Fara í innihald

Ívan Búnín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ivan Bunin)
Ívan Búnín

Ívan Aleksejevítsj Búnín (22. október 18708. nóvember 1953) var rússneskur rithöfundur. Hann varð árið 1933 fyrsti Rússinn til að hljóta Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Líf og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Ívan Búnín var af aðalsættum og meðal ættmenna hans voru mikilsmetnir rithöfundar, þar á meðal skáldkonan Anna Búnína, sem talin er fyrsti rússneski rithöfundurinn til að hafa skáldskap að atvinnu. Hann hlaut menningarlegt uppeldi og átti greiðan aðgang að ýmsum framámönnum í rússnesku listalífi.

Búnín reyndi fyrir sér sem embættismaður en hóf fljótlega að vinna við blaðaútgáfu auk þess sem hann sendi frá sér ljóð og sögur sem mæltust vel fyrir. Um þrítugt hófst náinn vinskapur hans við skáldjöfurinn Maxim Gorkí sem stóð þar til upp úr slitnaði vegna stjórnmálaágreinings í tengslum við rússnesku byltinguna. Af öðrum kunnum rithöfundum sem Bunin var í vinfengi við má nefna Anton Tsjekhov og Lev Tolstoj.

Á upphafsárum tuttugustu aldar tók Búnín að gera sig gildandi í rússnesku bókmenntalífi, meðal annars með ljóðaþýðingum breskra og bandarískra höfuðskálda. Árið 1912 sendi hann svo frá sér smásöguna Manninn frá San Fransisco sem telja má hans kunnasta verk.

Þegar borgarastyrjöldin braust út í kjölfar rússnesku byltingarinnar tók Búnín afstöðu með hvítliðum á móti bolsévikum. Í kjölfarið hrökklaðist hann úr landi og bjó upp frá því sem útlagi, lengst af í Frakklandi. Nóbelsverðlaunin árið 1933 urðu til að vekja mikla athygli á Búnín utan rússneska samfélagsins í menningarlífi Parísar, en stjórnvöld í Moskvu tóku fregnunum illa og litu á viðurkenninguna sem samsæri heimsvaldasinna. Voru verk listamannsins bönnuð í Sovétríkjunum en höfðu engu að síður áhrif á ýmsa sovéska höfunda.

Eftir síðari heimsstyrjöldina milduðust viðhorf Búnín til Sovétstjórnarinnar og jafnvel stóð til að heimila útgáfu á verkum hans þar austur frá, en horfið var frá því eftir að höfundurinn sendi frá sér æviminningabók með harðri gagnrýni á stjórnkerfi kommúnismans. Ívan Búnín var því enn bannaður í Sovétríkjunum þegar hann lést árið 1953, en árið 1965 varð hann fyrsti útlagarithöfundurinn sem fékkst gefinn út þar í landi.

Maðurinn frá San Fransisco birtist í íslenskri þýðingu Sveins Sigurðssonar í Eimreiðinni árið 1934.