Fara í innihald

Johann Friedrich Struensee

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Struensee.

Johann Friedrich Struensee (5. ágúst 173728. apríl 1772) var þýskur læknir sem varð líflæknir hins geðsjúka Kristjáns 7. Danakonungs og síðan ráðherra í dönsku stjórninni og hinn raunverulegi stjórnandi ríkisins um tíma og reyndi að koma á ýmsum umbótum. Hann átti í ástarsambandi við drottninguna og var að lokum handtekinn, dæmdur og tekinn af lífi.

Líflæknir

[breyta | breyta frumkóða]

Struensee var prestssonur frá Halle í Þýskalandi. Hann hóf nám í læknisfræði við háskólann í Halle í ágúst 1752, þá fimmtán ára að aldri, og útskrifaðist sem læknir 12. desember 1757. Hann flutti svo til Altona, var þar vinsæll læknir meðal yfirstéttarfólks og vingaðist meðal annars við hóp danskra aðalsmanna sem höfðu verið gerðir brottrækir frá dönsku hirðinni, þar á meðal Enevold Brandt.

Kristján 7., sem líklega var haldinn geðklofa, kom við í Altona þegar hann var að leggja af stað í ferðalag um Evrópu 1768 og tókst þessum hópi tókst að útvega Struensee stöðu sem læknir konungs á ferðalaginu í þeirri von að hann gæti greitt fyrir því að þeir fengju að snúa aftur til hirðarinnar.

Struensee fór með konungi til Hannover, Parísar og London og stóð ferðin frá 6. maí 1768 til 12. janúar 1769. Á þeim tíma urðu þeir konungur mjög nánir og ráðgjafar konungs töldu Struensee hafa jákvæð áhrif á hann og studdu útnefningu hans sem líflæknis konungs þegar þeir komu aftur til Kaupmannahafnar.

Einvaldur og elskhugi

[breyta | breyta frumkóða]

Hin unga drottning, Karólína Matthildur, tók Struensee illa fyrst í stað. Hún var einmana og óhamingjusöm og Struensee var einn fárra sem sinnti henni og reyndi að bæta hag hennar. Smátt og smátt breyttist samband þeirra, ekki síst eftir að hann sannfærði hana um að láta bólusetja krónprinsinn (síðar Friðrik 6.), eftir að bólusóttarfaraldur kom upp í Kaupmannahöfn, og vorið 1770 voru þau orðin elskendur.

Um leið náði hann stöðugt meira valdi yfir konunginum, sem gerði Struensee að helsta ráðgjafa sínum í september um haustið. Næstu sextán mánuðir hafa verið kallaðir Struensee-tímabilið. Geðheilsa konungs fór versnandi og Struensee varð allsráðandi. Fyrst í stað reyndi hann að láta lítið á sér bera en í desember leysti hann ríkisráðið upp, rak fjölda embættismanna og einangraði konung svo að nær enginn annar en hann og Enevold Brandt vinur hans höfðu aðgang að honum.

Struensee var upplýsingarmaður og kom á margívslegum umbótum, afnam meðal annars dauðarefsingar fyrir þjófnað og bannaði notkun pyntinga í yfirheyrslum. Hann kom líka á prentfrelsi. Alls gaf hann út 1069 tilskipanir á tíu mánaða tímabili frá 20. mars 1771.

Stuensees á leið til aftöku. Koparstunga.

Það háði Struensee að hann talaði ekki dönsku og virti ekki danskar siðvenjur. Hann rak fjölda reyndra embættismanna og setti reynslulitla menn í staðinn. Þó voru umbætur hans framan af vinsælar hjá millistéttinni. Hins vegar kunnu Danir ekki að meta hvernig konunginum var ýtt gjörsamlega til hliðar, enda gerðu fæstir utan hirðarinnar sér grein fyrir því hve veikur hann var, töldu hann aðeins áhrifagjarnan og veiklundaðan. Samband Struensee við drottninguna vakti líka mikla hneykslun, þegar það komst í hámæli. Þann 7. júlí 1771 fæddi drottningin dóttur, Lovísu Ágústu, sem allir vissu að Struensee átti þótt hún væri kennd konunginum.

Seint um haustið tók svo hópur manna, í nafni Júlíönu Maríu ekkjudrottningar, stjúpmóður konungs, sig saman um að bylta Struensee af stóli. Látið var tilskarar skríða að afloknum grímudansleik sem haldinn var 16. janúar 1772. Snemma morguninn eftir voru Struensee, Brandt og Karólina Matthildur handtekin. Konungurinn var settur upp í gylltan vagn og ekið með hann um götur Kaupmannahafnar til að sýna að hann hefði verið „frelsaður“ við mikinn fögnuð.

Aðalákæran gegn Struensee var að hann hefði tekið sér vald konungs. Hann varði sig sjálfur fimlega en það kom fyrir ekki, þann 27. eða 28. apríl voru þeir Brandt báðir dæmdir til að missa fyrst hægri hönd sína og svo höfuðið, en líkamar þeirra skyldu settir á hjól og steglu. Dómunum var framfylgt 28. apríl.

Hjónabandi konungs og drottningar var slitið með skilnaði og Karólína Matthildur send í útlegð. Hún sá börn sín aldrei aftur og dó þremur árum síðar.

Konunglegt ástarsamband

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 29. mars 2012 var danska kvikmyndin En kongelig affære frumsýnd, en hún er byggð á ævi Struensees og ástarsamband hans við drottninguna. Mads Mikkelsen leikur aðalhlutverkið í myndinni og hin sænska Alicia Vikander leikur Karólínu Matthildi drottningu. Leikstjóri er Nikolaj Arcel.