Fara í innihald

Mo Yan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mo Yan
莫言
Mo Yan
Mo Yang árið 2008.
Fæddur: 17. febrúar 1955 (1955-02-17) (69 ára)
Gaomi, Shandong, Kína
Starf/staða:Rithöfundur, kennari
Þjóðerni:Kínverskur
Virkur:1981 –
Bókmenntastefna:Félagslegt raunsæi, töfraraunsæi
Maki/ar:Du Qinlan (杜勤兰) (g. 1979)
Börn:Guan Xiaoxiao (管笑笑) (f. 1981)
Undir áhrifum frá:Lu Xun, William Faulkner, Gabriel García Márquez

Guan Moye (f. 17. febrúar 1955), betur þekktur undir skáldanafninu Mo Yan (莫言, pinyin: Mò Yán) er kínverskur rithöfundur sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2012 fyrir „ofskynjunarkennt raunsæi sem bræði saman þjóðsögur, fortíð og samtíð“. Höfundarnafn hans merkir „Ekki tala“.[1] Hann gegndi þjónustu í kínverska hernum árið 1976 og byrjaði að skrifa sín fyrstu verk á meðan hann var hermaður. Verk Mo Yan gerast flest í heimahéraði hans, Shandong, og einkennast af töfraraunsæi.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Guan Moye fæddist árið 1955 í norðausturhluta Gaomi í héraðinu Shandong í austanverðu Kína. Á tíma menningarbyltingarinnar var hann neyddur til að hætta í skóla vegna þess að ættingjar hans tilheyrðu landeignarstéttinni.[2] Hann hóf því störf í textíliðnaðinum eftir aðeins fimm ára skólagöngu og ólst upp án verulegrar innrætingar í bókmenntum. Hann varð engu að síður fyrir miklum áhrifum af sagnahefð bændanna í héraðinu. Þegar Guan Moye var 21 árs flutti hann úr landsbyggðinni í leit að betra lífi.[3] Þrátt fyrir millistéttarbakgrunn sinn hlaut Guan Moye inngöngu í kínverska herinn og öðlaðist þannig möguleika á háskólanámi. Samhliða herþjónustu vann hann að menningarstörfum hjá ríkinu og tók síðar upp kennarastörf. Hann lauk herþjónustu árið 1997.[2]

Guan Moye tók upp skáldanafnið Mo Yan („Ekki tala“) og gaf út fyrsta verk sitt árið 1981. Það var skáldsagan Rauða dúrran (紅高粱家族; pinyin: Hóng Gāoliáng Jiāzú) frá árinu 1987 sem varð Mo Yan fyrst til verulegrar frægðar, en sagan gerðist í brugghúsi fyrir dúrrubjór. Bókin vakti jafnframt athygli erlendis, sér í lagi eftir að út kom kvikmynd byggð á henni í leikstjórn Zhang Yimou sama ár og vann Gullbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín.[2]

Mo Yan varð einn af kunnustu rithöfundum Kína. Bækur hans voru gefnar út í um 200.000 eintaka upplögum á heimamarkaðinum og voru þýddar á mörg tungumál. Margar bækur hans fjalla um svipuð félagsleg málefni og innihalda gagnrýni á kommúnistastjórn Kína, bæði í sögulegu samhengi og frá sjónarhorni samtímans. Mo Yan er þó sjálfur meðlimur í Kommúnistaflokki Kína og hefur vísað til þess að það myndi vekja óþarfar spurningar og neikvæða athygli ef hann segði sig úr honum.[2]

Árið 2012 tók Mo Yan þátt í að rita blaðsíðu í afmælisriti þar sem hundrað kínverskir rithöfundar handskrifuðu ræðu um menningarmál sem Maó Zedong hafði flutt í Yan'an sjötíu árum fyrr. Í ræðunni lagði Maó meðal annars fram þá kröfu að kínverskar bókmenntir yrðu að þjóna hugmyndafræði kommúnistaflokksins.[4] Kínverskir andófsmenn gagnrýndu Mo Yan fyrir þátttöku hans í gerð afmælisritsins og bentu á að ræðan hefði markað upphaf kúgunar á mennta- og málfrelsi í Kína.[5]

Í febrúar árið 2013 var Mo Yan útnefndur í ráðgjafarráðstefnu kínversku þjóðarinnar.[6]

Þegar Mo Yan vann til bókmenntaverðlauna Nóbels árið 2012 vakti það nokkra gagnrýni. Herta Müller, sem hafði fengið verðlaunin árið 2009, benti á að Mo Yan væri embættismaður í sama virðingarþrepi og ráðherra og hefði lagt blessun sína við ritskoðun. Það að hann, sem varaformaður kínverska rithöfundasambandsins, hlyti verðlaunin á meðan friðarverðlaunahafinn Liu Xiaobo sæti enn í fangelsi sagði Müller jafngilda löðrungi í andlitið á þeim sem berðust fyrir lýðræði og mannréttindum í Kína.[7]

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta útgefna ritverk Mo Yan kom út árið 1981 en það var með skáldsögunni Touming de hong luobo 1986 sem hann náði fyrst verulegum vinsældum. Hann vakti síðan meiri athygli með skáldsögunni Rauðu dúrrunni (1987), þar sem hann fjallaði um stigamennsku, hernám Japana og fátækt á kínversku landsbyggðinni á þriðja og fjórða áratugnum. Hvítlauksballöðurnar (1988) og háðsádeilan Jiuguo (1992) voru beitt gagnrýni á kínverskt samtímasamfélag. Í bókinni Ximen Nao og lífin hans sjö (2006) fjallaði Mo Yan með svörtum húmor um afleiðingar eins barns stefnunnar. Mo Yan hefur einnig gefið út fjölmargar smásögur og ritgerðir.

Skáldsögur Mo Yan einkennast af töfraraunsæi sem blandar saman draumum og veruleika og gerast allar í heimahéraði höfundarins. Hann er undir áhrifum frá höfundum á borð við Gabriel García Márquez og William Faulkner.[8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Mo Yan hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels“. Vísir. 12. október 2012. Sótt 4. nóvember 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Bertrand Mialaret (24. júní 2009). „L'écrivain Mo Yan, de la dictature du Parti à celle du marché“ (franska). Rue89 Culture. Sótt 5. nóvember 2021.
  3. Bernhard Bartsch (10. júní 2009). „Interview mit dem chinesischen Autor Mo Yan: 'Chinas Wahrheit ist nicht elegant' (þýska). Frankfurter Rundschau. Sótt 5. nóvember 2021.
  4. Johnny Erling (11. október 2012). „Mo Yans Verbeugung vor Kulturzerstörer Mao Zedong“ (þýska). Die Welt. Sótt 5. nóvember 2021.
  5. „Mo Yan kritiserad för Mao-text“. Svenska Dagbladet. 11. október 2012. Sótt 5. nóvember 2021.
  6. "Mo Yan blir politisk rådgivare", Svenska Dagbladet, 4. febrúar 2013.
  7. „Müller ósátt við Mo Yan“. RÚV. 25. nóvember 2012. Sótt 9. nóvember 2021.
  8. nobelprize.org