Coot

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Málverk af Coot eftir Bjarna Sæmundsson sem fékkst við hafrannsóknir á skipinu sumarið 1906

Coot (enska: „blesönd“) var fyrsti togari Íslendinga. Togarinn var smíðaður í Glasgow árið 1892 af William Hamilton & Co. Hann kom til hafnar í Hafnarfirði þann 6. mars árið 1905. Sex Íslendingar, þar á meðal Björn Kristjánsson og Einar Þorgilsson kaupmenn, keyptu hann frá Aberdeen í Skotlandi af Silver City Steam Trawling Company fyrir hlutafélag sitt, Fiskveiðahlutafélag Faxaflóa. Hluti eigenda var úr Hafnarfirði en hluti úr Reykjavík og voru stjórnarfundir haldnir þar þótt skipið gerði út frá Hafnarfirði. Skipið var frá upphafi búið til botnvörpuveiða og þrjár botnvörpur fylgdu því til landsins. Fyrsti skipstjóri skipsins var Indriði Gottsveinsson sem líka var einn eigenda þess, vélstjórar voru tveir, einn enskur og hinn danskur, og matsveinn var danskur, en áhöfnin var að öðru leyti skipuð Íslendingum. Skipið var 98 fet á lengd, 154 brúttótonn og búið 225 hestafla gufuvél. Útgerð skipsins þótti gefast vel og varð hvatning til að bæta við togaraflotann.

Þann 14. desember 1908 sigldi Coot frá Reykjavík til Hafnarfjarðar með skipið Kópanes í eftirdragi, en það var í eigu P.J. Thorsteinsson & Co.. Þegar skipin komu í mynni Hafnarfjarðar slitnaði Kópanesið aftur úr Coot og taugin flæktist í skrúfu togarans. Bæði skipin hröktust þá undan vindi og strönduðu á Keilisnesi. Áhafnir beggja skipanna björguðust en skipin sjálf eyðilögðust.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]