Fara í innihald

Ólympíuleikarnir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ólympíuleikar)
Fáni Ólympíuleikanna.

Ólympíuleikarnir eru stórt alþjóðlegt fjölíþróttamót sem haldið er á tveggja ára fresti og skiptist í Sumarólympíuleikana og Vetrarólympíuleikana þar sem keppt er í vetraríþróttum. Ólympíuleikarnir eru eitt stærsta íþróttamót heims þar sem þúsundir íþróttamanna frá yfir 200 löndum taka þátt.[1] Ólympíuleikarnir eru byggðir á Ólympíuleikunum fornu sem haldnir voru í Grikklandi í fornöld frá 8. öld f.Kr. til 4. aldar. Pierre de Coubertin endurvakti leikana og stofnaði Alþjóðaólympíunefndina árið 1894. Fyrstu Sumarólympíuleikarnir voru haldnir árið 1896 í Aþenu og fyrstu Vetrarólympíuleikarnir árið 1924 í Chamonix í Frakklandi. Upphaflega voru þessi tvö mót haldin á sama ári, en frá 1994 er tveggja ára bil á milli þeirra. Alþjóðaólympíunefndin er æðsta ráð ólympíuhreyfingarinnar og skilgreinir uppbyggingu hennar og starfsemi.

Ólympíuhreyfingin hefur þróast á 20. og 21. öld og það hefur leitt til breytinga á leikunum. Meðal þeirra helstu eru stofnun vetrarólympíuleika fyrir vetraríþróttir, Ólympíumót fatlaðra fyrir fatlað íþróttafólk, Ólympíuleikar æskunnar fyrir íþróttafólk á aldrinum 14 til 18 ára, fimm heimsálfuleikar (Ameríkuleikarnir, Afríkuleikarnir, Asíuleikarnir, Evrópuleikarnir og Kyrrahafsleikarnir), og Heimsleikarnir fyrir íþróttagreinar sem ekki eru hluti af Ólympíuleikunum. Alþjóðaólympíunefndin styður líka Ólympíuleika heyrnarlausra og Ólympíuleika fólks með þroskahömlun. Alþjóðanefndin hefur þurft að aðlaga leikana að breytingum á efnahagslífi, alþjóðastjórnmálum og tækniþróun. Gagnrýni á misnotkun Austurblokkarinnar á reglum um áhugaíþróttir urðu til þess að nefndin hvarf frá þeirri grundvallarreglu Coubertins að Ólympíuleikarnir skyldu vera áhugamannamót og heimilaði þátttöku atvinnuíþróttafólks. Aukið mikilvægi sjónvarpsútsendinga hefur leitt til fjölgunar styrktarsamninga og markaðsvæðingar leikanna almennt. Tvær heimsstyrjaldir ollu því að Sumarólympíuleikarnir 1916, 1940 og 1944 voru felldir niður og deilur risaveldanna á tímum Kalda stríðsins urðu til þess að mörg lönd sniðgengu leikana 1980 og 1984.[2] Kórónaveirufaraldurinn 2019– varð til þess að Sumarólympíuleikunum 2020 var frestað um eitt ár.

Ólympíuhreyfingin er mynduð úr alþjóðlegum íþróttasamböndum, ólympíunefndum einstakra landa og skipulagsnefndum hverra leika. Alþjóðanefndin samræmir vinnu þessara ólíku aðila, ber ábyrgð á vali gestgjafa fyrir hverja leika og skipuleggur og fjármagnar leikana í samræmi við stofnskrá Ólympíuleikanna. Alþjóðanefndin ákveður líka dagskrá leikanna, þar á meðal í hvaða íþróttagreinum er keppt. Ýmsar hefðir og tákn hafa skapast kringum leikana, eins og ólympíufáninn og ólympíueldurinn, auk opnunar- og lokahátíðar leikanna. Yfir 14.000 íþróttamenn og -konur tóku samanlagt þátt í Sumarólympíuleikunum 2016 og Vetrarólympíuleikunum 2018, og kepptu þar í yfir 400 keppnum í 35 íþróttagreinum.[3][4] Veitt eru verðlaun (ólympíupeningur) fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti í hverri keppni, úr gulli, silfri og bronsi.

Þátttaka í leikunum hefur farið vaxandi og nú er nærri því hvert einasta land heims með þátttakendur. Þessi mikli vöxtur hefur verið áskorun og leitt til deilna, þar á meðal sniðgöngu, misnotkunar frammistöðulyfja, múta og einnar hryðjuverkaárásar. Á tveggja ára fresti gefa Ólympíuleikarnir íþróttafólki möguleika á að ná alþjóðlegri frægð og frama í sinni grein. Leikarnir eru líka tækifæri fyrir gestgjafa hverju sinni til að vekja athygli á sjálfum sér gagnvart heiminum.

Markaðsvæðing

[breyta | breyta frumkóða]

Markaðssetning hefur verið hluti af Ólympíuleikunum að meira eða minna leyti frá fyrstu leikunum 1896 í Aþenu, þar sem nokkur fyrirtæki greiddu fyrir auglýsingar,[5] þar á meðal fyrirtækið Kodak.[6][7] Árið 1908 gerðust Oxo, Odol og Indian Foot Powder opinberir styrktaraðilar sumarólympíuleikanna í London.[8][9][10] Coca-Cola gerðist styrktaraðili sumarólympíuleikanna 1928 og hefur styrkt leikana síðan.[5] Áður en Alþjóðaólympíunefndin tók yfir alla styrktarsamninga sáu landsnefndirnar um að semja við styrktaraðila um fjármögnun og notkun ólympíumerkisins.[11]

Í byrjun var Alþjóðaólympíunefndin andsnúin styrktarsamningum við einkafyrirtæki. Það var ekki fyrr en eftir að Avery Brundage hætti sem nefndarforseti árið 1972 að nefndin tók að skoða möguleikann á stórum styrktarsamningum í tengslum við sjónvarpsútsendingar frá leikunum.[11] Undir stjórn Juan Antonio Samaranch tók alþjóðanefndin að gera samninga við stór alþjóðleg fyrirtæki sem vildu tengja vörur sínar við leikana.[12]

Fjármögnun

[breyta | breyta frumkóða]

Á fyrri helmingi 20. aldar var Alþjóðaólympíunefndin rekin fyrir lítið fé.[12][13] Avery Brundage var nefndarforseti frá 1952 til 1972 og hafnaði öllum tilraunum til að tengja leikana við viðskiptahagsmuni af nokkru tagi.[11] Brundage taldi að slík tengsl gætu haft óheppileg áhrif á ákvarðanatöku nefndarinnar.[11] Andstaða hans þýddi að landsnefndirnar sáu sjálfar um styrktarsamninga og notkun á merkjum Ólympíuleikanna.[11] Þegar hann dró sig í hlé voru eignir alþjóðanefndarinnar metnar á 2 milljónir dala. Átta árum síðar höfðu þessar eignir vaxið í 45 milljónir.[11] Ástæðan var fyrst og fremst breyting á afstöðu nefndarinnar til styrktarsamninga og sölu á útsendingarrétti.[11] Þegar Juan Antonio Samaranch var kjörinn forseti nefndarinnar árið 1980 var það stefna hans að nefndin yrði fjárhagslega sjálfstæð.[13]

Sumarólympíuleikarnir 1984 mörkuðu þáttaskil í sögu Ólympíuleikanna. Skipulagsnefndin í Los Angeles, undir stjórn Peter Ueberroth, náði að skila 225 milljón dala hagnaði, sem var metupphæð á þeim tíma.[14] Skipulagsnefndinni tókst þetta meðal annars með sölu einkaréttarsamninga til valdra fyrirtækja.[14] Alþjóðanefndin reyndi í kjölfarið að taka þessa styrktarsamninga yfir. Samaranch stofnaði The Olympic Program (TOP) árið 1985 til að skapa alþjóðlegt vörumerki í kringum leikana.[12] Aðild að TOP var, og er, mjög dýr og eftirsótt. Fjögurra ára aðild kostaði 50 milljónir dala.[13] Meðlimir TOP fengu einkarétt á auglýsingum um allan heim í sínum vöruflokki, og leyfi til að nota ólympíumerkið, ólympíuhringina, í auglýsingum og annarri útgáfu.[15]

Konur á Ólympíuleikum

[breyta | breyta frumkóða]
Konur keppa í sundi á Ólympíuleikunum í París 1924

Á fyrstu Ólympíuleikunum, árið 1896, fengu konur ekki að taka þátt. Þegar leikarnir voru stofnaðir sagði Pierre de Coubertin frá skoðun sinni sem var sú að Ólympíuleikar með konum myndu vera „ópraktískir, óáhugaverðir, ósmekklegir og ósæmilegir.“[16] Hann sagði einnig að Ólympíuleikarnir hefðu verið stofnaðir til fyrir „hátíðlega og reglubundna upphafningu karlkyns íþróttamennsku“ og með aðdáun kvenna sem verðlaun.[17] Skoðun Coubertin var mjög algeng meðal karla á þessum tíma því það þótti ekki við hæfi að konur stunduðu íþróttir. Meðal annars var talið að kvenlíkaminn þyldi ekki álagið sem fylgdi íþróttaiðkun.

Árið 1900 voru þó 22 konur sem fengu að taka þátt á leikunum í París en þær fengu aðeins að keppa í 5 íþróttum; tennis, siglingum, krokket, hestamennsku og golfi.

Árið 1948 tóku íslenskar íþróttakonur þátt á Ólympíuleikum í fyrsta sinn, þær Anna Ólafsdóttir, Kolbrún Ólafsdóttir og Þórdís Árnadóttir. Þær kepptu allar í 200 m bringusundi en ekki var skráð hvernig þeim gekk í keppninni. Engin kona íslensk kona keppti á Ólympíuleikum fyrr en í Róm 12 árum seinna þegar Ágústa Þorsteinsdóttir keppti í 100 m skriðsundi.[18]

Árið 2000 náði Vala Flosadóttir 3. sæti í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney þar sem hæsta stökk hennar var 4,5 metrar, sem var einnig Íslands- og Norðurlandamet. Hún var fyrst íslenskra kvenna til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum.[19]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Overview of Olympic Games“. Encyclopædia Britannica. Sótt 4. júní 2008.
  2. „No Boycott Blues“. olympic.org. Sótt 6. janúar 2017.
  3. „Rio 2016 Summer Olympics - results and video highlights“. International Olympic Committee. 17. apríl 2018. Sótt 23. nóvember 2019.
  4. „PyeongChang Olympics | Next Winter Games in Korea“. International Olympic Committee. 18. september 2019. Sótt 23. nóvember 2019.
  5. 5,0 5,1 „Olympic Marketing Fact File, 2011 Edition“ (PDF). olympic.org. bls. 18. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 12. ágúst 2011. Sótt 22. desember 2015.
  6. Paul, Franklin (12. október 2007). „Kodak to end Olympics sponsorship after 2008 games“. Reuters.
  7. „No more Kodak moments in the Olympics“. disruptiveinnovation.se. 15. apríl 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. apríl 2019. Sótt 23. nóvember 2019.
  8. „Wildly interesting facts about London you never knew, until now“. ITV News. 4. desember 2015.
  9. „The History of OXO“. oxo.co.uk. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. mars 2018. Sótt 23. nóvember 2019.
  10. Alex (5. febrúar 2013). „Form and Surface: Odol“.
  11. 11,0 11,1 11,2 11,3 11,4 11,5 11,6 Cooper-Chen 2005, bls. 231.
  12. 12,0 12,1 12,2 „Issues of the Olympic Games“. Olympic Primer. LA84 Foundation of Los Angeles. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. apríl 2009. Sótt 30. mars 2009.
  13. 13,0 13,1 13,2 Buchanon & Mallon 2006, bls. ci.
  14. 14,0 14,1 Findling & Pelle 2004, bls. 209.
  15. Slack 2004, bls. 194.
  16. Rasheed, Zaheena. „Why sexism is still a problem at the most 'gender-equal' Olympics“. Al Jazeera (enska). Sótt 5. apríl 2024.
  17. Rasheed, Zaheena. „Why sexism is still a problem at the most 'gender-equal' Olympics“. Al Jazeera (enska). Sótt 5. apríl 2024.
  18. „Keppendur á Sumarólympíuleikum“. www.isi.is. Sótt 5. apríl 2024.
  19. „Vala Flosadóttir“. www.isi.is. Sótt 5. apríl 2024.
  Þessi íþróttagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.