Ólympíuleikar Zappas

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Ólympíuleikar Zappas voru íþróttaleikar sem haldnir voru í Aþenu árin 1859, 1870 og 1875 undir heitinu Ólympíuleikar, þótt þeir séu í dag ekki viðurkenndir sem slíkir. Í seinni tíð eru mót þessi yfirleitt kennd við forsprakka þeirra, gríska auðkýfinginn Evangelis Zappas. Eru leikarnir taldir mikilvægir í sögu endurreisnar Ólympíuleikanna.

Upphaf og aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Ottó Grikklandskonungur lagði blessun sína yfir Ólympíuleika Zappas.

Grísk þjóðernishyggja efldist mjög um og fyrir miðja nítjándu öld. Mikilvægur þáttur hennar var að dusta rykið af ýmsum hefðum frá gullaldarskeiði Grikklands til forna. Hugmyndin um endurreisn Ólympíuleikanna kom fram á fjórða áratug nítjándu aldar og var haldið á lofti af rómantískum skáldum. Ekki voru allir þó jafnhrifnir af hugmyndinni, sem ýmsir töldu til marks um fortíðarþrá og að Grikkir ættu fremur að horfa til framtíðar en að eltast við löngu horfnar hátíðir.

Kaupsýslumaðurinn Evangelis Zappas, einn ríkasti maður Austur-Evrópu á sinni tíð, heillaðist af þessum hugmyndum og bauð grískum stjórnvöldum árið 1856, að kosta slíka leika. Ottó Grikklandskonungur veitti að lokum samþykki sitt fyrir að settir yrðu á stofn leikar, sem halda skyldi á fjögurra ára fresti og kenna mætti við Ólympíu.

Leikarnir 1859[breyta | breyta frumkóða]

Þann 15. nóvember 1859 voru þessir nýju Ólympíuleikar settir í fyrsta sinn. Keppendur voru allir af grísku bergi brotnir og voru þeir ýmist íbúar Grikklands eða hluti af gríska þjóðarbrotinu í veldi Óttómana. Þar sem Panaþenaíkóleikvangurinn hafði ekki verið endurnýjaður, fór keppnin fram á stóru togi í miðborginni. Aðstæður voru þar erfiðar og áhorfendur sáu lítið af því sem fram fór. Þá var kalt í veðri um þessar mundir.

Íþróttamennirnir voru sérkennilegur samtíningur. Öllum var frjálst að skrá sig og þar sem peningaverðlaun voru í boði, ákváðu margir að spreyta sig þrátt fyrir að hafa enga reynslu af íþróttum. Keppnisgreinarnar voru valdar með það í huga að líkja eftir íþróttum fornaldarinnar. Keppt var í hlaupi, stökki, fangbrögðum, spjótkasti, kringlukasti og stauraklifri.

Sigurlaunin í einni keppnisgreininni voru gefin af Englendingurinn Dr. William Penny Brookes, sem stóð um svipað leyti fyrir tilraun til að stofnsetja Ólympíuleika í Bretlandi. Brookes átti síðar eftir að koma við sögu í aðdragandanum að stofnun Ólympíuhreyfingarinnar og hvetja franska baróninn Pierre de Coubertin til dáða.

Leikarnir 1870[breyta | breyta frumkóða]

Gríski auðkýfingurinn Evangelis Zappas.

Evangelis Zappas lést 1865 og lifði því aðeins að sjá fyrstu íþróttaleikana. Erfðaskrá hans tryggði hins vegar talsvert fé til að halda áfram endurgerð Panaþenaíkóleikvangsins og lauk því verki árið 1869. Tók völlurinn þá 30.000 áhorfendur, sem þótti geysimikið á þeim tíma. Ákveðið var að efna til nýrra leika á nýuppgerðum leikvanginum síðla árs 1870.

Íþróttamótið var sett 1. nóvember, en vegna kulda varð að fresta allri keppni um hálfan mánuð. Öllu formlegri bragur var á þessum leikum en hinum fyrri, þannig kepptu íþróttamennirnir í búningum og keppendur voru látnir sverja eið þar sem þeir lofuðu að hafa ekki rangt við. Fyrir sjálfa leikana var haldin forkeppni, til að tryggja að allir þátttakendur yrðu frambærilegir. Að lokum kepptu 31 íþróttamaður sín á milli á leikunum. Samliða mótinu var verðlaunasamkeppni, þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir listgreinar.

Leikarnir þóttu takast vel. Áhorfendur voru margir og var keppnin lofuð í dagblöðum. Keppendurnir voru sem fyrr allir frá Grikklandi eða gríska þjóðarbrotinu í Ottómanaveldinu.

Leikarnir 1875[breyta | breyta frumkóða]

Þótt áhorfendur kynnu vel að meta leikana 1870, voru ekki allir á sama máli um ágæti þeirra. Meðal sigurvegara höfðu verið menn úr alþýðustétt, svo sem slátrari og verkamaður. Töldu ýmsir heldri borgarar að slíkt væri óhæfa og að íþróttamennirnir ættu einungis að koma úr efstu lögum samfélagsins.

Skipulagning þriðju leikanna, árið 1875, var í höndum Ioannis Fokianos, sem var yfirmaður íþróttamála í Grikklandi. Hann tók þá ákvörðun að banna lágstéttarmönnum að keppa. Íþróttamennirnir, 24 talsins, voru betur þjálfaðir en í fyrri skiptin. Áhorfendur kunnu þó illa að meta að forréttindastéttin væri látin einoka leikana. Spruttu af því harðar deilur sem leiddu til þess að fallið var frá frekara mótshaldi.

Fjórðu leikarnir?[breyta | breyta frumkóða]

Íþróttahofið Zappeion var hannað af danska arkitektinum Theophil von Hansen og var meðal annars notað á Sumarólympíuleikunum 1896.

Árið 1888 lauk vinnu við Zappeion, íþrótta- og samkomumiðstöð í Aþenu sem reist var fyrir fé sem Evangelis Zappas hafði ánafnað til verkefnisins í erfðaskrá sinni. Var mannvirkið meðal annars notað fyrir skylmingarkeppni fyrstu nútímaólymíuleikanna árið 1896.

Ioannis Fokianos varð forstöðumaður þessarar nýju íþróttamiðstöðvar og stóð hann fyrir leikum vorið 1889 sem kallaðir voru Ólympíuleikar, þrátt fyrir að vera ekki á vegum nefndarinnar sem skipulagði fyrri íþróttamótin. Um þrjátíu íþróttamenn úr heldri stéttum kepptu á leikunum í fjölda greina, en aðgangur áhorfenda var afar takmarkaður. Deilt er um hvort telja skuli þetta mót sem fjórðu Ólympíuleika Zappas og er því yfirleitt sleppt í upptalningum.