Fara í innihald

Sjávarútvegur á Íslandi

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Íslenskur sjávarútvegur)
Færibandavinna í fiskvinnslustöð HB Granda í Reykjavík.

Sjávarútvegur á Íslandi er atvinnuvegur á Ísland i sem nýtir sjávarfang til manneldis og dýraeldis. Sjávarútvegur fæst einnig við rannsóknir í haffræði, fiskifræði, fiskveiðar, matvælavinnslu og markaðssetningu sjávarafurða. Sjávarútvegur er því margþættur þó að lokamarkmiðið sé að selja fiskafurðir. Með stjórnsýslu sjávarútvegsmála fer Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Sjávarútvegur hefur verið mikilvæg atvinnugrein á Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar[1], en einhverjar gjöfulustu veiðislóðir í Norður-Atlantshafi eru í íslenskri lögsögu. Sjávarútvegur átti þátt í að breyta Íslandi frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í byrjun 19. aldar í eina af efnuðustu þjóðum heims um aldamótin 2000.[2][3] Úr hafinu kom ekki einungis matur á borð Íslendinga því fiskurinn hefur einnig verið verðmæt útflutningsvara og er það enn. Saga íslensks sjávarútvegs snýst þó ekki einungis um efnahagslega velferð, heldur hefur sjávarútvegur skipað stóran sess í íslenskri menningu og arfleifð.

Sjávarútvegur stóð árið 2022 fyrir 20% útflutningsverðmæta landsins,[4] ríflega 6% af vergri landframleiðslu og sér um það bil 3,5% íbúanna fyrir atvinnu.[5]

Fiskvinnslukonur á Kirkjusandi í kringum 1910-1920.
Gamaldags sjómaður í Bolungarvík.

Vegna landafræðilegrar staðsetningar Íslands og hrjóstrugs landslags hafa Íslendingar þurft að reiða sig á fiskveiðar og útgerð. Fiskveiðar hófust um leið og norrænir menn námu land við Ísland á níundu öld okkar tímatals. Fátt hefur skipt Íslendinga eins miklu máli í gegnum aldirnar eins og fiskurinn í sjónum. Aflinn sem veiddur var nýttist ekki einungis til matar heldur keyptu Englendingar, Frakkar, Þjóðverjar og Baskar afla af Íslendingum fyrir gott verð. Íslenskt hákarlalýsi lýsti hér áður fyrr upp stórborgir Evrópu.[6]

Árabátaöld, skútuöld og vélaöld

[breyta | breyta frumkóða]

Sögu sjávarútvegsins er oft skipt upp í þrjú skeið: árabátaöld, skútuöld og vélaöld.

Á árabátaöld voru bátar þjóðarinnar mun verr búnir miðað við skip nútímans. Þeir voru opnir og handknúnir og allur aðbúnaður sem þykir sjálfsagður í dag, ekki til þá. Árabátaöldin er langlengsta tímabilið, en það spannar allt frá upphafi byggðar og að fyrsta áratug 20. aldar. Helstu tegundir árabáta sem útgerðir notuðust við voru sexæringar, áttæringar, teinæringar og tólfæringar.[7]

Skútuöldin hófst á áttunda áratug 18. aldar og stóð í um það bil 130 ár. Blómaskeið tímabilsins var á seinnihluta 19. aldar og fór svo að minnka á fyrri hluta 20. aldar og voru síðustu skipin gerð út á árunum 1926-1927.[7]

Vélaöldin hófst árið 1902 þegar að vél var sett í sexæring á Ísafirði. Árið 1905 var til einn svokallaður togari á Íslandi og var hann undir 50 brúttórúmlestir. Menn tóku þessu tímabili almennt fagnandi, þetta þýddi að hægt var að auka fiskmagn úr sjó og sækja fiskinn á fleiri mið. Fólk fékk mun meiri vinnu við aukinn afla og Íslendingar fóru einnig að flytja ferskan fisk út til Bretlands þar sem hann var seldur á mörkuðum. Fyrsti togarinn var keyptur frá Englandi og var hann nefndur Coot, en hann strandaði þremur árum eftir að hann var keyptur. Eftir að fyrsti togarinn var fluttur inn byrjuðu fleiri útgerðir að flytja inn togara og fjölgaði þeim jafnt og þétt. Í kringum 1915 voru togararnir komnir vel yfir 20 og í kringum 1930 voru þeir orðnir 42 talsins.[7] Heildarfjöldi vélknúinna skipa árið 2007 var 1.642 skip/bátar.[8]

Horft yfir höfnina í Stykkishólmi.

Stjórnskipulag fiskveiðikerfis

[breyta | breyta frumkóða]

Fiskveiðistjórnun á Íslandi hefur þróast í áföngum alla 20. öldina. Allt frá árinu 1901 og til ársins 1976 háðu Íslendingar baráttu um forræði yfir fiskimiðum sínum. Má segja að þeir hafi lítið getað stjórnað sókn í mikilvæga fiskistofna þar til því takmarki var náð árið 1976, er 200 mílna fiskveiðilandhelgin gekk í gildi. Áratugirnir síðan þá hafa einkennst af aðgerðum er hafa miðað að því að móta stjórnkerfi fiskveiða með það að leiðarljósi að þær séu í senn hagkvæmar og sjálfbærar hvað nýtingu auðlindanna varðar.[9]

Merki ábyrgra fiskveiða er auðkennismerki íslenskra sjávarafurða.

Kvótakerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Aðalgrein: Íslenska kvótakerfið

Íslenska kvótakerfið er fiskveiðistjórnunarkerfi sem segir til um það hversu mikið íslenskir sjómenn eða íslenskar útgerðir mega veiða af hverri fisktegund á tilteknu tímabili.

Aðalmarkmið kerfisins er að sporna gegn ofveiði á nytjastofnum. Vísindalegt mat á sjávarauðlindum og ráðgjöf um aflamark úr hverjum stofni eru grundvöllur leyfilegs heildarafla sem stjórnvöld ákveða árlega fyrir hvern stofn. Veiðar á öðrum stofnum en þeim sem hafa aflamark eru ekki takmarkaðar eða eru ekki stundaðar.[9]

Lög nr. 38/1990, breytt með lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða eru hornsteinn þess stjórnkerfis sem nú er unnið eftir. Með þeim var lögfest aflamarkskerfi í þeim tegundum sem veiðar eru takmarkaðar á. Framseljanlegar aflaheimildir fyrir flestar veiðar eru þá ákveðnar og veiðiheimildunum úthlutað árlega til einstakra skipa á grundvelli aflahlutdeilda þeirra í viðkomandi tegund. Kvóti skips á hverju veiðitímabili eða vertíð ræðst þannig af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla. Aflamarkið má flytja á milli skipa og framselja það á önnur skip en með nokkrum takmörkunum. Lögin um stjórn fiskveiða hafa tekið nokkrum breytingum frá því að þau tóku gildi í janúar 1991.[10]

Fjölveiðiskipið Áskell EA 48 (nú Birtingur NK) í Seyðisfirði.

Ábyrgð á stjórn fiskveiða ber sjávarútvegsráðherra og framkvæmd laga og reglugerða er lúta að þeim. Hann ákveður heildarafla að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar. Hafrannsóknastofnun er miðstöð vísindalegra rannsókna á nytjastofnum og ber ábyrgð á ráðgjöf um árlegan hámarksafla úr þeim stofnum sem veiðar eru takmarkaðar á. Þá annast Fiskistofa eftirlit og framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og Landhelgisgæslan löggæslu á miðunum.[10]

Kvótakerfið hefur alla tíð verið mjög umdeilt og hefur meðal annars verið gagnrýnt fyrir að ýta undir brottkast og að kippa undirstöðunum undan sjávarþorpum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi.

Skip, bátar og veiðarfæri

[breyta | breyta frumkóða]

Fiskiskip eins og nafnið gefur til kynna eru öll þau skip sem stunda einhvers konar fiskveiðar. Þetta eru smábátar, línuskip/bátar, dragnótabátar, netaskip, skuttogarar, uppsjávarskip og fjölveiðiskip.

Heildarfjöldi skipa við Ísland árið 2007 voru 1.642 fiskiskip. Af þeim voru 84 togarar, 744 voru smábátar og restin skiptist á milli hinna flokkana. Af heildarverðmætum afla ársins 2007 voru togarar með 41% af verðmætum en smábátar með einungis 1%, á meðan 58% skiptust síðan á aðrar bátagerðir.[11]

Hringnót frá Chile full af ca. 400 tonnum af brynstirtlu.

Íslenski veiðiflotinn er einstaklega tæknilega þróaður og er notast við fjölbreytilega tækni og veiðarfæri. Veiðarfærunum er aðallega skipt í sjö flokka: handfæri, línu, net, dragnót, hringnót, botnvörpu eða –troll og flotvörpu eða –troll. Þó veiðarfærin séu flokkuð í svona fáa flokka eru til ótal afbrigði af hverju veiðarfæri fyrir sig.

Hringnótir og nú nýlega flottroll hafa stærsta aflann, þar sem sóst er eftir uppsjávarfiskum í fáum en fjölmennum torfum. Sá afli er oft um 2/3 hlutar heildarafla, þó ekki af aflaverðmætum þar sem uppsjávarfiskurinn er mun verðminni en bolfiskurinn. Aflahæsta veiðarfærið er botnvarpan með 40%-50% af aflaverðmætum og næst á eftir koma línuveiðarnar. Fyrir utan veiðar á humri eru veiðar á hryggleysingjum frekar litlar bæði í verði og afla. [12]

Nytjastofnar við Ísland

[breyta | breyta frumkóða]

Eftirfarandi eru nytjastofnar innan efnahagslögsögu Íslands.[13]

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki skuldsettu sig mikið á árunum rétt fyrir bankahrunið á Íslandi 2008. Í einni fræðilegri úttekt var sýnt fram á að í árslok 1997 hafi nettóskuldir íslensks sjávarútvegs verið 892 millj. SDR eða 87 ma. ISK en í árslok 2008 hafi þær verið 2.473 millj. SDR sem þá var 465 ma. ISK. Þetta er því 437% hækkun eða rúmlega 5-földun á skuldum í ISK en 177% hækkun í SDR. Því er ljóst að efnahagsleg staða greinarinnar hefur stórversnað á þessu tímabili.[14] Hér að neðan má sjá tíu stærstu útgerðir á Íslandi árið 2009.[15]

Nafn Aðsetur Skipafjöldi Samanlagt aflamark í þorskígildistonnum Hlutfall af heildaraflamarki
HB Grandi hf. Reykjavík 12 skip 42.087.681 tonn 18,83%
Samherji hf. Akureyri 13 skip 34.196.091 tonn 15,30%
Ísfélag Vestmannaeyja hf. Vestmannaeyjar 8 skip 27.633.473 tonn 12,36%
Brim hf. Reykjavík 8 skip 20.299.538 tonn 9,08%
Síldarvinnslan hf. Neskaupstaður 8 skip 20.054.308 tonn 8,97%
Skinney-Þinganes hf. Höfn í Hornafirði 11 skip 19.729.760 tonn 8,83%
Vinnslustöðin hf. Vestmannaeyjar 9 skip 17.164.239 tonn 7,68%
Þorbjörn hf. Grindavík 9 skip 15.477.761 tonn 6,93%
FISK-Seafood hf. Sauðárkrókur 6 skip 14.102.548 tonn 6,31%
Vísir hf. Grindavík 5 skip 12.756.344 tonn 5,71%
Samtals: 89 skip 223.501.743 tonn
Kort af löndum eða svæðum með fiskveiðisamkomulag við ESB.

Framleiðsla á íslenskum sjávarafurðum er blanda af hefðbundnum- og nútíma sjávarréttamatseðli á heimsvísu. Hefðbundnir sjávarréttir samanstanda af söltuðum og reyktum afurðum fyrir markaði sem meta hvort tveggja mikils, bæði í hversdagslega rétti og fyrir veisluhöld. En þar sem nútímamaðurinn óskar bæði eftir ferskum og frystum afurðum sem uppfylla kröfur um bragð og heilsusamlegt líferni, sér fiskmarkaðurinn um að útvega hvoru tveggja.[16]

Hinn íslenski nútímafiskiðnaður flytur út vörur fyrir um það bil 170 milljarða íslenskra króna. Stærsti hlutinn fer á Evrópumarkað þar sem Bretlandseyjar og Spánn eru stærstu kaupendurnir. Verulegur hluti er líka fluttur út til annarra Evrópuríkja, Ameríku, Asíu og Afríku. Íslenskar vörur eru þekktar sem hágæðavörur og hefur skapað sér hefð á þessum mörkuðum. Helsta sérkenni íslenskra sjávarafurða er rekjanleiki sem hinn íslenski fiskmarkaður hefur komið á fót. Það þýðir að neytandinn getur vitað hvenær og hvar fiskurinn sem hann var að kaupa veiddist. Einnig er sérstök áhersla lögð á að kynna fiskveiðarnar sem sjálfbærar veiðar, að ekki sé að ganga á fiskistofnanna við Íslandsstrendur.[16]

Meira en helmingur af útflutningsverðmætum sjávarútvegs eru botnfisktegundir, þá aðallega þorskur en þónokkur hluti er unninn úr ýsu, ufsa og karfa. Framleiðsla úr úthafsfiskitegundum og hryggleysingjum er um það bil jöfn og stendur hún fyrir stærstum hluta af því sem eftir er. Síðastliðin ár hefur hluti þeirrar fyrrnefndu aukist á meðan útflutningur á hryggleysingjum hefur dregist saman.[16]

Sjókvíar í Brønnøysund í Noregi.

Fiskeldi á Íslandi hófst nokkru fyrir 1900 en lét lítið fyrir sér fara þar til á seinni hluta níunda áratugarins. Þá hófst mikil uppvaxtartíð í ræktun laxfiska. Rekstur fiskeldisstöðvanna gekk þó brösulega og flestar þeirra urðu gjaldþrota. Árið 2008 voru um 50 skráðar fiskeldisstöðvar á landinu. Nú eru um tíu tegundir eldisfiska ræktaðar en bleikja er í miklum meirihluta.

Útflutningur fiskeldisafurða náði hámarki árið 2006 þegar yfir 5.000 tonn voru flutt út fyrir andvirði tveggja milljarða íslenskra króna. Árið 2008 minnkaði útflutningurinn um 2.000 tonn. Bandaríkin hafa til þessa verið stærsti kaupandi íslenskra eldisfiska.[17]

Skaðvaldar í sjávarútvegi

[breyta | breyta frumkóða]

Fiskar fá sjúkdóma, rétt eins og aðrar lífverur. Fiskasjúkdómar geta valdið miklum skaða í fiskeldi eða skrautfiskaræktun. Sjúkdómar í fiski eru flokkaðir eftir ástæðu í bakteríusýkingar, sveppasýkingar, sníkla (t.d. hringorma), vírussjúkdóma, efnaskiptasjúkdóma, sjúkdóma af völdum ástands vatnsins (umhverfissjúkdómar) og skortssjúkdóma eða eftir þeim líffærum sem verða fyrir sjúkdómnum. Meðferð við sjúkdómum í fiski er með ýmsum hætti og fer eftir bæði sjúkdómnum og umhverfisaðstæðum.

Haustið 2008 greindist töluvert magn af sýktri síld við strendur landsins. Þar var um að ræða sýkil sem dregur síldina til dauða. Sumarið 2009 var talið að um 30% síldarinnar væri enn sýkt.[18][19]

Veitt niður fæðuvefinn.

Of mikilli sókn eða svonefndri ofveiði er oftast kennt um eyðingu fiskstofna. Ofveiði verður þó að teljast vera mjög teygjanlegt hugtak. Það sem talið er skipta höfuðmáli í sambandi við eyðingu fiskstofna er ástand sjávar eða árferði, smáfiskadráp svonefnt og of mikil sókn miðað við aðstæður.[20]

Þegar ofveiði er við lýði í lengri tíma, veldur hún á endanum hruni fiskistofns þar sem tegundin nær ekki að fjölga sér nógu hratt til að vega á móti fiskveiðidauðanum. Þegar fiskur verður markaðslega útdauður, þýðir það ekki að tegundin sé sjálf útdauð heldur að ekki sé lengur hægt að stunda sjálfbærar veiðar á tegundinni. Vandamál skapast þegar slíkar veiðar eru styrktar (t.d. af ríkinu eða ESB) þegar þær eru ekki lengur arðsamar og er því áfram gengið á stofn sem hefði annars fengið að vera í friði til að ná sér upp aftur.[21]

Fjölmörg náttúruleg og tilbúin efni berast út í umhverfið vegna athafna mannsins og geta valdið mengun. Þar á meðal eru náttúruleg frumefni og efnasambönd sem hafa eiturvirkni eða valda röskun á lífríki við aukinn styrk. Enn fremur framleiða menn í iðnvæddum samfélögum fjölmörg lífræn efnasambönd sem ekki fundust í óraskaðri náttúru.

Mengandi efni geta borist hafinu eftir ýmsum leiðum: með ám og fljótum, með úrkomu, með loftbornu ryki, með skólpi frá þéttbýli og frárennsli iðnaðar og frá skipum, annað hvort við losun eða vegna slysa.[22]

Klórlífræn efni

[breyta | breyta frumkóða]

Notagildi margra klórlífrænna efna byggist á stöðugleika þeirra, en það er einmitt sá eiginleiki sem veldur því að efnin brotna seint niður í náttúrunni. Vegna þrávirkni og fituleysni klórlífrænna efna safnast þau fyrir í lífverum og styrkur þeirra getur margfaldast eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjunni. Meðal klórlífrænna efna eru meðal annars eitthvert sterkasta eitur sem þekkist eða dioxin, og hið þekkta PCB.[22]

Þungmálmar

[breyta | breyta frumkóða]

Margir þungmálmar eru nauðsynlegir starfsemi lífvera en geta haft eiturverkan verði styrkur þeirra óeðlilega hár. Sem dæmi má nefna kopar og sink. Blý, kvikasilfur og kadmín gegna hins vegar engu nauðsynlegu hlutverki í lífríkinu. Þessir málmar geta verið skaðlegir mönnum og lífríki jafnvel við lágan styrk í fæðu og umhverfi.[22]

Sjávarlíftækni

[breyta | breyta frumkóða]
Líftækninemi við rannsóknarstörf í Háskólanum á Akureyri, eina íslenska skólanum sem býður upp á nám til B.Sc. gráðu bæði í líftækni og sjávarútvegsfræði.

Sjávarlíftækni er undirgrein líftækni og hvílir því á grunni örverufræði, lífefnafræði, erfðafræði, sameindaerfðafræði og verkfræði. Líkt og í líftækni almennt, þá eru markmið sjávarlíftækninnar að finna og einangra lífvirk efni úr sjávarlífverum, nýta aukaafurðir sjávarútvegs og fiskvinnslu til verðmætasköpunar og nýta sjávarlífverur til framleiðslu lyfja og annarra verðmætra afurða.[23]

Höfin þekja um 71% af yfirborði plánetunnar og umlykja 99% af lífhvolfinu. Í hafinu er að finna fjölbreyttar aðstæður hvað varðar hitastig, birtu, þrýsting, seltu og sýrustig, en allt eru þetta umhverfisaðstæður sem máli skipta fyrir vöxt og viðgang hinna ýmsu lífvera hafsins. Af þessum sökum er tegundasamsetning lífheims hafsins afar fjölbreytt og hefur raunar aðeins hafa verið rannsökuð að takmörkuðu leyti [24]. Þess má geta að aðeins er talið að um 1% lífvera í höfunum séu að einhverju eða öllu leyti rannsakaðar og að einungis um 5% af höfum jarðar hafa verið rannsökuð. Í rauninni er meira vitað um tunglið en höfin.[25]

Nýting aukaafurða

[breyta | breyta frumkóða]

Reynt er að finna hagkvæm not fyrir úrgang sem fellur til við vinnslu á sjávarfangi. Í nýtingu sjávarfangs og úrgangs frá sjávarútvegi til framleiðslu lífvirkra efna er oft notast við bakteríur til framleiðslunnar. Gjarnan eru á ferðinni sjávarbakteríur sem hafa verið einangraðar sérstaklega vegna sérhæfni þeirra eða erfðabreyttar bakteríur sem hafa aukna getu til vinnslu lífvirkra efna. Að nýta bakteríur til þessara hluta er mjög ódýr kostur og að mörgu leyti hagkvæmari en nýting efnafræðilegra aðferða. Til langs tíma var einungis horft til nýtingar á stærri sjávarlífverum svo sem fiskum og þara. Ný sóknarfæri hafa hinsvegar skapast þegar litið er til annarra lífvera sem þrífast í hafinu.[25]

Þetta leiðir af sér gríðarleg tækifæri til að finna lífverur sem geta framleitt — eða innihalda sjálfar — efni sem nýtast í lyfjaiðnaði og fela hugsanalega í sér lækningu við sjúkdómum sem mannkynið hefur barist við lengi. Sjávarlíftækni er tiltölulega ný af nálinni og því gríðarlegir möguleikar í boði. Í Japan og Bandaríkjunum er mikil aukning á fjármagni til rannsókna á þessu sviði. Á Íslandi hefur þetta farið stigvaxandi síðustu 10 til 20 árin. Þar er nú að finna fjölmörg smáfyrirtæki sem sérhæfa sig að einhverju eða öllu leyti í iðnaði nátengdum sjávarlíftækni. Afurðirnar eru svo nýttar í ýmsan iðnað þó svo að stærsti markhópurinn sé lyfja-, fæðubótarefna- og snyrtivöruiðnaðurinn.[23]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Víkin sjóminjasafn. Mikilvægi sjávarútvegs í sögu þjóðar. Sótt 29. október 2009 af [1].
  2. Upplýsingamiðstöð Sjávarútvegsráðuneytisins. Economy. Sótt 2. desember 2009 af Fisheries.is Geymt 6 nóvember 2009 í Wayback Machine.
  3. Valgerður Sverrisdóttir. (2000) Erindi á TÓRREK 2000. Sótt 29. október 2009 af [2].
  4. „Vöru- og þjónustuviðskipti“. Hagstofan. Sótt 28.2.2024.
  5. „Radarinn: Mælaborð sjávarútvegs og fiskeldis“. SFS. Sótt 28.2.2024.
  6. Jón Þ. Þór (2002). Sjósókn og sjávarfang. Saga Sjávarútvegs á Íslandi (1. bindi). Akureyri: Sjávarútvegsráðuneytið - Bókaútgáfan Hólar.
  7. 7,0 7,1 7,2 Jón Þ. Þór (2003). Uppgangsár og barningsskeið. Saga sjávarútvegs á Íslandi (2. bindi). Akureyri: Sjávarútvegsráðuneytið - Bókaútgáfan Hólar.
  8. Upplýsingamiðstöð Sjávarútvegsráðuneytisins. Fisheries. Sótt 10. apríl 2009 af Fisheries.is.
  9. 9,0 9,1 Gamla upplýsingarveita Sjávarútvegsráðuneytisins (2007). Stjórnkerfi fiskveiða á Íslandi. Sótt þann 19. apríl 2009 af Old.Fisheries.is Geymt 15 mars 2012 í Wayback Machine.
  10. 10,0 10,1 Alþingi (2006). Lög um stjórn fiskveiða nr. 116/2006. Sótt 19. apríl 2009 af Althingi.is.
  11. Upplýsingamiðstöð Sjávarútvegsráðuneytisins. Fishing Vessels. Sótt 9. apríl 2009 af Fisheries.is.
  12. Upplýsingamiðstöð Sjávarútvegsráðuneytisins. Fishing Gear. Sótt 20. apríl 2009 af Fisheries.is.
  13. Upplýsingamiðstöð Sjávarútvegsráðuneytisins. Main Species. Sótt þann 19. apríl 2009 af Fisheries.is[óvirkur tengill]
  14. Stefán B. Gunnlaugsson (2010). „Fjárhagsstaða íslensks sjávarútvegs“.
  15. SAX. (2009). Útgerðir. Sótt 16. apríl 2009 af Sax.is Á síðunni má einnig finna allar útgerðir á Íslandi, listaðar í stafrófsröð.
  16. 16,0 16,1 16,2 Upplýsingamiðstöð Sjávarútvegsráðuneytisins. Products. Sótt 11. apríl 2009 af Fisheries.is Geymt 22 apríl 2009 í Wayback Machine.
  17. Upplýsingamiðstöð Sjávarútvegsráðuneytisins. Aquaculture. Sótt 2. desember 2009 af Fisheries.is Geymt 5 nóvember 2009 í Wayback Machine.
  18. RÚV. (2009). Síldin enn mikið sýkt. Sótt 25. ágúst 2009 af ruv.is.
  19. mar.is. (2009). Ennþá sýkt síld fyrir suðausturlandi. Sótt 25. ágúst 2009 af mar.is[óvirkur tengill].
  20. Svend-Aage Malmberg (1979). Ástand sjávar og fiskstofna við Ísland. I. Ofveiði og hafstraumar. Ægir, 72: 414-419. Sótt þann 15. apríl af Hafro.is.
  21. Jennings, S., Kaiser, M. og Reynolds, J. (2008). Marine Fisheries Ecology (7. útgáfa). United Kingdom: Blackwell Science Ltd. (bls. 9-10).
  22. 22,0 22,1 22,2 Jón Ólafsson, Guðjón A. Auðunsson, Stefán Einarsson og Magnús Daníelsson (1994). Klórlífræn efni, þungmálmar og næringarsölt á Íslandsmiðum. Í Íslendingar, hafið og auðlindir þess, bls. 225-251. Ritstj.: Unnsteinn Stefánsson. Reykjavík: Vísindafélag Íslendinga.
  23. 23,0 23,1 Jóhann Örlygsson (2002). Möguleikar í sjávarlíftækni. Unnið fyrir Iðnaðarráðuneytið og Atvinnuþróunnarfélag Eyjafjarðar.
  24. Frétt um nýjar tegundir á vef Ríkisútvarpsins 5. desember 2009[óvirkur tengill]
  25. 25,0 25,1 MarineBio. A History of the Study of Marine Biology . Sótt þann 20. apríl 2009 af MarineBio.org[óvirkur tengill].

Tenglar á íslenskar upplýsingasíður

[breyta | breyta frumkóða]