Fara í innihald

Búrkína Fasó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Burkina Faso)
Búrkína Fasó
Burkina Faso
Fáni Búrkína Fasó Skjaldarmerki Búrkína Fasó
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unité, Progrès, Justice (franska)
(Eining, framfarir, réttlæti)
Þjóðsöngur:
Une seule nuit
Staðsetning Búrkína Fasó
Höfuðborg Ouagadougou
Opinbert tungumál Franska
Stjórnarfar Herforingjastjórn

Forseti Ibrahim Traoré
Forsætisráðherra Apollinaire Joachim Kyélem de Tambèla
Sjálfstæði
 • frá Frakklandi 5. ágúst, 1960 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
74. sæti
274.200 km²
0,146
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
58. sæti
21.510.181
64/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 45,339 millj. dala (115. sæti)
 • Á mann 2.207 dalir (172. sæti)
VÞL (2019) 0.452 (182. sæti)
Gjaldmiðill Vesturafrískur CFA-franki
Tímabelti UTC
Þjóðarlén .bf
Landsnúmer +226

Búrkína Fasó er landlukt land í Vestur-Afríku með landamæri að Malí í norðri, Níger í austri, Benín í suðaustri, Tógó og Gana í suðri og Fílabeinsströndinni í vestri. Landið hét Efri-Volta til ársins 1984 þegar því var breytt í Búrkína Fasó sem merkir „land hinna uppréttu“ á tungumálunum mossi og djúla, sem eru tvö stærstu mál innfæddra. Franska er opinbert tungumál landsins, en aðeins um 15% íbúa tala frönsku daglega.[1] Í landinu eru töluð 59 frumbyggjamál, en um helmingur íbúa talar mossi.[2][3]

Landið fékk sjálfstæði frá Frökkum árið 1960. Lengsta stjórnartíð eftir það átti Blaise Compaoré sem komst til valda eftir hallarbyltingu árið 1987. Hann neyddist til að segja af sér vegna útbreiddra mótmæla ungs fólks 31. október 2014. Forsetakosningar voru haldnar árið 2015 þar sem Roch Marc Christian Kaboré var kjörinn forseti. Kaboré var steypt af stóli árið 2022 og landið var aftur sett undir herforingjastjórn.

Hefðbundnir leirkofar í suðausturhluta landsins.

Veiðimenn og safnarar munu hafa byggt landið frá 12000 til 5000 f.Kr. Minjar um þá, verkfæri úr tinnu, fundust í norðvesturhluta landsins árið 1973. Fastir bústaðir komu fram á sjónarsviðið milli 3600 og 2600 f.Kr. Járn, brenndur leir og slípaðir steinar sem fundist hafa eru frá 1500 til 1000 f.Kr.

Minjar um bústaði Dogona er að finna í norður- og norðvesturhluta landsins en þeir yfirgáfu þetta svæði á 15. og 16. öld og settust að í klettunum í Bandiagara. Leifar af háum veggjum hafa fundist í suðvesturhlutanum, líkt og á Fílabeinsströndinni, en ekki er vitað hverjir reistu þá.

Á 15. og 16. öld var Búrkína Fasó efnahagslega mikilvægt svæði fyrir Songhæveldið sem ríkti yfir svæðinu umhverfis Nígerfljót. Á þeim tíma kom Mossaveldið fram, riddarar frá þorpunum á vatnasviði Volta, og náði það að leggja undir sig stór svæði. Höfuðborg Mossaveldisins var Ouagadougou. Það ríki lögðu Frakkar undir sig eftir langvinnar styrjaldir árið 1896.

Undir frönskum nýlenduyfirráðum

[breyta | breyta frumkóða]

Yfirráð nýlenduherranna voru meira að nafninu til en í reynd og framan af ríkti óvissa um hvaða landsvæði tilheyrði hverjum. Á ráðstefnu 14. júní 1898 skiptu Bretar og Frakkar landinu á milli sín. Andspyrna gegn Frökkum hélt áfram í um fimm ár en henni lauk að mestu þegar þeir innlimuðu Efri-Volta í nýlenduna Efra Senegal og Níger árið 1904.

Menn frá Búrkína Fasó voru kvaddir í senegalska fótgönguliðið í fyrri heimsstyrjöld og 1915-1916 hófst Volta-Bani-stríðið þar sem íbúar vesturhluta Búrkína Fasó og austurhluta Malí börðust gegn nýlendustjórninni í blóðugustu uppreisn sem nýlendustjórn Frakka hafði lent í. Skömmu síðar bundu Túaregar og bandamenn þeirra í norðurhlutanum endi á vopnahléð sem þeir höfðu gert við nýlendustjórnina. Vegna ótta við uppreisnir ákvað nýlendustjórnin að skilja landið frá Efra Senegal. Nýja nýlendan var nefnd Efri-Volta og François Charles Alexis Édouard Hesling varð fyrsti landstjóri hennar.

Hesling hóf mikla vegagerð og reyndi að auka baðmullarframleiðsluna, en aðferðir hans, sem byggðu á valdboði, gengu ekki upp og efnahagur landsins staðnaði. Nýlendan var leyst upp 5. september 1932 og landinu skipt milli Fílabeinsstrandarinnar, Frönsku Súdan og Níger. Bróðurparturinn fór til Fílabeinsstrandarinnar.

Skiptingin var tekin aftur í kjölfar mikillar andúðar á nýlendustjórninni eftir síðari heimsstyrjöld og 4. september 1947 var Efri-Volta búin til á ný innan landamæranna frá 1932. 11. desember 1958 fékk landið heimastjórn sem Lýðveldið Efri-Volta. Fullt sjálfstæði frá Frakklandi varð að veruleika 1960 og fyrsti forseti landsins var Maurice Yaméogo.

Frá sjálfstæði til aldamóta

[breyta | breyta frumkóða]

Fljótlega bannaði Yaméogo alla stjórnmálaflokka aðra en sinn eigin. Árið 1966 var gerð herforingjabylting eftir langvinn mótmæli og verkföll námsmanna og verkafólks. Forseti herforingjastjórnarinnar var Sangoulé Lamizana sem leiddi nokkrar herforingjastjórnir og blandaðar stjórnir allan 8. áratuginn. Ný stjórnarskrá var samþykkt árið 1977 og ári síðar varð Lamizana lýðræðislega kjörinn forseti með miklum meirihluta atkvæða.

Árið 1980 var aftur gerð herforingjabylting leidd af Saye Zerbo sem setti upp stjórnarráð herforingja og ógilti þar með stjórnarskrána. Tveimur árum síðar steypti Jean-Baptiste Ouédraogo honum af stóli en varð ári síðar að víkja fyrir sömu aðgerð Thomasar Sankara. Sankara var, ásamt Blaise Compaoré, fulltrúi róttækari afla innan stjórnarráðsins. Sankara stóð, árið 1984, fyrir því að nafni landsins var breytt úr Efri-Volta í Búrkína Fasó. Sankara bjó til „þjóðarráð byltingarinnar“, sem gegndi hlutverki þings, og „nefndir til verndar byltingunni“ sem þjónuðu hlutverki pólitísks lögregluliðs. Sankara hóf metnaðarfullar þjóðfélagsumbætur, einar þær mestu sem hefur verið reynt að gera á meginlandi Afríku.[4] Utanríkisstefna hans byggðist á and-heimsvaldastefnu; og neitaði ríkisstjórn hans að þiggja ölumsur frá hjálparstofnunum eða ríkjum, hóf niðurgreiðslu skulda, skipaði þjóðnýtingu alls lands og jarðefna og hélt frá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum (AGS) og Alþjóðabankanum. Innanlands var stefnan sett á almennt læsi, landútdeilingu til bænda, lestasamgöngur og vegalagning og bann var sett við; limlestingum á kynfærum kvenna, þvinguðum hjónaböndum og fjölkvæni.[5][4]

Sankara þrýsti á að landið yrði sjálfbjarga með landbúnaðarafurðir og jók lýðheilsu með að láta bólusetja 2,500,000 börn gegn heilahimnubólgu, mýgulusótt, og mislingum.[5] Hann lét einnig planta 10,000,000 trjáa til að hindra eyðimerkurmyndun frá Sahel. Sankara skipaði öllum þorpum að byggja læknastofu (a medical dispensary) og lét yfir 350 sveitarfélög byggja skóla.[4][6]

Á jóladag 1985 kom til átaka milli Búrkína Fasó og Malí um Agacher-ræmuna á landamærum ríkjanna en þar eru miklar auðlindir í jörðu. Stríðinu lauk eftir fimm daga og 100 manns féllu.

Spennan milli verkalýðsfélaganna og byltingarnefndanna, sem sums staðar voru lítið annað en vopnaðir glæpahópar, jókst og 5. október 1987 var Sankara myrtur og Blaise Compaoré tók við völdum. Compaoré ógilti flestar af ákvörðunum Sankara og leyfði m.a. hægrisinnaða flokka á þinginu. Meirihluti íbúa Búrkía Fasó telja að Frakkar hafi staðið á bak við tilræðið.

Nútímasaga

[breyta | breyta frumkóða]

Compaoré sat við völd til ársins 2014 en neyddist þá til að segja af sér vegna fjöldamótmæla. Forsetakosningar voru haldnar næsta ár þar sem Roch Marc Christian Kaboré var kjörinn nýr forseti. Kaboré var endurkjörinn árið 2020 en í janúar 2022 var honum steypt af stóli í herforingjabyltingu.[7]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnarskrá Búrkína Fasó er frá 2. júní 1991. Þar er kveðið á um forsetaræði því forsetinn, sem kosinn er til sjö ára, getur leyst þingið upp. Árið 2000 var kjörtímabil forseta stytt í fimm ár og tók sú ákvörðun gildi eftir kosningarnar 2005. Stjórnlagadómstóll komst þá að því að þessi takmörkun ætti ekki við sitjandi forseta á þáverandi kjörtímabili, Blaise Compaoré, þar sem hann hefði þegar verið forseti árið 2000. Hann var endurkjörinn með miklum mun í kosningunum.

Þing Búrkína Fasó skiptist áður í tvær deildir: þjóðþingið (neðri deild) og fulltrúaþingið (efri deild), en efri deildin var lögð niður árið 2002 og því er löggjafinn aðeins þjóðþingið þar sem 111 fulltrúar sitja, kjörnir til fimm ára í senn.

Stjórnsýsluskipting

[breyta | breyta frumkóða]

Búrkína Fasó skiptist í þrettán héruð, 45 sýslur og 301 umdæmi:

Landafræði

[breyta | breyta frumkóða]
Gervihnattarmynd af Búrkína Fasó.

Mestur hluti Búrkína Fasó er rofslétta en landslagið er dálítið öldótt, með nokkrum stökum hæðum sem eru leifar af fjallgarði frá forkambríumtíma. Í suðvestri eru hins vegar sandsteinsfjöll þar sem hæsti tindur landsins, Ténakourou, rís 749 metra yfir sjávarmál. Meðalhæð yfir sjávarmáli í Búrkína Fasó er 400 metrar. Landið er tiltölulega flatt.

Þrjár þverár Voltafljóts renna í gegnum landið sem áður dró nafn sitt af því: Mouhoun (áður Svarta Volta), Nakambé (áður Hvíta Volta) og Nazinon (áður Rauða Volta). Aðeins tvö fljót renna árið um kring, Mouhoun og Komoé sem rennur í suðvestur. Hluti Búrkína Fasó er svo á vatnasviði Nígerfljóts. Vatnsskortur er oft vandamál, sérstaklega í norðurhlutanum.

Loftslag er aðallega hitabeltisloftslag með tvær skýrt aðgreindar árstíðir: regntímabil sem varir í fjóra mánuði frá maí til september og þurrkatímabil sem varir í átta. Á þurrkatímabilinu blæs harmattan, þurr staðvindur frá Sahara, yfir landið. Landið er heitast og þurrast á eyðimerkurjaðrinum (Sahel) í norðri, en svalara og rakara er í suðri og suðvestri.

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]
Landbúnaðarverkamenn í Búrkína Fasó.

Verg landsframleiðsla á mann í Búrkína Fasó er með því minnsta sem gerist í heiminum og landið er 28. fátækasta ríki heims. Af landsframleiðslunni eru 32% í landbúnaði og við hann vinna 80% íbúanna. Landbúnaður er aðallega kvikfjárrækt, en í suður- og suðvesturhlutanum er stunduð jarðrækt, einkum á dúrru, perluhirsi, maís, jarðhnetum, hrísgrjónum og bómull.

Vegna mikils atvinnuleysis er útflutningur fólks mikill. Sem dæmi má nefna að þrjár milljónir manna frá Búrkína Fasó búa á Fílabeinsströndinni. Samkvæmt Seðlabanka Vestur-Afríkuríkja senda hinir brottfluttu tugi milljarða evra til heimalandsins á hverju ári. Þetta ástand hefur líka leitt til spennu í nágrannaríkjunum.

Stærsta einstaka þjóðarbrotið sem býr í Búrkína Fasó eru Mossi-menn sem eru 40% af íbúafjölda landsins en hin 60 prósentin tilheyra svo yfir 60 þjóðarbrotum. Stærst þeirra eru Gurunsi, Senufo, Lobi, Bobo, og Fula. Tungumál þessara þjóða tilheyra tveimur greinum Níger-Kongómálaættarinnar: Gurmálum og Mandémálum. Um helmingur íbúa landsins eru múslimar, 30% kristnir og aðrir aðhyllast hefðbundin afrísk trúarbrögð.

Í Ouagadougou er haldin árlega önnur stærsta menningarhátíð Afríku: Festival panafricain du cinéma et de la télévision de Ouagadougou (FESPACO).

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Kone 2010, page 9
  2. Brion, Corinne (nóvember 2014). „Global voices Burkina Faso: Two languages are better than one“. Phi Delta Kappan. Sótt 12. október 2020.
  3. „Africa :: Burkina Faso – People and Society – The World Factbook – Central Intelligence Agency“. cia.gov. CIA. Sótt 11. mars 2020.
  4. 4,0 4,1 4,2 Thomas Sankara: The Upright Man by California Newsreel
  5. 5,0 5,1 Commemorating Thomas Sankara by Farid Omar, Group for Research and Initiative for the Liberation of Africa (GRILA), November 28, 2007
  6. X, Mr (28. október 2015). „Resurrecting Thomas Sankara – My Blog“. My Blog (bandarísk enska). Sótt 25. apríl 2017.
  7. „Fordæmir valdarán í Búrkína Fasó“. mbl.is. 24. janúar 2022. Sótt 27. janúar 2022.