Fara í innihald

Pierre de Coubertin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pierre de Coubertin
Coubertin barón um miðjan þriðja áratuginn
Fæddur1. janúar 1863
Dáinn9. febrúar 1937 (74 ára)
ÞjóðerniFranskur
StörfÍþróttaforkólfur
Þekktur fyrirað vera stofnandi Ólympíuleikanna

Charles Pierre de Frédy eða Pierre de Coubertin barón (1. janúar 18632. september 1937) var franskur aðalsmaður og íþróttafrömuður. Hann var hvatamaður íþróttakennslu í frönskum skólum og var aðalhvatamaður að stofnun Ólympíuleika nútímans.

Ævi og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Pierre de Frédy fæddist á nýársdag árið 1863, fjórði sonur foreldra sinna. Hann var stórættaður og höfðu forfeður hans hlotið aðalsnafnbót úr hendi Loðvíks 11. á fimmtándu öld. Faðir hans var myndlistarmaður og gallharður konungssinni og íhaldsmaður sem var sérstaklega í nöp við valdatöku Napóleons 3.. Heimsmynd sonarins var talsvert öðruvísi. Í uppvexti sínum upplifði hann niðurlægjandi ósigur þjóðar sinnar í Fransk-prússneska stríðinu, stofnun Parísarkommúnunnar og þriðja lýðveldisins. Margir ungir Frakkar litu svo á að land þeirra væri að dragast aftur úr nágrannaríkjunum og að leita yrði nýrra aðferða til að leiða Frakkland á ný til vegs og virðingar.

Coubertin varð snemma áhugasamur um menntamál og taldi að úrbætur í skólamálum væri lykillinn að því að koma Frakklandi aftur í fremstu röð. Árið 1883, tvítugur að aldri, heimsótti hann Bretland til að kynna sér kennslustefnu þarlendra. Hann sannfærðist um að styrkur breska skólakerfisins lægi í mikilli áherslu á íþróttaiðkun, einkum í heimavistarskólum drengja. Sérstök fyrirmynd hans var Thomas Arnold skólastjóri í Rugby-drengjaskólanum og þá einkum sú rómantíska mynd sem hann hafði dregið upp af lífi breskra skóladrengja í skáldsögunni Tom Brown's School Days frá árinu 1857. Sú bók átti stóran þátt í að festa í sessi hugmyndina um að stífar íþróttaæfingar ættu stærstan þátt í að móta skapgerð breskra karlmanna úr efri stéttum og væru því ástæðan fyrir hernaðarlegum og efnahagslegum yfirburðum Breta. Sjálfur var Coubertin virkur þátttakandi í íþróttum og var til að mynda dómari í úrslitaleik fyrstu Frakklandskeppninnar í ruðningi.

Líkt og aðrir menntamenn sinnar tíðar, sá Coubertin menningu forn-Grikkja í hillingum. Að hans mati höfðu Grikkir náð fullkomnun með því að leggja áherslu á bæði andlegar og líkamlegar menntir, þar sem heimspeki og vísindastarf þrifust samhliða íþróttakeppnum, þar sem Ólympíuleikana fornu bar hæst. Þeirri hugmynd skaut því snemma niður hjá Coubertin að rétt væri að endurvekja Ólympíuleikana og leiða þar saman unga afburðamenn frá ýmsum löndum. Hugmyndin var þó ekki alveg ný af nálinni. Í Englandi hafði læknirinn William Penny Brookes um langt árabil staðið fyrir íþróttakeppni sem kölluð var Ólympíuleikar og þeir Brookes og Coubertin voru í nokkrum samskiptum. Þá voru á árunum 1859-75 haldnir þrennir íþróttaleikar í Aþenu sem kallaðir voru Ólympíuleikar Zappas eftir stofnenda þeirra.

Ólympíuhreyfingin stofnsett

[breyta | breyta frumkóða]

Með tímanum fangaði hugmyndin um endurreisn Ólympíuleikanna hug Coubertin allan. Frá því um 1889 fór hann öllum árum að vinna hugmyndinni fylgis og kom upp öflugu tengslaneti í því skyni, jafnt við íþróttaforkólfa sem þjóðhöfðingja og stjórnmálafólk. Árið 1894 efndi hann til mikillar alþjóðlegrar ráðstefnu í París í þessu skyni. Í hans huga ættu hinir endurreistu Ólympíuleikar að vera haldnir á fjögurra ára fresti, líkt og upprunalegu leikarnir, en í stað þess að fara ætíð fram á sama stað skyldu þeir færast milli stórborga veraldar með keppendur frá öllum heimshornum.

Engin stór alþjóðleg íþróttamót höfðu verið haldin þegar hér var komið sögu og ljóst að kostnaðurinn yrði mikill. Sjálfur sá Coubertin fyrir sér að fæðingarborg hans París myndi vera í hlutverki gestgjafa á fyrstu Ólympíuleikunum, sem e.t.v. mætti halda aldamótaárið 1900. Í ljós kom hins vegar að yfirvöld í Grikklandi og ekki hvað síst konungurinn Georg 1. voru áhugasöm um að halda leikana í Aþenu til að efla þjóðerniskennd heimamanna og koma Grikklandi á heimskortið. Fyrstu nútímaólympíuleikarnir fóru því fram í Aþenu 1896 og vöktu mikla athygli þótt íþróttaafrekin á leikunum hafi ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir.

Á þinginu í París 1894 hafði Coubertin barón látið kjósa Grikkjann Demetrius Vikelas sem fyrsta forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar en sjálfur látið nægja að stjórna bak við tjöldin. Tveimur árum síðar tók hann hins vegar formlega við valdataumunum og átti eftir að sitja á forsetastóli í nærri þrjá áratugi, til 1925. Allan þann tíma var hann langáhrifamesti einstaklingurinn innan Ólympíuhreyfingarinnar og réð flestu því sem hann vildi ráða.