Matthildur keisaraynja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Matthildi í 15. aldar handriti

Matthildur keisaraynja (um 7. febrúar 110210. september 1167) gerði tilkall til ensku krúnunnar á tímabili sem kallað er stjórnleysið í Englandi. Hún var dóttir Hinriks 1. Hún var trúlofuð Hinriki 5. keisara átta ára gömul og flutti þá til Þýskalands. Þau giftust síðan þegar hún varð tólf ára og fjórtán ára var hún orðin fullgildur þátttakandi í stjórn keisaradæmisins með manni sínum. Þetta var á tíma skrýðingardeilunnar milli keisarans og páfans í Róm. Þau áttu engin börn og Hinrik lést árið 1125. Faðir hennar átti þá engan karlkyns erfingja þar sem bróðir hennar, William Adelin, hafði farist með Hvíta skipinu 1120. Hann ákvað því að gera Matthildi að erfingja sínum. Í kjölfarið var hún gift Geoffrey af Anjou. Árið 1133 eignaðist hún son sem síðar varð Hinrik 2. Þegar Hinrik 1. dó 1135 áttu þau Geoffrey í átökum við konungsherinn vegna yfirráða í Normandí. Stefán af Blois, systursonur Hinriks 1., hélt þá til Englands og tók völdin. Matthildur og Geoffrey héldu landsvæði í suðurhluta Normandí og gerðu áfram tilkall til krúnunnar. Borgarastyrjöld hófst síðan í Englandi 1138 þegar hálfbróðir Matthildar, Róbert af Gloucester, lýsti Stefáni stríði á hendur. Árið eftir gerðu Matthildur og Geoffrey innrás í England og næstu ár börðust þau Stefán um völdin í Englandi og Normandí. Geoffrey lést árið 1151 og 1153 var samið um frið með þeim skilmálum að Hinrik, sonur Matthildar, viðurkenndi Stefán sem konung gegn því að Hinrik yrði ríkisarfi. Eftir lát Stefáns 1154 tók Hinrik því við völdum sem fyrsti Englandskonungur af Plantagenet-ætt. Matthildur bjó eftir það í Normandí þar sem hún tók virkan þátt í stjórn ríkisins. Hún lést árið 1167.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.