Fara í innihald

Magnús Eiríksson smek

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Innsigli Magnúsar konungs smek.

Magnús Eiríksson smek eða Magnús 7. (13161. desember 1374) var konungur Noregs frá 13191355, konungur Svíþjóðar 13191364 og konungur Skánar 13321360.

Magnús var sonur Eiríks Magnússonar hertoga af Södermanland, sem var sonur Magnúsar hlöðuláss Svíakonungs og bróðir Birgis Magnússonar konungs. Móðir Magnúsar var Ingibjörg dóttir Hákonar háleggs Noregskonungs. Hákon dó árið 1319 og þar sem hann átti enga syni erfði Magnús ríkið. Um svipað leyti var Birgir konungur hrakinn úr landi í Svíþjóð eftir að hafa orðið valdur að dauða bræðra sinna, Eiríks og Valdimars (ekki er ljóst hvort hann lét taka þá af lífi eða svelta þá í hel) og stóð Magnús þá næstur til ríkiserfða og varð einnig konungur Svíþjóðar, þriggja ára að aldri.

Móðir hans réði miklu fyrstu árin en fljótlega tóku þó aðalsmenn í báðum ríkjunum völdin og í Noregi varð Erlingur Viðkunnsson valdamestur en í Svíþjóð var það Knútur Jónsson dróttseti. Árið 1332 báðu íbúar Skánar Magnús um stuðning gegn holsteinskum kaupmönnum sem höfðu tekið héraðið í pant. Magnús keypti Skán lausan og útnefndi sjálfan sig konung þar. Þetta vildi Valdimar atterdag Danakonungur ekki fallast á og leiddi þetta til styrjaldar milli þeirra, sem lauk árið 1333 með því að Valdimar afsalaði sér Skáni og Hallandi til Magnúsar.

Magnús átti þó í miklum erfiðleikum með að greiða kaupverðið fyrir Skán og jafnframt heimanmund Eufemiu systur sinnar, þegar hún giftist Albrekt 2. hertoga af Mecklenburg, og þurfti að veðsetja hluta ríkis síns og leggja á þunga skatta. Þrátt fyrir það þótti ekkert skorta á íburð og munað við hirðina og vakti þetta gremju þegnanna.

Kona Magnúsar var Blanka af Namur (Namur liggur í núverandi Belgíu) og gengu þau í hjónaband haustið 1335. Hefðarfrúin Birgitta af Vadstena (seinna heilög Birgitta) var fengin til að kenna drottningunni ungu en reyndist konunginum óþægur ljár í þúfu og ásakaði hann seinna um samkynhneigð. Þær ásakanir, ásamt dálæti sem konungur hafði á einum hirðmanna sinna, munu hafa verið kveikjan að auknefni hans (smek = gælur). Birgitta átti raunar sonarson sem hún vildi koma í hásætið í Svíþjóð og hefur það sjálfsagt verið meginástæðan fyrir fjandskap hennar.

Blanka og Magnús áttu tvo syni, Eirík og Hákon, og árið 1343 var Hákon hylltur sem konungur í Noregi og tók svo formlega við 1355 en faðir hans afsalaði sér um leið konungdómi þar. Eldri bróðirinn, Eiríkur, var útnefndur ríkisarfi í Svíþjóð 1343. Óánægja með stjórn Magnúsar óx stöðugt og sænskum aðalsmönnum tókst að fá Eirík til liðs við sig og gerðu þeir uppreisn gegn konungi 1356. Magnús þurfti að afsala sér stórum hluta ríkisins til Eiríks. Hann sneri sér þá til Valdimars Danakonungs og samdi við hann um stuðning. Árið 1359 dó Eiríkur skyndilega og Magnús varð aftur einráður í Svíþjóð og þurfti ekki á stuðningi Valdimars að halda. Valdimar fannst hann þá hafa verið hlunnfarinn og réðist inn í Skán 1360. Magnús lenti líka í átökum við Hákon, sem hneppti föður sinn í varðhald 1361.

Skömmu síðar var Hákon gerður að konungi Svíþjóðar einnig en hann gerði þó samkomulag við föður sinn um að þeir skyldu stýra ríkinu saman. Í apríl 1363 kvæntist Hákon svo Margréti dóttur Valdimars. Það sættu sænsku aðalsmennirnir sig ekki við. Þeir sneru sér þá til Albrekts 3. hertoga af Mecklenburg, systursonar Magnúsar, sem kom með her til Stokkhólms, var hylltur þar og kjörinn konungur í febrúar 1364. Feðgarnir Magnús og Hákon réðu þá aðeins litlum hluta landsins og eftir orrustu í Gautaskógi vorið 1365 var Magnús tekinn til fanga, sat í varðhaldi til 1371 og fór þá til Hákonar sonar síns í Noregi. Hann drukknaði 1. desember 1374.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Hákon háleggur
Noregskonungur
(13191155)
Eftirmaður:
Hákon 6. Magnússon
Fyrirrennari:
Birgir Magnússon
Svíakonungur
með Eiríki Magnússyni 1356-1359
og Hákoni Magnússyni 1362-1364
(13191364)
Eftirmaður:
Albrekt af Mecklenburg