Míkhaíl Sholokhov

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Míkhaíl Sholokhov

Míkhaíl Aleksandrovítsj Sholokhov (24. maí 190521. febrúar 1984) var sovéskur rithöfundur sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1965.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Míkhaíl Sholokhov fæddist í smáþorpi í Rostovfylki, en héraðið var í tíð rússneska keisaradæmisins kennt við Don-kósakka, þjóðarbrot kósakka sem kennt var við fljótið Don. Hann var ekki af háum stéttum, til að mynda lærði móðir hans ekki að lesa og skrifa fyrr en á fullorðinsárum. Foreldrar hans voru bæði aðkomufólk og töldust því ekki til Don-kósakka sem einir fengu að kjósa embættismenn og stóðu almennt betur í samfélaginu.

Sholokhov hætti í skóla þrettán ára gamall árið 1918 til að ganga til liðs við sveitir bolsévika í rússnesku borgarastyrjöldinni og barðist með þeim næstu árin. Í heimahéraði hans höfðu kósakkar tilhneigingu til að styðja hvítiliða en réttlausa aðkomufólkið skipaði sér frekar í sveit með rauðliðum.

Að borgarastyrjöldinni lokinni hélt Sholokhov til Moskvu og hugðist leggja fyrir sig blaðamennsku og ritstörf, þótt hann þyrfti í fyrstu að framfleyta sér með verkamannavinnu. Árið 1924 flutti hann aftur til heimaslóðanna, kvæntist og sneri sér að ritstörfum fyrir alvöru. Frá 1925 til 1940 skrifaði hann sitt langfrægasta verk, Lygn streymir Don (Rússneska: Тихий Дон), sem segir í fjórum bindum frá sögu og lífsbaráttu Don-kósakkaþjóðarinnar á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar og fram yfir borgaratríðið. Bókin var þýdd á fjölda tungumála, þar á meðal íslensku í þýðingu Helga Sæmundssonar.

Lygn streymir Don sló í gegn strax við útkomu fyrsta bindis og varð Sholokhov einhver dáðasti rithöfundur Sovétríkjanna. Hann komst í kynni við valdamestu menn ríkisins og var einn fárra sem þorði að segja sjálfum Stalín skoðanir sínar umbúðalaust, þannig kom hann því til leiðar að spilltum embættismönnum í heimahéraði hans væru vikið frá störfum og að vistir væru sendar til héraðsins í tíð hungursneyðarinnar í Sovét-Úkraínu. Var þetta ekki eina dæmið um að hann stæði upp í hárinu á stjórnvöldum, sem fáir listamenn komust upp með.

Hann fékk Nóbelsverðlaunin árið 1965, en um það leyti var verulega farið að draga úr afköstum hans á ritvellinum. Þess í stað lagðist hann í ferðalög og vann að verki sem aldrei kom út en átti að fjalla um baráttu sovésku þjóðarinnar í seinni heimsstyrjöldinni. Hann lést árið 1984 eftir baráttu við krabbamein.