Sveinn Eiríksson Grathe

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sveinn Eiríksson (112523. október 1157), sem eftir dauða sinn hefur verið nefndur Sveinn Grathe, var konungur Danmerkur frá 1146 til dauðadags, lengst af ásamt Knúti Magnússyni og síðustu mánuðina með Valdimar Knútssyni.

Sveinn var sonur Eiríks eymuna, sem var konungur 1134-1137. Þegar hann var drepinn var Sveinn of ungur til að keppa um konungdæmið og Eiríkur lamb frændi hans varð konungur. Sveinn var sendur til Þýskalands og ólst þar upp. Þegar Eiríkur sagði af sér 1146 var Sveinn aftur á móti fullvaxinn og Knútur Magnússon frændi hans líka. Sveini tókst að láta kjósa sig konung í Skáni og á Sjálandi en Jótar studdu Knút Magnússon og næstu árin geisaði borgarastyrjöld í Danmörku.

Valdimar frændi þeirra, sonur Knúts lávarðs, var lengi framan af í liði Sveins, stýrði herjum hans og þótti standa sig mjög vel. Á endanum leitaði Knútur til Friðriks 1. Þýskalandskonungs, sem stefndi konungunum til fundar í Merseburg 1152. Þar dæmdi Friðrik að Sveinn skyldi verða konungur Danmerkur en um leið lénsmaður sinn og lét hann heita því að Knútur fengi Sjáland að léni. Sveinn stóð þó ekki við það heit og því reiddist Valdimar. Sveinn beindi öllum kröftum sínum í borgarastyrjöldina og sinnti lítt um varnir gegn Vindum, sem stöðugt stunduðu sjórán á Eystrasalti og strandhögg í sunnanverðri Danmörku. Hann þótti allt of hallur undir Þjóðverja og aflaði sér þannig óvinsælda.

Valdimar varð honum á endanum fráhverfur og þegar Sveinn áttaði sig á því reyndi hann að ryðja honum úr vegi eða gera hann óskaðlegan en mistókst og Valdimar gekk í bandalag við Knút. Í sameiningu hröktu þeir Svein til Þýskalands, þar sem hann flakkaði um í þrjú ár og reyndi að afla sér stuðnings. Að lokum tókst honum það og hann sneri aftur til Danmerkur. Konungarnir þrír settust að samningaborði og skiptu ríkinu í þrennt, Valdimar fékk Jótland, Knútur Sjáland og Sveinn tók Skán.

Sveinn bauð svo meðkonungum sínum til sáttaveislu í Hróarskeldu þann 9. ágúst 1157. Þar drápu menn hans Knút en Valdimar komst undan á flótta þótt særður væri. 23. október um haustið mættust Sveinn og Valdimar í orrustu á Grathe-heiði. Sveinn beið lægri hlut, flúði út í mýrlendi þar sem hann tapaði vopnum sínum og verjum, náðist svo og var höggvinn. Hann var að sögn huslaður á aftökustaðnum og þar var seinna reist kapella. Eftir dauða sinn hefur hann jafnan verið nefndur eftir staðnum þar sem hann féll og kallaður Sveinn Grathe.

Kona hans var Adele af Wettin en þau áttu ekki börn sem lifðu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Eiríkur lamb
Konungur Danmerkur
með Knúti Magnússyni og Valdimar Knútssyni
(11461157)
Eftirmaður:
Valdimar mikli Knútsson