Fara í innihald

Georg Friedrich Händel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Händel

Georg Friedrich Händel (23. febrúar 168514. apríl 1759) var þýskt/enskt tónskáld, fiðlu- og orgelleikari. Hann fæddist í Halle í Þýskalandi, en faðir hans var hárskeri og skurðlæknir. Hann hlaut góða menntun og reyndi fyrir sér í lögfræðinámi áður en hann sneri sér alfarið að tónlistinni. Hann lærði bæði orgel- og fiðluleik, en það voru vinsælustu hljóðfæri þess tíma.

Händel hóf starfsferil sinn sem organisti við kalvinska dómkirkju í Halle, en strax árið eftir komst hann að sem fiðluleikari við óperuna í Hamborg. Þar spilaði hann einnig á sembal. Það var í Hamborg sem fyrsta ópera Händels, Almira, var frumsýnd árið 1703. Hann ferðaðist síðan og starfaði á Ítalíu og setti meðal annars upp óperuna Agrippínu í Feneyjum. Verk hans hlutu góða dóma og varð hann brátt þekktur um alla álfuna. Árið 1710 var hann ráðinn hljómsveitarmeistari hjá Georg kjörfusta af Hannover og seinna, þegar furstinn varð Georg 1. Englandskonungur, starfaði hann hjá honum sem hirðtónlistarstjóri og einkakennari dætra hans. Samhliða starfinu í Hannover byrjaði Händel að semja og setja upp óperur í London og eyddi því sem eftir var af starfsævinni þar í borg.

Händel var afkastamikið tónskáld og samdi fjölbreytta tónlist. Eftir hann liggja 40 óperur, einleiksverk fyrir óbó og orgel og nokkrar óratoríur. Verk hans eru dæmi um hvernig veraldleg og trúarleg tónverk urðu sífellt tengdari á þessum tíma.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.