Maurice Maeterlinck
Maurice Maeterlinck (29. ágúst 1862 – 6. maí 1949) var belgískt leikskáld og rithöfundur. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1911.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Hann fæddist í borginni Gent inn í efnamikla frönskumælandi fjölskyldu. Foreldrarnir sendu hann til náms í kristilegum skóla, þar sem rómantískur skáldskapur var litinn hornauga og einungis trúarleg ljóð og sögur lesnar. Fyrir vikið varð Maeterlinck afar andsnúinn hvers kyns trúarkreddum og þröngsýni.
Að kröfu föður síns lauk hann prófi í lögfræði en hugurinn stóð til bókmennta og lista. Fyrsta leikrit hans var frumsýnt árið 1890 og fékk góða dóma og viðtökur áhorfenda. Hann var afkastamikill og sendi frá sér fjölmörg verk á næstu árum, sem mörg hver áttu það sameiginlegt að hafa að geyma sterkar kvenpersónur sem ekki var algengt í leikritun þeirra tíma. Árið 1908 sendi hann svo frá sér verkið Bláa fuglinn (franska: L'Oiseau bleu) sem varð það leikrit hans sem mestum vinsældum náði, hefur verið margoft kvikmyndað og samin eftir því ópera.
Þegar Þjóðverjar réðust inn í Belgíu árið 1914 hugðist Maeterlinck ganga í frönsku útlendingaherdeildina en var hafnað vegna aldurs. Hann bjó í Frakklandi öll stríðsárin og gagnrýndi yfirgang Þjóðverja og lofsöng hetjulund belgísku þjóðarinnar í ræðu og riti. Að fyrri heimsstyrjöldinni lokinni reyndi hann fyrir sér sem handritshöfundur í Hollywood en með litlum árangri. Eftir 1920 dró mjög úr ritstörfum Maeterlinck. Hann var aðlaður af Alberti 1. og hafðist upp frá því við á setri sínu í Frakklandi ef undan eru skilin nokkur ár í útlegð Bandaríkjunum meðan á hernámi Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni stóð. Maeterlinck lést árið 1949.
Leikverk eftir Maeterlinck hafa orðið mörgum tónskáldum yrkisefni og hefur fjöldinn allur af óperum, bæði fyrir börn og fullorðna, verið saminn eftir þeim.