Selma Lagerlöf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Selma Lagerlöf árið 1909

Selma Ottilia Lovisa Lagerlöf (20. nóvember 185816. mars 1940) var sænskur rithöfundur. Hún var fyrsta konan sem var tekin inn í Sænsku Akademíuna (Svenska Akademien) og fyrsta konan sem hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels, en hún tók við þeim árið 1909. Hún var auk þess fyrsti Svíinn sem þessi verðlaun hlaut.

Selma fæddist í Mårbacka í Vermalandi. Hún var veik í æsku, en hafði gaman af að lesa og ákvað ung að verða rithöfundur. Hún starfaði lengi sem kennari, en eftir að hafa sigrað verðlaunasamkeppni í tímaritinu Idun tók hún að skrifa skáldsögu í fullri lengd. Það var Gösta Berlings saga sem út kom 1891. Bókin fékk misjafnar undirtektir, en telst nú til klassískra sænskra bókmennta. Frægust bóka hennar er þó Nilli Hólmgeirsson og ævintýraför hans um Svíþjóð (Nils Holgerssons underbara resa genom Sverige) sem út kom á árunum 1906-1907. Bókin átti í fyrstu aðeins að vera dulin landafræðikennsla sem aðalpersónan Nilli rammar inn með sögu sinni og ferðalagi um Svíþjóð á baki gæsa. En bókin var þýdd á fjölda tungumála og lesin víða. Meðal annarra frægra verka Selmu mætti nefna Jerúsalem (útg. 1901-1902), sem hún skrifaði eftir að hafa ferðast um Miðausturlönd með vinkonu sinni, Sophie Elkan. Auk þess mætti nefna bók hennar Föðurást: saga frá Vermalandi (Kejsarn av Portugallien) sem Björn Bjarnason þýddi og kom út á Íslandi 1918. Sú bók segir af bónda í Vermalandi sem tekur að trúa því eftir að dóttir hans fer að heiman að hann sé Portugalskeisari. Rithöfundurinn P.O. Enquist hefur haldið því fram að bókin sé í raun dulbúin uppreisnarsaga hennar sjálfrar gegn föður sínum, en faðir hennar var á móti að hún færi í framhaldsnám, en hún fór samt. Sköpunarkveikja þeirrar bókar hefur einnig verið sögð vera samviskubit hennar vegna aðgerðarleysis hennar á yngri árum þegar faðir hennar barðist við skuldir og alkólisma, en hið síðarnefnda dró hann til dauða.

Verk Selmu[breyta | breyta frumkóða]

 • Gösta Berlings saga (1891)
 • Osynliga länkar (1894)
 • Antikrists mirakler (1897)
 • Drottningar i Kungahälla (1899)
 • En herrgårdssägen (1899)
 • Jerusalem (1-2 hluti, 1901-1902)
 • Herr Arnes penningar (1904)
 • Kristuslegender (1904)
 • Nils Holgerssons underbara resa genom Sverige (1-2 hluti, 1906-1907)
 • En saga om en saga och andra sagor (1908)
 • Liljecronas hem (1911)
 • Körkarlen (1912)
 • Kejsarn av Portugallien (1914)
 • Troll och människor (1-2 hluti, 1915-1921)
 • Bannlyst (1918)
 • Zachris Topelius (1920)
 • Mårbacka (1922)
 • Löwensköldska ringen (1925)
 • Charlotte Löwensköld (1925)
 • Anna Svärd (1928)
 • Ett barns memoarer (1930)
 • Dagbok för Selma Ottilia Lovisa Lagerlöf (1932)
 • Höst (1933)
 • Meli (1934)
 • Från skilda tider (1-2 hluti, 1943-1945, útg. að henni látinni)

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Verk eftir Selmu á netinu

  Þetta æviágrip sem tengist bókmenntum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.