinnina sem nær frá auganu að tálknloksbeininu. Neðri kjálkinn afmarkar kverkina. Önnur líffæri geta verið á hausnum, eins og skeggþræðir sem stundum líkjast veiðihárum. Margar tegundir fiska eru með fjölbreytta sprota eða gadda á hausnum. Nasaholur fiska tengjast ekki munnholinu heldur eru misdjúpar skálar.

Eitt af því sem helst einkennir fiska eru uggar sem fiskurinn notar við sund. Lögun og samsetning ugga er mjög breytileg eftir fiskum og á sumum hafa einstaka uggar þróast í eitthvað allt annað, til dæmis lýsandi agn á höfðinu á kjaftagelgjum og sogskál á kviðnum hjá hrognkelsum. Helstu uggar fiska eru bakuggar, sem geta verið allt að þrír talsins, sporðblaðkan sem kemur aftur úr styrtlunni og flestir fiskar nota til að knýja sig áfram, gotraufaruggi sem er staðsettur aftan við gotraufina, eyruggar sem venjulega eru rétt aftan við tálknlokið og kviðuggar sem venjulega eru fyrir neðan eyruggana. Margir fiskar hafa auk þess fituugga, veiðiugga, rétt aftan við bakuggana.

Skinnið á fiskum er kallað roð. Á flestum fiskum er roðið hreistrað en mismikið eftir tegundum. Gerðir hreisturs skiptast í skráptennur sem einkenna skötur og háfiska, tígullaga hreistur sem einkennir meðal annars geddur, disklaga hreistur sem einkennir meðal annars síld og silung, og kamblaga hreistur sem einkennir t.d. karfa. Hreistrið hefur þróast út frá brynvörn fornfiska eins og brynháfa. Hægt er að lesa aldur fisksins í árhringjum á disklaga og kamblaga hreistri. Hliðarrákin sem liggur langsum eftir líkama fisksins er skynfæri sem skynjar hreyfingu og titring í vatninu.

Meltingarkerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Með tilkomu kjálka gátu fiskar farið að éta mun fjölbreyttari fæðu, þar með talið jurtir og aðrar lífverur. Fiskar taka fæðuna inn í gegnum munninn og hún er færð niður í vélindanu. Þegar hún kemur í magann er hún brotin niður frekar og, hjá mörgum fiskum, unnin áfram í fingurlaga pokum sem heita skúflangar. Líffæri eins og bris og lifur framleiða ensím og ýmis efni til meltingarinnar meðan fæðan flyst eftir meltingarveginum. Görnin lýkur síðan við úrvinnslu fæðunnar og upptöku næringarefna. Brjóskfiskar og frumstæðir beinfiskar eru með spíralgörn þar sem fæðan er áfram unnin.

Öndunarkerfið

[breyta | breyta frumkóða]
Túnfisktálkn.

Flestir fiskar anda með tálknum sem eru fest við tálknbogagrindur úr brjóski eða beini sitt hvorum megin við kokið. Tálknin eru gerð úr tálknblöðum sem hver inniheldur tálknblöðkur sem aftur innihalda net háræða. Þetta gefur mikinn flöt fyrir skipti súrefnis og koltvísýrings. Fiskar anda með því að draga súrefnisríkt vatn inn um munninn og dæla því gegnum tálknblöðin. Blóðið í háræðunum rennur í öfuga átt við vatnið þannig að loftskiptin fara fram með gagnstreymi. Þeir þrýsta síðan súrefnissnauðu vatninu út um tálknopin. Margir brjóskfiskar og flestir beinfiskar sjúga vatnið inn um munninn en til dæmis háfiskar verða að synda stöðugt til að halda gegnumstreymi vatns um tálknin. Tálknopin eru hulin beinþynnum sem nefnast tálknlok. Sumir fiskar, eins og lungnafiskar, hafa þróað með sér líffæri sem nefnist völundarhús sem gerir þeim kleift að lifa af í súrefnissnauðu umhverfi eða vatni sem þornar stöðugt upp. Þessir fiskar eru með sérhæfð líffæri sem virka eins og lungu. Loft berst til þessa líffæris úr munni fisksins um rör. Sumir lungnafiskar eru svo háðir því að fá súrefni úr lofti að þeir kafna ef þeir ná ekki að komast upp á yfirborðið.

Blóðrásarkerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Fiskar eru með lokað blóðrásarkerfi með hjarta sem dælir blóðinu í hringrás um líkamann. Blóðið fer frá hjartanu í tálknin, þaðan um allan líkamann og aftur að hjartanu. Í flestum fiskum er hjartað fjórskipt: bláæðastokkur, forhólf, slegill og slagæðarkúla. Þrátt fyrir að hafa fjóra hluta er hjarta fiska aðeins með tveimur hólfum. Bláæðastokkurinn er þunnur belgur þar sem blóðið safnast úr æðum fisksins áður en það flæðir yfir í forhólfið sem er stórt vöðvahólf. Forhólfið virkar eins og ventill sem hleypir blóðinu yfir í slegilinn sem er þykkt vöðvahólf sem sér um sjálfa dælinguna. Hann dælir blóðinu út um slagæðarkúluna sem tengist við meginslagæðina þaðan sem það rennur út í tálknin.

Þveitikerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Líkt og mörg vatnadýr þveita fiskar niturúrgangi sínum í formi ammóníaks. Hluti úrgangsins fer út í vatnið um tálknin. Annar hluti fer um nýrun, líffæri sem sía úrgang úr blóðinu. Nýrun hjálpa fiskum við að halda magni ammóníaks í líkamanum stöðugu. Sjávarfiskar hafa tilhneigingu til að missa vatn með himnuflæði. Hjá sjávarfiskum safna nýrun úrgangsefnum og skila eins miklu vatni og hægt er aftur til líkamans. Hið gagnstæða gerist hjá vatnafiskum sem taka stöðugt upp vatn. Nýru ferskvatnsfiska eru sérhönnuð til að dæla út miklu magni útþynnts þvags. Sumir fiskar hafa sérhæfð nýru sem geta breytt um aðferð og gera þeim kleift að lifa bæði í söltu og fersku vatni. Brjóskfiskar halda efnajafnvæginu við með því að halda eftir miklu magni af þvagefnum. Þessi efni gera það að verkum að kjöt þessara fiska er eitrað ef það er ekki verkað sérstaklega (með kæsingu).

Taugakerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Fiskar eru með háþróað taugakerfi sem er miðstýrt af heila. Heilinn skiptist í nokkra hluta. Fremsti hlutinn ræður þefskyni fisksins. Ólíkt flestum hryggdýrum vinnur stórheili fiska fyrst og fremst með þefskyn þeirra en ber ekki ábyrgð á öllum sjálfráðum hreyfingum. Sjónblöðin vinna úr upplýsingum frá augunum meðan mænukylfan stjórnar innyflunum. Flestir fiskar eru með háþróuð skynfæri. Nær allir dagfiskar hafa góð augu með litasjón sem er að minnsta kosti jafngóð og manna. Margir fiskar hafa auk þess sérhæfða efnanema sem gefa þeim öflugt þef- og bragðskyn. Fiskar skynja bragð á mörgum stöðum líkamans. Þeir eru með eyru inni í höfðinu en heyra ekki vel með þeim. Aftur á móti hafa fiskar hliðarrák sem gerir þeim kleift að nema vatnsstraum og titring og skynja þannig hreyfingu annarra dýra í vatninu. Sumir fiskar, eins flestir brjóskfiskar og leirgeddur til dæmis, hafa skynfæri sem skynja veikan rafstraum. Aðrir, eins og hrökkáll, geta framleitt eigið rafmagn. Fiskar hafa kvarnir inn í höfðinu sem hjálpa til við stöðuskyn.

Vöðvakerfi

[breyta | breyta frumkóða]

Flestir fiskar hreyfa sig með því að draga saman til skiptis vöðvapör sitt hvorum megin við hrygginn. Þessir samdrættir mynda S-laga sveigjur sem færast aftur eftir skrokknum. Þegar þær ná sporðinum verður til afturhnykkur sem, ásamt uggunum, færir fiskinn áfram. Uggar fisksins virka eins og stýriskambur flugvélar. Uggarnir auka einnig yfirborð halans og gefa aukinn kraft í hreyfinguna. Straumlínulaga skrokkur fisksins dregur úr vatnsviðnámi þegar hann syndir áfram. Þar sem líkamsvefurinn er þéttari en vatnið þarf fiskurinn að bæta upp muninn eða sökkva ella. Þess vegna hafa flestir beinfiskar sundmaga sem stjórnar floti þeirra.

Æxlunakerfið

[breyta | breyta frumkóða]
Laxahrogn eru álitin herramannsmatur á mörgum stöðum.

Hrogn fiska frjóvgast ýmist utan eða innan líkamans eftir tegundum. Venjulega hrygnir kvenfiskurinn og seiðin klekjast út utan líkama hennar. Fóstur slíkra eggbærra fiska þroskast með því að nærast á eggjahvítu í egginu. Lax er dæmi um eggbæran fisk. Hjá eggfósturbærum fiskum haldast eggin inni í líkama hrygnunnar eftir frjóvgun og hvert fóstur þroskast í eigin eggi. Seiðin fæðast síðan sem „lifandi afkvæmi“, líkt og flest spendýr. Sumar tegundir fiska, eins og sumir háfiskar, eru fósturbærar þannig að fóstrið þroskast inni í líkama móðurinnar en fær nauðsynlega næringu í gegnum hana fremur en úr egginu.

Ónæmiskerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Ónæmislíffæri fiska eru mismunandi eftir tegundum. Vankjálka skortir raunverulega eitla þannig að þeir treysta á eitlavefi í öðrum líffærum til að framleiða ónæmisfrumur. Rauðar blóðflögur, átfrumur og plasmafrumur eru til dæmis framleiddar í fornýranu og sumir staðir í iðrunum (þar sem kornfrumur þroskast) líkjast frumstæðum beinmerg í slímálum. Brjóskfiskar (skötur og háfiskar) hafa þróaðara ónæmiskerfi en vankjálkar. Þeir eru með þrjú sérhæfð líffæri sem eru einstök fyrir þennan flokk og hýsa hefðbundnar ónæmisfrumur (kornfrumur, eitilfrumur og plasmafrumur). Þeir eru líka með greinilegan hóstakirtil og vel þróað milta (mikilvægasta ónæmislíffæri þeirra) þar sem ýmsar gerðir eitilfruma, plasmafruma og átfruma verða til og eru geymdar. Brjóskgljáfiskar (til dæmis styrjur) framleiða kornfrumur í massa sem tengist heilahimnunni og hjarta þeirra er oft hulið vef sem geymir eitilfrumur, grisjufrumur og lítið magn átfruma. Mikil blóðfrumumyndum fer fram í nýrum brjóskgljáfiska þar sem rauð blóðkorn, kornfrumur, eitilfrumur og átfrumur þroskast. Líkt og hjá brjóskgljáfiskum eru helstu ónæmisvefir beinfiska nýrun (sérstaklega fornýrað) þar sem margar ónæmisfrumur eru geymdar. Að auki eru beinfiskar með hóstakirtla, milta og dreifð ónæmissvæði í slímvefjum (til dæmis í roði, tálknum, iðrum og kynkirtlum). Líkt og í ónæmiskerfi spendýra er talið að rauð blóðkorn, dauffrumur og kornfrumur séu hýst í miltanu meðan eitilfrumur eru helsta tegundin sem finnst í hóstakirtlinum.

Sjúkdómar

[breyta | breyta frumkóða]

Fiskar fá sjúkdóma, rétt eins og aðrar lífverur. Fiskasjúkdómar geta valdið miklum skaða í fiskeldi eða skrautfiskaræktun. Sjúkdómar í fiski eru flokkaðir eftir ástæðu í bakteríusýkingar, sveppasýkingar, sníkla (til dæmis hringorma), vírussjúkdóma, efnaskiptasjúkdóma, sjúkdóma af völdum ástands vatnsins (umhverfissjúkdómar) og skortssjúkdóma eða eftir þeim líffærum sem verða fyrir sjúkdómnum. Meðferð við sjúkdómum í fiski er með ýmsum hætti og fer eftir bæði sjúkdómnum og umhverfisaðstæðum.

Fiskar í menningunni

[breyta | breyta frumkóða]
Fiskar meðal fæðutegunda sem málaðar eru á vegg grafhýsis egypsks faraós.
Mengun strandar vegna olíuleka.

Mikilvæg fæða manna

[breyta | breyta frumkóða]

Fiskar eru mikilvæg fæða ýmissa spendýra, eins og til dæmis bjarndýra, hvala og ekki síst manna. Fiskar hafa frá örófi alda verið mönnum gríðarlega mikilvæg uppspretta fæðu og ein af ástæðum þess að margar elstu mannabyggðir sem finnast eru við ár og vötn. Fiskur er mikilvæg uppspretta ýmissa nauðsynlegra næringarefna og mikil neysla fisks er talin geta unnið gegn ýmsum sjúkdómum eins og til dæmis hjartasjúkdómum (sjá fiskur (matargerð)).

Hæsta hlutfall fisks í fæðu manna er í Austurlöndum fjær, og þá sérstaklega í Japan. Stærsti fiskmarkaður heims er Tsukiji í Tókýó þar sem verslað er með um 10 þúsund tegundir fiska og annarra vatnadýra sem nú til dags berast alls staðar að úr heiminum.

Þróun tækni til fiskveiða, frá þríforkinumfrystitogurum, hefur haft áhrif á viðgang menningarsvæða. Gott dæmi um það er mikil fjölgun íbúa Íslands með þilskipaútgerð fyrst og síðan vélbátaútgerð á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. Tækniþróunin hefur ekki síst miðað að því að auka bæði magn og gæði aflans og jafnframt að hlífa þeim fiskum sem mikilvægastir eru fyrir viðgang stofnsins.

Fiskeldi er stundað bæði í sjó og ferskvatni á ýmsum tegundum fiska. Með árunum hafa verið gerðar tilraunir til að ala sífellt fleiri tegundir. Með fiskeldi er hægt að minnka áhættuna við framleiðslu fiskafurða og hugsanlega draga úr ágangi í villta stofna. Sjúkdómar gera þó oft mikinn usla í fiskeldi og ýmis umhverfisáhrif fylgja umfangsmiklu eldi.

Hættur sem steðja að fiskistofnum

[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir skilvirkari veiðitækni hefur sókn manna í fiskistofna, samfara fólksfjölgun og aukinni veiðigetu, haft þau áhrif að draga verulega úr styrk margra tegunda og útrýmt öðrum. Talið er að á síðustu hundrað árum hafi líffræðilegur fjölbreytileiki vatna, fljóta og úthafanna minnkað mikið, bæði vegna ofveiði og mengunar. Skilningur á vistkerfum vatnasvæða hefur aukist á sama tíma og reynt hefur verið að koma á sjálfbærri nýtingu þar sem stofnarnir skaðast ekki við veiðarnar. Reynt hefur verið að koma á og framfylgja banni við ýmsum tegundum veiðarfæra eins og reknetum og botnvörpum vegna verndunarsjónarmiða.

Mesta hættan sem steðjar að fiskistofnum í dag er þó mengun vatnsins af mannavöldum. Iðnbyltingin og fólksfjölgun í heiminum hafa haft í för með sér stóraukið útfall úrgangsefna í höf og vötn sem skapar hættu á eitrun og eyðileggingu heilla vistkerfa með alvarlegum afleiðingum fyrir manninn sjálfan (sjá ofauðgun). Mengunarslys þar sem til dæmis olía eða geislavirkur úrgangur sleppur út í vatn geta valdið hruni í vistkerfum sem hugsanlega ná sér aldrei aftur. Alvarleg slys af því tagi eru þó tiltölulega sjaldgæf. Jafnvel þótt fiskarnir sjálfir verði ekki fyrir áhrifum af menguninni getur hún engu að síður haft áhrif á þá óbeint með því að eitra fæðukeðjuna eða eyðileggja búsvæði þeirra (til dæmis kóralrif).

Fiskar í list og trúarbrögðum

[breyta | breyta frumkóða]
Stingskötur og gullfiskar á mynd eftir Kuniyoshi Utagawa frá 18. öld.

Fiskar koma fyrir í forsögulegri myndlist ásamt öðrum fæðutegundum manna. Fiskar koma fyrir sem tákn í fornum trúarbrögðum. Dæmi um þetta er fiskurinn sem gleypti kynfæri Ósíríss. Fiskar koma fyrir sem tákn frjósemi bæði kvenna og karla í trúarbrögðum Babýlóníumanna, Forn-Egypta og Indverja.

Í frumkristni varð fiskurinn tákn Jesú, þar sem upphafsstafirnir í gríska nafninu „Jesús Kristur guðs son frelsari“ (Ιησους Χριστος Θεου Υιος Σωτηρ, Iesous Kristos Þeou Yios Soter) mynda orðið „fiskur“ (gríska: Ιχθυς, Ikþys). Táknið var notað sem kennimark meðal kristinna manna á tímum trúarofsóknanna í Rómaveldi. Vegna þessa og vegna þeirra sagna Nýja testamentisins sem fjalla um fiska (kraftaverkið varðandi fiskana og brauðin og orð Jesú við fiskimennina Símon Pétur og Andrés bróður hans „Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða“) urðu til þess að fiskar fengu dulfræðilega merkingu í kristni ýmist sem tákn Krists eða kristinna manna almennt.

Í kyrralífsmyndum flæmskra listamanna og annarra norður-evrópskra listamanna eru fiskar algengir meðal annarra matvara, oft sem allegóría. Í japönskum náttúrulífsmyndum voru fiskar líka algengt myndefni.

Merki um mikilvægi fiskveiða fyrir efnahag Íslands má líka sjá í verkum margra íslenskra listamanna frá því um og fyrir miðja 20. öld. Sem dæmi má nefna fræga myndröð Kjarvals í Landsbankahúsinu (sem stundum er kölluð Lífið er saltfiskur).

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um þróun fiska?“. Vísindavefurinn 12.2.2004. http://visindavefur.is/?id=4000. (Skoðað 8.2.2011).
  2. Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um þróun fiska?“. Vísindavefurinn 12.2.2004. http://visindavefur.is/?id=4000. (Skoðað 8.2.2011).
  3. Ibid.

Heimildir og ítarefni

[breyta | breyta frumkóða]
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Fish“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. september 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Pesce (biologia)“ á ítölsku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. september 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Peixe“ á portúgölsku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. september 2006.
  • Bone, Quentin og Richard H. Moore, Biology of Fishes 3. útg (Taylor & Francis, 2008).
  • Helfman, Gene, B. Collette og D. Facey, The Diversity of Fishes (Oxford: Blackwell Publishing, 1997).
  • „Hvað getið þið sagt mér um þróun fiska?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvernig verkar sundmaginn í fiskum?“. Vísindavefurinn.
  • „Finna fiskar til?“. Vísindavefurinn.
  • „Sofa fiskar?“. Vísindavefurinn.
  • „Geta fiskar blikkað augunum?“. Vísindavefurinn.
  • „Hver er stærsta tegund allra fiska?“. Vísindavefurinn.
  • Sjávardýraorðabók dr. Gunnars Jónssonar
  • Hafrannsóknarstofnun Íslands
  • „Sjaldséðir fiskar 1994“; grein í Ægi 1995

erlendir