Eyvind Johnson
Eyvind Johnson, fæddur Olof Edvin Verner Jonsson, (29. júlí 1900 – 25. ágúst 1976) var sænskur rithöfundur sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1974.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Johnson fæddist í smáþorpi í grennd við Boden norðarlega í Svíþjóð. Hann hætti í skóla um þrettán ára aldurinn og sinnti eftir það ýmsum verkamannastörfum. Nítján ára að aldri fluttist hann til Stokkhólms þar sem hann hóf að birta greinar í blöðum stjórnleysingja. Í höfuðborginni komst hann í kynni við rithöfunda úr öreigastétt.
Fyrstu skáldsögur hans komu út um miðjan þriðja áratuginn, en hann sló fyrst í gegn með bókaflokknum Romanen om Olof, sem voru fjórar sjálfsævisögulegar bækur um ungan mann og uppvöxt hans í Norður-Svíþjóð er komu út á árunum 1934-37. Johnson var gallharður andstæðingur nasisma og fasisma og ritaði kröftuglega gegn þeim í fjölda greina og bóka.
Að stríðinu loknu varði Johnson mörgum árum víðs vegar í Evrópu ásamt fjölskyldu sinni. Árið 1946 sendi hann frá sér verkið Strändernas svall sem lýsir endurkomu grísku kempunnar Ódysseifs til Íþöku. Varð það ein hans allra vinsælasta bók.
Árið 1974 hlutu þeir Eyvind Johnson og Harry Martinson bókmenntaverðlaun Nóbels. Var sú ákvörðun umdeild þar sem ýmsir kunnir rithöfundar höfðu verið orðaðir við verðlaunin það árið en þeir Johnson og Martinson áttu báðir sæti í Nóbelsnefndinni.