Fara í innihald

Halle

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Halle
Skjaldarmerki Halle
Staðsetning Halle
SambandslandSaxland-Anhalt
Flatarmál
 • Samtals135,01 km2
Hæð yfir sjávarmáli
88 m
Mannfjöldi
 (2019)
 • Samtals239.000
 • Þéttleiki1.715/km2
Vefsíðawww.halle.de

Halle er stærsta borgin í þýska sambandslandinu Saxlandi-Anhalt með tæpa 240 þúsund íbúa (2019). Hún er þó ekki höfuðborg landsins (sem er Magdeburg). Íbúafjöldinn fer þó snarminnkandi og mun hann innan skamms fara niður fyrir Magdeburg.

Miðborgin í Halle

Halle liggur við ána Saale nær syðst í sambandslandinu og steinsnar fyrir vestan landamærin að Saxlandi. Næstu borgir eru Leipzig til suðausturs (20 km), Magdeburg til norðurs (50 km) og Erfurt til suðvesturs (60 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Halle eru tvær rauðar stjörnur og rauður hálfmáni á hvítum grunni. Merki þetta var tekið upp 1450 en óvíst er um merkingu þess. Kenningar eru uppi um að stærri stjarnan sé sólin, að hún sé merki Maríu mey og að hún sé afbakaður saltkristall.

Germanir nefndu staðinn upphaflega Dobrebora en fljótlega eftir að Karl hamar hertók var farið að kalla bæinn Halla og síðan Halle. Tvær skoðanir eru um merkingu þess. Í fyrsta lagi að það tengist salti, að Salz hafi breyst í Halla (sal verður að hal). Í öðru lagi að um slakka í landslaginu sé að ræða.

Byggðin myndaðist í kringum saltnámur á miðöldum. Þar bjuggu þá ýmsir þjóðflokkar germana, en einnig slavar eins og vindar. Salt var óvíða að fá og því var svæðið mjög eftirsótt. Árið 735 hertók Karl hamar allt héraðið og innlimaði það frankaríkinu. Hann gaf hermönnum sínum saltnámurnar. Árið 806 kemur heitið Halle (eða Halla) fyrst fyrir í skjölum. 968 er biskupsdæmið í Magdeburg stofnað og tilheyrir Halle því allt til 1680. 1281 er Halle í Hansasambandinu. Aðalverslunarvaran er salt. 1503 flutti erkibiskupinn frá Magdeburg í nýreistan kastala í Halle og sitja biskupar þar allt til 1680.

Siðaskipti og stríð

[breyta | breyta frumkóða]
Miðborg Halle árið 1500.

1541 fóru siðaskiptin formlega fram í Halle eftir að Marteinn Lúther hafði sjálfur predikað þar nokkrum sinnum. Halle var á þessum tíma aðsetur biskupsins Albrecht von Brandenburg, sem jafnframt var kardináli. Hann ákvað að yfirgefa borgina í fússi og tók öll verðmæti með sér. Borgin var þaðan í frá stjórnuð af fulltrúa biskupanna. Við andlát Lúthers 1546 var líkami hans geymdur til skamms tíma í Halle. 1625 hertók Wallenstein borgina í 30 ára stríðinu. 1631 náðu Svíar að hrekja keisaraherinn á brott og hertaka borgina. 1680 lést síðasti biskupinn í borginni. Við það varð hún hluti af erkibiskupsdæminu í Brandenborg. 1701 varð borgin sjálf innlimuð í konungsríkið Brandenborg og var gerð að höfuðborg hertogadæmisins Magdeburg til skamms tíma.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]

1806 birtust Frakkar við borgardyrnar. Þeir áttu í orrustu við prússa og sigruðu þá. Í kjölfarið hertóku þeir Halle. Nokkrum dögum síðar sótti Napoleon borgina heim. Hann lét loka háskólanum þar (Alma mater halensis). Ári síðar gaf Napoleon borgina konungsríkinu Vestfalíu. En eftir fall Napoleons 1815 varð hún prússnesk á ný. Síðla á 19. öld óx borgin mjög. 1890 fór íbúafjöldinn yfir 100 þúsund. Í apríl 1891 voru fyrstu rafmagns sporvagnarnir teknir í notkun, en þetta var slíka kerfið í Evrópu. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir óverulegum loftárásum bandamanna. Halle er því ein af fáum stórborgum Þýskalands sem slapp við skemmdir stríðsins. Um miðjan apríl hertóku Bandaríkjamenn borgina, en þeir skiluðu henni til Sovétmanna í júlí, enda í sovéska hernámssvæðinu. Halle varð þá höfuðborg héraðsins Sachsen í eitt ár. Halle var í Austur-Þýskalandi allt til sameiningar Þýskalands 1990. Við sameininguna varð gríðarmikið atvinnuleysi í borginni, þar sem atvinnuvegir áttu í erfiðleikum með að keppa við vestrænan varning. Enn í dag á borgin við erfiðleika að etja og fækkar íbúum enn mjög. Þeir voru 316 þúsund við sameiningu en eru aðeins 233 þúsund í dag. Þetta er ein allra mesta mannfækkun í þýskri stórborg á síðari tímum.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Händelhátíðin í Halle er stærsti tónlistarviðburðurinn í Saxlandi-Anhalt. Hátíðin er til heiðurs Georgs Friedrich Händel, frægasta barni borgarinnar. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 1952 og er haldin árlega í júní.
  • Þjóðhátíð borgarinnar heitir Hallesches Laternenfest, sem er nokkurs konar ljósaganga. Reyndar er margt annað gert í tengslum við hátíðina, sem haldin er árlega síðustu helgina í ágúst.
  • Næststærsta hátíðin í Halle er salthátíðin. Hún var fyrst haldin 1995 og er margt gert sér til dundurs. Einn hápunkturinn er kapphlaup á aðalmarkaðstorginu. Um 200 þúsund manns sækja borgina heim um þessa hátíð, sem haldin er síðustu helgi í september.

Halle viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Rauði turninn er einkennisbygging Halle. Til hægri er Frúarkirkjan.
Dómkirkjan í Halle. Þar var Georg Friedrich Händel organisti meðan hann var ungur.
Hluti af Moritzburg-virkinu
  • Rauði turninn (Roter Turm) er einkennisbygging borgarinnar Halle. Hann var reistur 1418-1506 í miðborginni og þjónaði sem klukkuturn eins og algent er á Ítalíu. Turninn er alls 84 metra hár, hærri en kirkjurnar tvær í miðborginni, og var því hæsta bygging borgarinnar í margar aldir. Heitið Rauði turninn kom upp vegna hins rauða þaks sem upphaflega var úr kopar. Stór og mikil Roland-stytta er áfast turninum. Turninn þjónar enn í dag sem klukkuturn, bæði með kirkjubjöllum og tímaklukku.
  • Hallescher Dom er dómkirkjan í Halle og elsta standandi kirkjuhús borgarinnar. Það voru munkar sem reistu kirkjuna og vígðu hana árið 1300. Hún hét þá St. Paul (Pálskirkja) og var klausturkirkja. 1520 lét biskupinn í Magdeburg breyta kirkjunni og var hún endurvígð þremur árum seinna. Þaðan kemur heitið dómkirkja þótt tæknilega sé hún það ekki. Einkennandi fyrir kirkjuna er að hún er turnlaus, sem er mjög óvenjulegt í Þýskalandi. 1702-3 var Georg Friedrich Händel organisti í þessari kirkju, en þá var hann enn kornungur.
  • Frúarkirkjan er fjögurra turna kirkjan í miðborginni. Hún var reist á 16. öld og hófust siðaskiptin í Halle í henni. Hún er óvenjuleg að því leyti að í kirkjunni er engin kór, heldur tvær turnhliðar, ein að framan og ein að aftan. Lík Lúthers var geymt til skamms tíma í þessari kirkju 1546. Á 18. öld spiluðu Bach-feðgarnir á orgel kirkjunnar.
  • Moritzburg er gamalt kastalavirki í Halle. Það var reist 1484-1503 af erkibiskupnum í Magdeburg sem sjálfur settist að í virkinu. Virkið er í ferningi og er 72 m breitt og 85 metra langt. Það var tekið af mótmælendum 1547. Því réðist Karl V. keisari á það og hertók það ásamt Alba, hinum spænska hertoga. Í 30 ára stríðinu settist Wallenstein í virkið 1625. En 1631 birtist Gústaf Adolf Svíakonungur við Halle og náði að hertaka virkið nær bardagalaust. Seinna á öldum þjónaði virkið sem herspítali í 7 ára stríðinu og í Napoleonsstríðunum. Í dag er virkið safn í eigu borgarinnar.