Fara í innihald

Sveinn tjúguskegg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sveinn og Jómsvíkingar sverja hverjir öðrum trúnað í erfidrykkju Haralds blátannar
Málverk eftir Lorenz Frølich um 1883-1886 í Friðriksborgarhöll.

Sveinn tjúguskegg (~9603. febrúar 1014) varð einn konungur Danmerkur um 986 en hafði áður verið konungur með föður sínum, Haraldi blátönn, um nokkurra ára skeið. Ekki er vitað hver móðir Sveins var en faðir hans var að minnsta kosti tvíkvæntur.

Þeir feðgarnir urðu ósæáttir og leiddi Sveinn uppreisn gegn föður sínum sem leiddi til þess að hann var hrakinn frá völdum en Sveinn varð einn konungur. Haraldur flúði á náðir Jómsvíkinga og dó í Jómsborg ekki löngu síðar. Samkvæmt Saxo Grammaticus var hann særður til ólífis með ör frá Pálna-Tóka. Þá segir sagan að Jómsvíkingar hafi rænt Sveini og krafist þyngdar hans í gulli sem lausnargjalds, en danskar konur hafi þá látið skartgripi sína fyrir konunginn. Eftir þetta sóru Jómsvíkingar Sveini trúnað í erfidrykkju eftir Harald. Þessar frásagnir Saxo eru þó ekki taldar ýkja trúverðugar.

Orrustan við Svoldur

[breyta | breyta frumkóða]

Sveinn var víkingakonungur og fór í víking til Englands bæði fyrir og eftir að hann varð konungur. Í för með honum var Ólafur digri sem síðar varð konungur Noregs. Sveinn hafði tekið við Noregi eftir föður sinn, en Hákon Sigurðarson Hlaðajarl fór í raun með öll völd. Hákon varð þó með tímanum óvinsæll og þegar Ólafur Tryggvason hélt til Noregs frá Englandi tókst honum að ná undir sig völdum, drap Hákon og varð konungur. Systir Sveins, Þyri, var þá gift Búrisláf konung Vinda en var ósátt við þann ráðahag. Hún skildi við hann en hélt til Noregs og giftist Ólafi í óþökk Sveins. Þegar Ólafur var á heimleið eftir að hafa krafist heimanmundar Þyri í Pommern, sátu þeir fyrir honum, Sveinn mágur hans, Eiríkur Hákonarson Hlaðajarl og Ólafur skotkonungur úr Svíþjóð við eyjuna Svoldur. Í sjóorrustunni stökk Ólafur Tryggvason fyrir borð og týndist. Sveinn tók þá aftur við ríki í Noregi, en Eiríkur jarl og bróðir hans Sveinn fóru þó með öll völd annars staðar en í Víkinni.

Innrásin í England

[breyta | breyta frumkóða]
Sveinn tjúguskegg. Lágmynd í Swansea Guildhall í Wales.

Sveinn réðist inn í England 1003 vegna þjóðernishreinsana Aðalráðs ráðlausa, Englandskonungs, á norrænu fólki í Danalögum. Gunnhildur, systir Sveins, hafði þá verið drepin af mönnum Aðalráðs. Aðalráður sá sér þann kost vænstan að semja um frið og Sveinn innheimti hátt lausnargjald, Danagjöld, fyrir að hafa sig á brott.

Árið 1013 gerði Sveinn allsherjar innrás í England, ásamt Knúti syni sínum, með það að markmiði að leggja landið undir sig. Þegar Sveinn réðst á London er sagt að íbúar borgarinnar hafi rifið brúna yfir ána Thames (sbr. barnagæluna London bridge is falling down) til að reyna að hindra framrás víkinganna. Sveinn þurfti að hörfa, en næstu mánuði lagði hann undir sig allt England, nema London, þar sem Aðalráður hélt sig.

Þegar Aðalráður flúði til Normandí síðla árs 1013 varð Sveinn formlega konungur Englands. Hann naut þess þó ekki lengi því að einungis fimm vikum síðar lést hann í Gainsborough. Hann var fyrst lagður til hvílu í dómkirkjunni í Jórvík en seinna voru jarðneskar leifar hans fluttar í Hróarskeldudómkirkju.

Eftirmenn Sveins

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrri kona Sveins var Gunnhildur, hertogadóttir frá Póllandi, og áttu þau synina Harald 2. og Knút ríka. Seinni kona hans var Sigríður stórráða drottning í Svíþjóð og var dóttir þeirra Ástríður, móðir Sveins Ástríðarsonar.

Haraldur, elsti sonur Sveins, tók við ríki í Danmörku. Bróðir hans, Knútur, sem hafði verið með Sveini í víking á Englandi sneri heim með flotann, en Haraldur vildi ekki hafa hann í Danmörku með allan þennan her. Aðalráður sneri í millitíðinni aftur heim til Englands og reyndi að komast aftur til valda ásamt syni sínum, Játmundi járnsíðu. Knútur hélt þá flotanum til Englands, barðist við þá og hafði sigur að lokum.

Auknefni konungsins vísar líklega til yfirvaraskeggs sem skipt er í miðju, sem var í tísku í Englandi á þessum tíma, en ekki til tvískipts hökuskeggs.


Fyrirrennari:
Haraldur blátönn
Danakonungur
(um 9861014)
Eftirmaður:
Haraldur 2.
Fyrirrennari:
Ólafur Tryggvason
Noregskonungur
Hlaðajarlar stýrðu Noregi í umboði Sveins
(10001014)
Eftirmaður:
Ólafur digri
Fyrirrennari:
Aðalráður ráðlausi
Konungur Englands
(10131014)
Eftirmaður:
Aðalráður ráðlausi